Að tiltekt lokinni

Að tiltekt lokinni 150 150 Freyr

Litlu verður Vöggur feginn. Að lokinni tiltekt helgarinnar get ég nú gengið um bílskúrinn minn. Án þess að færa mikið í stílinn get ég nú sagt að hver hlutur eigi þar sinn stað. Skúffur, kassar og hillur eru nú merktar. Ef ég nú stend á miðju skúrgólfinu með hlut í hendi get ég á svipstundu komið honum fyrir á réttan stað. Röðin og reglan lifa. Annar enn stærri kostur… Ef ég stekk inn í skúr eftir einhverjum hlut, þá bíður hann mín, þar sem vænta mátti. Alvöru fagmönnum og skynsömu fólki er þetta engin frétt. Stebbi stórsmiður, Pétur í Hildisey og Helga frænka hafa í áraraðir sýnt mér kosti þessa fyrirkomulags. Batnandi mönnum er best að lifa, ekki satt?

Það kemur lesendum líklega ekki á óvart að augnabliki eftir að sést loksins í nakið skúrgólfið hjá mér er ég farinn að predika um hreint og fagurt líf. Er þá komið að helstu hugleiðingu þessa pistils. Mín tilgáta er að ef ,,homo digitalis“ á að njóta sinnar glímu við áreiti og upplýsingar þurfi hans ,,upplýsinga-bílskúr“ að vera vel skipulagður. Tiltekt tel ég því jafn mikilvæga í haus og viðbrögðum og í hrúgunni í bílskúrnum.

Hvert sem hlutverk okkar er getur verið áskorun að bregðast við áreiti eða finna upplýsingar sem við geymum. Yfir daginn og vikuna dynur ýmislegt á okkur. Á augnabliki þurfum við að bregðast við. Við þurfum að greina kjarnann frá hisminu. Hunsa eða hugsa málið? Geyma eða gleyma? Okkar er valið.

Góður punktur í fyrirlestri. Ábending um bók eða mynd. Nýtt verkefni. Símtal meðan þú ert á fundi, með vini, á kvöldmatartíma? Óumbeðinn tölvupóstur. Mikilvægt skeyti á messenger. Auglýsing. Fréttir. Boð í barnaafmæli… á Facebook, með pósti, með miða? Rautt tákn á símaskjá. Ábending um ólesið skeyti. Barnsgrátur. Augljós mistök dómara í knattspyrnuleik…

Hvernig bregðumst við við? Ef ástandið er svipað og í mínum skúr fyrir helgi, þá er ekki víst að fari vel. Óundirbúin er líklegast að við eltum ómerkilegt áreiti eins og hundur skottið á sér. Opnum allt, skoðum allt, svörum öllu. Ómeðvitað, einhvernveginn.

Er dagatalið rétt? Hvenær er grillið? Rekst það á eitthvað annað? Hvernig vitum við að búið var að svara mikilvæga skeytinu eða tölvupóstinum? Eða hvar og hvernig geymum við heimsins bestu hugmynd sem við lesum í heimsins besta pistli? Þrátt fyrir góðan vilja gæti verið betra að nýta sér annan geymslumiðil en gleyminn kollinn. Af mörgu er að taka. Einum hentar bók og miðar, öðrum skjal í skýi, þriðja Notion o.s.frv. Hér sannast hið margkveðna. Það er ekki tólið eitt og sér sem sælunni veldur, heldur hver og hvernig á heldur!

Tiltekt og skipulag gagnvart áreiti snýst ekki bara um að eiga fína minnisbók, eða fullkominn hugbúnað, heldur hvernig við vinnum með það. Hvernig við höfum fyrirfram ákveðna leið fyrir tiltekið áreiti. Við þurfum að ákveða hvar við geymum og vinnum með verkefnalista, fundarbókanir, áminningar, ábendingar o.s.frv. Við þurfum að geta brugðist við með vitund og vilja hvar og hvenær sem er. Hver með sínum hætti, eftir eðli áreitis og upplýsinga. Til þess að svo megi verða þurfum við að gefa okkur tíma í tiltektina. Við þurfum tíma til að rýna í og velja hlutum stað. Sættum okkur við að ekki verður allt fullkomið í fyrstu yfirferð. Tökum fyrir einn hlut í einu, eina tegund áreitis og ákveðum viðbragð, eða viðeigandi ,,skúffu“ og gerum síðan okkar besta til að halda hreinu.

Freyr hinn fullkomni, sem í síðustu viku gargaði sig hásan yfir röngum dómi á knattspyrnuvelli, las lélegan brandara á messenger á miðjum vinnufundi, gerir ekkert slíkt í þessari viku… ó nei! Nú er tiltekt lokið! Meðan skúffur mínar eru skipulagðar og skúrgólfið hreint held ég áfram að predika. Skipulagt líf er skemmtilegra líf! 

Amen!


Frekari lestur

Æðsti prestur hins hreina huga og skrifborðs, David Allen og Getting Things Done

Samantekt af bók David frá Samuel Thomas Davis, hér.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.