Æfingin skapar meistarann

Æfingin skapar meistarann 150 150 Freyr

Eitt af mörgu láni lífs míns var að fá að kynnast Halldóri heitnum Kristjánssyni íþrótta- og sundkennara. Halldór var líflegur, kvikur karl sem kenndi mér mín fyrstu sundtök, austur á Skógum. Dóri hafði geislandi áhuga á viðfangsefninu, okkur ósyndum púkunum úr sveitinni. Eitt kenndi Halldór okkur öðru mikilvægara. Þó flothæfni og mýkt væri á við meðal múrstein brosti Dóri hvetjandi og sagði: „Munið að æfingin skapar meistarann krakkar!“. Eftir þessu vann Dóri markvisst með sinni hvatningu. Ef við sýndum þann dugnað og úthald í æfingunum sem hann leitaði eftir kom hann við og hrósaði innilega fyrir puðið.

Dóri vissi að hæfileikar væru góður grunnur að byggja á, en kæmi engum alla leið á toppinn. Til þess væri æfingin mun mikilvægari þáttur.

Margir hafa rýnt nánar í þennan þátt. Í bók sinni Outliers leggur Malcolm Gladwell raunar fram það magn æfinga sem þarf til að komast á toppinn, verða sannur meistari! Tíu þúsund tímar segir Gladwell, hvort sem það er í forritun, fiðluleik eða fótbolta. Byggði hann fullyrðingar sínar m.a. á rannsóknum Svíans Eric Andersson (m.a. þessari grein). Svíinn snjalli áréttaði síðan sérstaklega (m.a. í bók sinni Peak) að ekki er nóg að mæta á æfingu og byrja að telja klukkustundir, meðvituð og einbeitt skal æfingin vera. Til þess að telja þarf æfingin að vera af bestu sort, undir handleiðslu þjálfara/ráðgjafa/meistara sem ýtir við þér og hvetur áfram!

Þetta eru góðar fréttir fyrir okkur meðalmennin. Enn betri fréttir fyrir þig með þína hæfileika og allt lífið framundan! Með því að bæta við klukkustund hér og klukkustund þar, nýta tímann af aga og skynsemi í krefjandi æfingar, undir handleiðslu meistara, þá eykur þú færnina smám saman. Munurinn á þér og öðrum er fyrst aðeins talinn í tugum og loks hundruðum tíma, með elju og einurð þúsundum. Fyrr en varir hefur lögmál Dóra lifnað við og æfingin skapað meistarann sem í þér býr!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.