Af ömmum og mistökum

Af ömmum og mistökum 150 150 Freyr

Ef það er eitthvað í veröldinni sem ég væri til í að heyra minna af, þá er það fífl, bjánar og kjánar. Þó ekki af heimskupörum heldur af notkun orðanna í ,,uppeldi”. 

Ég er nefnilega einn af þeim sem gerir mistök. Án þess að fara í djúpa tölfræðilega greiningu sýnist mér ég gera heldur fleiri mistök en meðal Jóninn. En ég er viðkvæmt blóm og á erfitt með að taka þeirri fullyrðingu að ég sé bjáni. Enn verra þykir mér að heyra fullyrt við börn að þau séu fífl. Gert mikið úr mistökum þeirra. Þegar farið er í barnið en ekki boltann.

Ég átti eina ömmu undir Eyjafjöllum sem ég fékk oft að heimsækja. Fór í orlof. Þar var lítið gert úr mistökunum. Öllu var tekið með brosinu blíða. Röddin ráma sagði ,,Jæja, varstu að bleyta síðustu buxurnar þínar væni. Heldurðu. Aldeilis tækifæri til að fá sér kókó. Svo geturðu skriðið í flatsængina. Þið náðuð að kanna svo vel lækinn. Elsku drengirnir. Alveg ómetanlegt.” 

Að orlofi loknu gat ég allt. Hefði sennilega flogið ef ég hefði haft hugmyndaflug til þess. 

Ég hef heyrt aðra segja af sambærilegu tilefni. ,,Ohh, allt orðið blautt af þér. Endemis fífl geturðu verið! Hvað ætlarðu nú að fara í?” Ég hef fundið á eigin skinni hvort er betra. Hef sannfæringu fyrir því hvor aðferðin er uppbyggilegri.

Mistök eru góð. Gleymum ekki að þau eru eðlilegur hluti af þroskaferlinu. Þau eru frábært tækifæri fyrir uppalendur til þess að leiðbeina. Fyrir þann sem fremur þau að læra af þeim.

Lyfi mystökyn.


Fyrst birt á vef 11. júní 2013. Endurbirt í tilefni dagsins. Katrín Marta Magnúsdóttir, fædd að Steinum undir Eyjafjöllum 22. október 1918.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr
2 comments

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.