Af trippum og stuttum lotum

Af trippum og stuttum lotum 150 150 Freyr

Án þess að hallað sé á aðra ágæta kafla ævi minnar þá voru árin á Laugarvatni einhver þau allra bestu. Hvað má hugsa sér betra en að búa með sínum bestu vinum á heimavist? Fá að njóta mótunarára í gleði með góðum hópi jafnaldra, upplifa frábært félagslíf og takmarkalítinn aðgang að íþróttahúsi? Ef til væri himnaríki, þá gæti ég trúað að þar væri svipað fyrirkomulag og á Laugarvatni.

En þó umhverfið væri himneskt, vorum við nemendurnir ekki endilega englar alla daga. Eins og við er að búast í slíkum hópi þá kom fyrir að helsta markmiðið með dvölinni gleymdist, bóknámið fékk gjarnan að víkja fyrir gleðinni. Skipulagið hentaði vel „spretthörðum“ námsmönnum. Litlu og stundum engu máli, skipti frammistaða yfir önnina, endaspretturinn og lokaprófið var allt. Við, mis þroskaðir unglingarnir, fjarri eftirliti og stuðningi foreldra, höndluðum þetta frelsi auðvitað misjafnlega vel.

Auðvitað er ekki stórmannlegt að bölva kerfinu frekar en eigin breyskleika, en ég leyfi mér það samt. Breyskleikinn sýnist mér nefnilega sammannlegur og einskorðast ekkert endilega við óharðnaða unglinga á heimavist, hefur þú t.d. fylgst með atganginum á Alþingi þegar líður að þinglokum?

Fyrir mér er þetta skipulag, skipulag gamla tímans, þó það sé enn praktíserað hér og hvar, jafnvel á æðstu stöðum. Betra tel ég að byggja upp skipulagið líkt og unnið sé með unglingstrippi alla daga, trippi sem eru tilbúin að leyfa gleðinni að ganga fyrir, svo lengi sem ekki er komin stund sannleikans. Regluleg „skil“ geta verið ágætis uppspretta árangurs. Taktviss ör skil (t.d. viku/tveggja vikna/mánaðar) á því sem mestu máli skiptir er það sem við þurfum til að vinna með breyskleikann. Lítil skil, ófullkomin skil, en skil samt, skil til að endurmeta stöðuna, rétta af kúrsinn, læra, sýna, fá viðbrögð, skilja.

Stuttu loturnar halda okkur á tánum og hjálpa hvort sem við viljum afhenda hugbúnað, ná sölumarkmiði, gefa út bók, læra, breyta skipulagi eða setja lög. Alltaf er uppbrotið til gagns. Stuttar lotur tryggja jöfn afköst og hraða. Þó við þurfum að spretta aðeins úr spori, þá er það mun léttara að næstu vörðu, næstu helgi, en ef öll önnin eða árið er undir. 

Einstaka englar hrista sjálfsagt höfuðið yfir þessum óþarfa mínum, en a.m.k. við hin, þessi eilífðar unglingstrippi, tel ég að höfum ekki annað en gagn af góðri girðingu, stuttum lotum til að styðja okkur við.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.