Aftur á bak

Aftur á bak 150 150 Freyr

Síðasta vika var erfið fyrir mig og klárinn Vana. Klárinn er ekki fulltaminn, verður það víst seint og á það til að henda mér af baki. Þannig fór einmitt í liðinni viku. Ég er svo sem ekki alveg saklaus sjálfur. Það þarf að sinna vel hálftömdum hestum, kemba bæði og klappa. Ég sinnti ekki mínum Vana sem skyldi og fékk að finna fyrir því. Ég endaði flatur, hékk í taumnum, en hafði mig samt vart á fætur aftur, hvað þá á bak.

Ég er raunar nokkuð reyndur í því að detta af baki en þetta fall var óvenju sárt. Það getur endað illa að detta af rútínuklárnum. Í pistlunum hef ég predikað ótal dyggðir en eins og dæmin sanna eru stóryrtustu predikararnir ekki endilega presta bestir.

Ég er farinn að þekkja minn Vana. Okkur gengur best saman ef álagið er hæfilegt, hann brúkaður daglega og ég fer eins að honum í hvert sinn. Kröftug hreyfing er það sem við þurfum. Okkar samverustundir eru bestar úti á harðaspretti kófsveittir þannig að faxið flaxast til. Þá hlær við geð, eins og skáldið sagði.

Þó allt hafi gengið aftur á bak hjá okkur Vana í síðustu viku þá er nú ekki annað að gera en að koma sér aftur á bak. Áður en ég legg í að leggja á klárinn treysti ég mín heit, horfi fram og hlakka til en er jafnframt klár ef klárinn skildi nú hrekkja mig einu sinni enn.

Venja mín, þú, sem ert í huga mér.
Hver er þinn hvati?  Hvað þarf til að þú ríkir?
Ég gef mér í dag mína daglegu venju
og fyrirgef mér öll mín misstig.
Ég mun falla oft í freistni,
hrasa títt og vaða í villu.
En ég rís upp,
efli mátt minn, með venju dagsins,
vikunnar og mánaðarins að eilífu. Amen.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.