Ef ég hefði vængi

Ef ég hefði vængi 150 150 Freyr

Ég er þéttbyggður lágvaxinn karlmaður á miðjum aldri. Ekkert sérstaklega vel byggður til flugs, a.m.k. ekki langflugs. Mér er sama, ég flýg nú bara samt. Á stundum finnst mér nefnilega ágætt að smella á mig vængjum andans og lyfta mér svolítið upp.

Á fluginu opnast nýjar víddir og ný sjónarhorn. Ef frelsið er algjört hvert flýg ég þá? Með lokuð augun skelli ég mér í Skálavík, eftir að hafa rennt mér eftir Rauðasandi, leikið við fugla í Látrabjargi. Ég dáist að spegilsléttum Pollinum í logninu á Ísafirði, kem suður með fjaðraþyt og söng, svíf vængjum þöndum yfir sveitir sunnanlands, lendi á Landeyjasandi, horfi og hlusta á brimið, dáist að fjallahringnum. 

Eftir flugferðina er erfitt að brotlenda ekki. Í aðfluginu sé ég lítinn kall. Er ég þessi stubbur þarna niðri sem starir á skjáinn, aleinn, stífur í hálsi með stuttan andardrátt? Er ég á réttri leið? Er ég að gera það sem lætur mér líða vel? Er ég að gera gagn?

En hvað með þig? Ert þú að gera það sem þú vilt vera að gera? Ef þú hefðir vængi, hvert flygirðu þá? Hvert skellirðu þér í gegnum skýjamúr, burtu frá hversdeginum? Eða er lánið með þér? Er hversdagurinn einmitt eins og þú vilt hafa hann? Ánægjulegt akkeri, regla, grunnur og þessi störukeppni þín við skjáinn núna jafnvel kærkomin hvíld?

Fleira er flug en flug yfir lönd og strönd, toppurinn gæti reynst tímaflug. Flug fram og aftur eftir okkar óþægilega takmörkuðu tímalínu getur verið ágætis æfing. Ertu til?

Ef þú gætir nú flogið aftur í tímann, segjum fimm ár, tíu, tuttugu (allt eftir hvar þú ert á tímalínunni) og hittir þig sjálfa(n) fyrir. Ef þú fengir tækifæri til að gefa þessari yngri og óreyndari útgáfu af sjálfum þér innileg ráð. Hver væru þau? Gætu þau gagnast einhverjum í dag?

Fljúgum nú fimm ár fram í tímann (eða tíu/tuttugu), framgangur framar vonum, allt hefur gengið upp! Á hvaða stað ertu þá? Hvað liggur eftir þig? Hverju hefurðu náð? Hvaða fallegu hluti segir fólk um þig þá? Af hverju er það svona ánægt með þig? Viltu prófa að skrifa þetta niður? Ef þig getur dreymt þetta… ja við vitum bæði að góðir hlutir gerast hægt og draumar geta ræst!

Ert þú með vængi? Tökum flugið!


Innblástur

Ef ég hefði vængi. Lag og ljóð – Halli Reynis.

Textar og tónar lifa. Hugur minn er hjá fjölskyldu Halla, Steinunni, strákunum, fjölskyldu og vinum.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.