Er hræðslan að hjálpa?

Er hræðslan að hjálpa? 150 150 Freyr

Ég er dýr, nei ég er ekki að vísa til þess hvers ég rukka í ráðgjöfinni, heldur þess að ég sem manneskja er eitt af dýrum jarðarinnar, með þess kostum og göllum. Ég og þú erum líkt og önnur dýr fædd með margvísleg viðbrögð, viðbrögð sem m.a. björguðu formæðrum okkar og -feðrum frá því að verða drepin og tókst þannig að koma erfðaefninu sínu alla leið til mín og þín. Takk.

Sannarlega er ég þakklátur, ég hef notið sumra þessara viðbragða á jákvæðan hátt á stundum, ég hef hræddur hoppað út úr nautastíu á núll einni, hlaupið undan skólafélögum í skapofsakasti, hent af mér stígvélum við að stíga á mús, allt á meiri hraða en rökvísi skynsami heilinn hefði getað höndlað fyrir mig innan tímamarka.

En oft fylgir böggull skammrifi. Þessi gamli snarpi tilfinningaríki- og heiti hluti heilans sem hefur verið hluti af manninum og fyrirrennurum hans í milljónir ára hefur augljóslega ekki haft nokkurn tíma til að aðlagast þessu sítengda skjálífi nútímans. Þessi örfáu ár með tölvum og skjám ná vart að teljast sem augnablik í þróunarsögunni.

Það er hollt að gera sér grein fyrir þessum mismunandi hlutum heilans, að átta sig á að sumt af okkar hegðun og viðbrögðum við skjáinn og í samskiptum eru dýrsleg ósjálfráð viðbrögð sem við ráðum mis vel við, viðbrögð sem hrifsa til sín stjórnina, án þess að við náum að hugsa málið og halda ró. Hvernig tekurðu t.d. ákvörðun um kaup eða sölu, er það alltaf ísköld yfirveguð skynsemi? Eða er það skort-dýrið? Hræðslan við að eiga ekki, eða eiga minna?

Væri ekki gaman að geta umgengist löngunina til að elta innri óróa og truflun af skynsemi öllum stundum? Væri ekki gaman að geta ávallt rætt af skynsemi við heimsku efasemdarröddina sem við okkur talar, sem vill að við látum deigan síga, kveðið hana í kútinn og haldið áfram? Væri ekki gaman að geta borið sig saman við allan heiminn á augabragði, eins og við getum núna við skjáinn, en í stað þess að hræðast samanburðinn, efast um eigið ágæti, séð stóru myndina og haldið áfram af ró og skynsemi?

Væri ekki gaman að geta vegið og metið hvort hræðslan er að þjóna okkur eða þjaka? Geta elskað hræðsluna, elskað efann og kvatt hann áður en hann verður að einhverju stærra og verra, geta hlegið að okkur sjálfum og þessum mis skynsamlegu ósjálfráðu viðbrögðum og tilfinningum sem gamli heimski heilinn stendur fyrir?

Það væri gaman, en þróun tekur ekki ár eða áratugi, heldur ótal ótal kynslóðir. Okkar er að átta okkur á staðreyndum, takmörkunum toppstykkisins, fullkomnum ófullkomleikanum og reyna að læra á okkur sjálf. Við þurfum að þekkja muninn á heitum og köldum heila, fræða börnin og unglingana um að efasemdirnar sem geta orðið að angist séu ekki óbreytanleg staðreyndir, heldur upplifun augnabliksins. Augnabliks sem er í heljargreipum eldgamla hluta heilans, hluta sem lærði að bregðast við alvöru hættum og hjálpaði okkur þannig að lifa af, en getur nú, þegar alvöru ógnirnar eru flestar fjarri orðið okkar eigin stóra ógn við vellíðan, heilsu og hamingju.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: