Fermingargjöfin

Fermingargjöfin 150 150 Freyr

Ég fermdist á fjórtánda ári. Í félagsheimilinu Gunnarshólma var haldin veisla mér til heiðurs. Mikill gleðidagur. Sveitapiltsins draumur. Fjöldi vina og fjöldi gjafa. Tjald og svefnpoki, bækur, fallegir seðlar. Ég hafði ekki séð svo marga seðla um ævina. Einn gaf þúsund, annar tvö. Þegar ég opnaði umslag með fagurbláum fimmþúsund króna seðli tók hjartað kipp. Í sæluvímu gekk ég um salinn og þakkaði fyrir mig. Ég náði loks að borðinu hjá Árnýju afasystur minni og Árna frá Helluvaði, náði að stynja upp þökkum fyrir þann bláa. ,,Fyrirgefðu mér“, sagði frænka af einlægni. Ég brosti, skildi ekkert.

Árin síðan eru orðin þrjátíu og eitt. Ég er enn orðlaus af þakklæti eftir daginn og enn reyni ég að skilja frænku. Reyni enn að ná í huganum utanum stærstu fermingargjöfina, orðin. Fallegu gjafirnar eru flestar týndar og seðlarnir farnir frá mér, en orð Árnýjar fá mig enn til að hugsa minn gang. Orð sögð af einlægni og römmuð inn af þeirri eftirsjá að hafa ekki gefið meira.

Á hverjum degi höfum við val. Við gefum og þiggjum í samskiptum. Hvernig gefum við barni ráð, viðskiptavini þjónustu, vini stuðning, áheyranda orð? Er það einlæg gjöf? Án eftirsjár? Er það gjöf hugsjónar eða tilgangs? Erum við að gefa af okkur, eða gefa fyrir okkur sjálf? Höfum við raunverulegan áhuga? Sjáum við kannski mest eftir að gefa ekki meira af okkur?

Vonandi er það þannig því það merkilega er, að með því að gefa af einlægni og af okkur sjálfum erum við ekki bara að gera það allra besta fyrir samferðamennina, heldur líka fyrir okkur sjálf. Hvort sem það er í einkalífi eða störfum (þó ekki án allra undantekninga, eins og Adam Grant velti upp).

Dagurinn í dag er góður til að gera vel, bæta sig, gera enn betur en í gær. Þetta er frábær dagur fyrir okkur til að vera góð og gefa. Ef við gefum af sjálfum okkur, af einlægni, það allra besta sem við eigum, er aldrei að vita nema gjöfin endist ekki bara daginn, heldur lífið allt, eins og orð Árnýjar frænku minnar um árið.

Fyrirgefðu mér.


Innblástur

Ljóðlínur KK úr Þjóðvegi 66:

„…til eru höfðingjar við Íslands bláu fjöll
sem heldur vilja deyja en lifa í þeirri smán
að hafa ekki gefið sem þeir gátu verið án.“

Frekari lestur

Give and take – Adam Grant, sjá einnig samantekt hér.

How to Win Friends and Influence People – Bók Dale Carnegie, samantekt Samuel T. Davis

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.