Fundur ríkisráðsins

Fundur ríkisráðsins 150 150 Freyr

Háttvirta ríkisráð!

Innilegar þakkir fyrir að boða mig hingað til þessa neyðarfundar. Við höfum áður sýnt það sem þjóð að þegar á reynir stöndum við saman og styðjum hvert annað. Þörfin er augljós og brýn! Ég er sérstaklega ánægður að vera nú kallaður til sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar varðandi þessar miklu áskoranir okkar. Ég á von á að útnefning mín stafi af „ríkisráðsfundi“ mínum, þ.e. því að ég skuli hafa fundið það sem hefur verið leitað að svo lengi, hið eina sanna „ríkisráð“! 

Það kann að hljóma töfrum líkast en vísindamenn hafa staðfest að ekkert eitt ráð gagnast betur einkafyrirtækjum og stofnunum, ekkert eitt ráð gagnast betur í menntamálum, minnkar útgjöld til heilbrigðismála, hvort sem er lyfjakaupa eða öldrunarþjónustu, hjálpar varðandi skilvirkari samgöngur, sem um leið er risavaxið umhverfismál! Mikilvægt er að þetta ráð hjálpar þjóðinni allri og bætir líðan hennar, er einfalt og aðgengilegt! 

Hálftíma hreyfing á dag, alla ævi!

Þið við þetta borð vitið vel hve staðan nú er alvarleg, hvert sem litið er. Öflugustu fyrirtæki heimsins vinna nú á hverjum degi inni á heimilum landsins, í lófum barna og fullorðinna, að því að halda þjóðinni frá hreyfingu. Lyfjarisarnir sleikja útum og bíða þess að selja landanum fleiri kokteila af örvandi og sljóvgandi lyfjum. Stór hluti nemenda, sérstaklega stráka finna sig ekki í skólum m.a. vegna hreyfingarleysis. Öldruðum fjölgar sem aldrei fyrr og áskoranir því tengdar. Götur borgarinnar eru troðfullar af fólki sem rúllar áfram í tveggja tonna jökkum og blótar því mest hve margir eru fyrir þeim á götunum. Minnstu munaði að við værum byrjuð að dæla peningum í að breikka göturnar fyrir breikkandi fólk en ekki að setja fjármagnið í það sem gefur okkur raunverulegan árangur sem þjóð! Þökk sé ykkur sem sitjið í ríkisstjórn fyrir að taka í taumana og að setja útbreiðslu „ríkisráðsins“ í forgang! 

Auðmjúkur tek ég til starfa strax í dag. Við megum engan tíma missa. Ég sendi ykkur drög að aðgerðaráætlun fyrir lok vikunnar, en við byrjum auðvitað á „ríkisráðinu“, hjá ríkisráðinu sjálfu! Guðni, þú hleypur með skokkhópnum seinnipartinn, ekki satt? Við æfðum saman í morgun Kristján Þór, svo þú ert í góðum málum, þið hin sendið mér staðfestingu þegar þið hafið náð ykkar hálftíma. Við erum sammála um að þetta er hæsti forgangur! Munum, þetta er bara hálftími á dag, spurningin er hvenær, ekki hvort!


Innblástur

Þrennt kom saman og varð kveikja að þessum pistli:

  1. Um helgina heimsótti ég Tallinn. Leiðtogar frjálsíþróttahreyfingar Evrópu komu saman, skiptust á hugmyndum og ræddu leiðir til að hreyfa við löndum sínum. Stefið ráðstefnunnar var einfalt: „Athletics to every home and on every phone“. Fyrir mér snýst þetta stef um ábyrgð okkar. Hlaup og hreyfing verða að ná athygli og fá tíma á hverju heimili og hverjum einasta síma álfunnar, ekki bara sem áhorfendur, heldur sem virkir þátttakendur! 
  2. Í ferðinni hlustaði ég á bókina Spark: The Revolutionary New Science of Exercise and the Brain. Vísindin liggja ljós fyrir. Hreyfing hefur gríðar mikil áhrif á heilann, hjálpar við nám, hægir á öldrun, minnkar kvíða, bætir lund. Bókin Spark kveikir neista sem verður að verða að loga. Við þurfum að hreyfa við skipulagi skólakerfisins, atvinnulífsins, okkar sjálfra! Rannsóknirnar liggja fyrir, vitneskjan er til staðar, en hvað erum við að gera? Hvers vegna byrja ekki allir dagar í öllum skólum landsins á hreyfingu?
  3. Neðangreind mynd á Kumu listasafninu fékk mig til að hugsa um skipulagða hreyfingu, fyrirskipaða og frjálsa. Í líkamlegri vinnu í Sovét var fólk skikkað til hreyfingar, það virkaði til betri afkasta, því var það gert, skv. skipunum. Í frjálsu fyrirtækjunum í dag þar sem heilinn er enn mikilvægari en handaflið, þá eru áhrifin enn meiri og áþreifanlegri, samkvæmt rannsóknum. Hreyfing skilar fyrirtækinu margföldum árangri, fólkið er skarpara, lærir betur, er ánægðara og afkastameira, en hvaða áherslu leggja þessi frjálsu sjálfstæðu fyrirtæki á hraustlega daglega hreyfingu starfsmanna? Er nóg að gert?

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: