Gefum sprettunum allt

Gefum sprettunum allt 150 150 Freyr

Ég kynntist sprettum fyrst sem lítill polli í Landeyjum. Þar átti ég fyrstu ,,yfirhraða-sprettina“ þegar ég hljóp hangandi á kálfahölum eftir túnum. Lífið var gott. Leiðinlegustu sprettina átti ég þegar ég rak nautheimskar kvígur og kindur milli svæða, ,,hvattur“ áfram af móður minni. Með því að leggja alltaf aðeins of seint af stað náði ég flesta morgna góðum spretti út heimreiðina í kappi við skólabílinn, gjarnan með skólatösku í annarri og ritvél í hinni, íþróttataska á baki.

Með viti og árum hefur dálæti mitt á sprettum aukist. Ég hreinlega elska spretti. Kollur og kroppur krefjast þeirra og þarfnast. Því ákafari, því betri. Interval er uppáhald. Endurteknir sprettir sem gefa blóðbragð, endorfín og bætt þol. Sprettir sem gefa hreysti og hamingju í einum pakka! Ég nýt spretta upp stiga, eftir gangstétt, upp á fjall. Ég þrífst á sprettum á hjóli, sprettum með börnum, sprettum með bræðrum.

Andans sprettir eru mér litlu minni unaður. Afmörkuð einbeitt vinna að einu marki. Pomodoro-klukkan tifar meðan heimsins hamagangur bíður. Ég set upp vinnusprett fram að mat. Með vinnu-teymum hér og hvar finn ég út hverju við viljum áorka í vikunni. Allir í teyminu leggjast á árar og róa í sömu átt í einum spretti. 

Hvort sem ákefð sprettsins reynir meira á andann eða líkamann má alltaf horfa með eftirvæntingu til endamarksins. Fegurðina má finna í afmörkuninni, þéttum ramma. Allir sprettir eiga upphaf og endi. Reglurnar einfaldar og öllum ljósar.

Sprettir eru sannarlega krefjandi en þeir gefa líka af örlæti til baka. Því meira sem þú gefur, því meira færðu. Eins og skáldið sagði: ,,Stefnirðu á næsta stig? Þá þarftu að reyna á þig!“ Í áköfum sprettum fáum við að glíma við okkur sjálf. Við ýtum okkur að mörkum þess mögulega, eða enn betra, ýtum við mörkunum! Með endurteknum sprettum af mikilli ákefð náum við að bæta okkur.

Sprettur verður þó vart að fullu gagni nema hvíldin sé rétt. Líkaminn og andinn þurfa hvíld og endurmat til að við bætum okkur. Sannleikurinn birtist í uppgjörinu. Í þessu mikilvæga augnabliki að spretti loknum. Þá er stundin til að staldra við og líta um öxl. Hvernig gekk? Gaf ég allt sem ég átti? Get ég gert betur næst? Hverju þarf ég þá að breyta? Hvernig kemst ég á næsta stig? Hvernig stígur teymið upp og nær að gera betur næst?

Uppgjörið við enda spretts er stundin til að sætta sig við orðinn hlut. Sprettinum er lokið. Þú færð engu breytt um liðna lotu. Þá má heldur hlakka til. Þá má hugsa hvernig tækla má tækifærið framundan, þennan spennandi næsta sprett. Er þá nema eitt að gera? Gefðu allt sem þú átt!

—–

Innblástur

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.