Greindur liggjandi

Greindur liggjandi 150 150 Freyr

Síðasta vika verður seint talin mín besta. Saklaus kvefpest sótti í sig veðrið og náði að leggja mig flatann. Þar sem ég lá og vorkenndi mér mundi ég eftir einu sem gæti byggt mig upp í legunni. Ein af yndis mágkonum mínum níu var nýbúin að benda mér á bók á mínu áhugasviði, Neuroplasticity. Innblásinn af bókinni sá ég nú tækifæri til þess að verða greindur liggjandi, í fleiri en einum skilningi! 

Vitandi um mikilvægi hreyfingar fyrir heilabúið hafði ég eðli málsins nokkrar áhyggjur af hreyfingarleysinu. Lán mitt fólst í uppörfandi ábendingum sem koma fram strax í fyrstu köflum bókarinnar: Heilaleikfimi hjálpar miðaldra mönnum, ekki síður en önnur leikfimi! 

Ég greip fegins hendi fyrstu æfingu sem bókin benti á, Dual N-back heitir sú, sögð bæta bæði minni og mögulega greind (a.m.k. svo kallaða kvika-greind (e. fluid intelligence)). Ég var ekki lengi að sækja appið. Meðan ég beið, liggjandi á hlið, eftir því að opnaðist fyrir stífluðu nösina (þá eystri hefðu menn líklega nefnt hana austur í Mýrdal), brúkaði ég appið og æfði þannig það eina sem ég megnaði, heilasellurnar. Þær gömlu gráu svöruðu kallinu og smám saman komst ég lengra. Nú, nokkrum dögum síðar, er bætingin orðin sýnileg, tölfræðin lýgur ekki! Með því að leggja rúðustiku á neðangreint súlurit yfir árangur minn í appinu, sést augljóslega í hvað stefnir, klárlega norð-austur! Ég verð líklega kominn langleiðina í Einstein á nýju ári.  

Nú er lífið aftur að færast í vanalegri búning og styttist í að kroppurinn verði aftur klár í hefðbundnari leikfimi, í ljósi gráu háranna og heilasellanna þori ég þó ekki öðru en að halda heilaleikfimi áfram samhliða í þeirri von að ég „haldi haus“, a.m.k. fram að næstu pest.

Ps. rétt er að taka fram að það eru til hófstemmdari pistlar um áhrif Dual N-back æfinga á minni og greind en þeirra sem höfundar minnisæfinganna hafa skrifað (og þessi pistill), svo mögulega verður aðeins bið á útgáfu minni á afstæðiskenningunni hinni síðari.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.