Hörmung er að fara svona með tímann!
Hörmung er að fara svona með tímann! http://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr Freyr http://0.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=g- Freyr
- no comments
Tíminn er merkileg auðlind. Hann er uppsprettan sem aldrei þverr, en er hverri manneskju svo naumt skammtaður að það nístir á stundum. Ein af stóru spurningunum nagar, hvernig er best að nýta þessa takmörkuðu auðlind? Er eitthvað rétt svar?
Föðurafi minn, Bjarni, átti í sama angistarsambandi við tímann eins og við flest. Austur undir Eyjafjöllum bjó hann ásamt Kötu sinni í Skálakoti. Þar var gott að vera, þangað var gott að koma. Afi tók á móti gestum með bros á vör, hrókur alls fagnaðar. Tímans naut hann hvað best í samræðum við eldhúsborðið, stundum með glas í hönd, með góðum vinum. „Slaggur að njódda og livva“, hefðu nútíma-skáldin líklega kallað það.
Gömlu hjónin brugðu sér stundum í borgina. Þá var mikilvægt að nota tímann vel. Vinina varð að heimsækja, frændur og frænkur, endurgjalda góðar stundir austur í Skálakrók.
Sá gamli náði að ekki næra sig með núvitundarpælingum öllum stundum. Þegar þau gömlu voru rétt byrjuð að verma eldhúskollana í bækistöð sinni í bænum, hjá Rúnu dóttur sinni, spratt afi upp með orðunum: „Hörmung er að fara svona með tímann, Kata“ og var við það sama kominn fram í dyragættina með hatt á höfði, klár í næstu heimsókn.
Frasinn lifir í fjölskyldunni og um leið minningin um bóndann sem lét góða vináttu ganga fyrir öllu. Faðmurinn alltaf opinn, jafnvel þó flekkurinn lægi flatur.
Stefið stakk sér niður í koll mér þegar ég rakst á skrif ástralska hjúkrunarfræðingsins, Bronnie Ware. Bronnie vann árum saman við heimahjúkrun deyjandi fólks. Hún hlustaði á fólkið, sumt sátt og tilbúið, annað fullt eftirsjár. Samantekt Bronnie kom fyrst fram í pistli og síðan bók en kjarnann tók hún saman í eftirfarandi:
- Ég vildi að ég hefði haft hugrekkið til að lifa lífinu sjálfri mér trú, en ekki lífinu sem aðrir ætluðust til.
- Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
- Ég vildi að ég hefði þorað að láta tilfinningar mínar í ljós.
- Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vinina.
- Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari.
Við stöðvum ekki stóra stundaglasið, en við ráðum miklu um hvað við gerum meðan sandkornin hrynja niður. Náum við að sinna og sýna okkar sanna kjarna, án eftirsjár, rækta vináttuna og eigin hamingju? Áskoranirnar gerast ekki mikið stærri þegar upp er staðið, að ganga af velli sátt við okkur og hvernig við nýttum tímann.
En hví að flækja þessi fræði? Líklega liggur svarið og tækifærið oftar en ekki í því sama og hjá þeim gamla, að við séum oftar tilbúin að henda frá okkur „hrífunni“, opna faðminn, „slögg að njódda og livva“ með vinunum. Þurfum við ekki að fara að hittast?
Tilvísanir
„Ég er slakur að njóta og lifa“: Ég vil það – Chase & Jói P
Bronnie Ware, regrets of dying, sjá viðtal á mindful.org, stutt TEDx myndband.
Related
You might also like
This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.
Leave a Reply