Kvöldgangan

Kvöldgangan 150 150 Freyr

Löngum og stífum degi loks að ljúka. Yngri drengirnir sofnaðir, eldri börnin á eigin vegum. Hugurinn hamast, næ ekki taki. Les yfir hugmyndir, hringsnýst. Gríp tækifærið og í húninn um leið. Geng í rólegheitum eftir skógarstígnum í haustmyrkrinu. Bíð eftir að finna sjálfan mig. Í hálfrökkrinu þreifa ég á greinum og laufblöðum. Þurr blöðin hanga enn föst á sínum stað. Hlýr andvari. Heyri mildan nið í fjarska. Merkilegt að beljandi bílafljót geti hljómað eins og lækjarniður. Fljóðljósin á vellinum stinga í augun og vekja mig til meðvitundar um hvar ég er.

Með vitund reyni ég að róa hugann. Anda rólega að mér og tel, anda frá mér og tel. Bíð eftir að hitta góða hugmynd á göngu. Enn birtast mér bara hugleiðingar um verkefnaborð, keppnisrétt, löglegar kvittanir og leigurými. Predika um eitt í einu, en snýst sjálfur í hringi á eftir eigin skotti, skyldi ég einhverntímann ná í það? Þvílík vitleysa að bæta pistlunum við!

Geng út af stígnum. Grasið í brekkunni dúar, minnir mig á ræturnar, hún hallar niður eins og brekkan á Laugarvatni. Í huganum hleyp ég niður að vatni. Hleyp með mínum bestu vinum spretti milli ljósastaura. Hleyp í gegnum gufuna sem liðast yfir malbikið. Hamingjusamur á harðaspretti.

Ég næ huganum heim. Byrja að ná áttum í brekkunni í Laugardalnum. Stundum þarf ekki meira en eina mjúka brekku og góða minningu til að ná sér út úr ærustunni. Hugurinn tætti fær loks tómið sem hann þurfti. Stök orð stinga upp kolli, stef myndast. Enginn pistill, en þó fyrirheit. Kannski næ ég að setja eitthvað saman í fyrramálið.

Geng hægt heim. Færi litla bræður í rétt rúm. Næ síma af öðrum unglingnum fyrir svefninn. Þetta áreiti.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.