Ógleymanlegur dagur?

Ógleymanlegur dagur? 150 150 Freyr

Manstu hvar þú varst þegar turnarnir hrundu? Slétt 18 ár í dag. Manstu fyrsta daginn í nýjum skóla? Fyrsta kossinn? Eða hefurðu heyrt um bóndann sem var spurður: „Jón… hvenær fæddist hún Guðrún þín?“ „Ja hvernig gæti ég gleymt því? Það var vorið sem Fordinn kom, hann kom ’82 áður en við settum út kýrnar!“. Stórir viðburðir greipast í minni og hanga eins og akkeri án fyrirhafnar meðan hversdagurinn rennur hjá. Eða hvað varstu að gera á mánudaginn eftir hádegið? Eða fyrir viku?

Auðvitað skipta stóru minningarnar okkur máli, en fyrir þig og mig skiptir ekki minna máli hvernig við höndlum hversdaginn. Hugmyndir, beiðnir, fyrirspurnir falla á okkur látlaust, líkt og regndropar. Gjarnan skoppa þær af skallanum og niður á stétt. Margar mega það, aðrar ekki. Okkar er að standa klár með viðeigandi tunnu og trekt þegar næsta snilldar hugmynd fellur á okkur? Ekki viljum við að hún endi í ómerkilegu niðurfalli gleymskunnar.

Heilinn er í sumu tilliti eins og vöðvi. Með því að reyna að muna alla hluti án skipulags þreytist sá grái, hversu góður sem hann er. Hugarró og vissa um hvar við geymum hugmyndir, verkefni og annað, hjálpar okkur að halda kollinum klárum. Hvað gerir þú þegar þú færð á hlaupunum hugmynd að brjáluðum business, efni í Podcast, sniðugri æfingu? Eða hvernig ferðu að muna að kaupa bæði haframjöl og rúsínur í næstu búðarferð?

Freyr „ferill“, vill að sjálfsögðu meina að gott skipulag skipti mestu máli. Án skipulags er hending hvert hugmyndir hendast og alltaf er einfaldleikinn bestur. Miðillinn getur verið hvað sem er, tækið sem þú lest þessar línur á, minnisbók eða miðar. Skiptir ekki máli, en skipulagið gerir það!

Ég predika ekki um eina leið eða einn feril. Þitt er að finna þína leið, vita hver hún er og bæta síðan að vild, smám saman, eitt lítið skref í einu. Ef þú veist ekki hvernig þú ferð að, hvernig ferðu þá að því að bæta þig?

Neðangreind vers gætu nýst þér við að byggja upp og bæta þína nálgun.

Fyrsta vers – Innhólfið á hlaupunum

Í hamagangi dagsins skiptir máli að hafa alltaf með sér miðil til að grípa hugmyndir, ,,innhólf“ fyrir góðar hugmyndir. Ef miðillinn er í síma eða tölvu, þá má það ekki taka meiri tíma en… opna app, skrifa hugmynd, loka! Ef það er flóknara, þá er örugglega til betri leið!

Hvert er viðbragðið þegar þú færð skeyti, áminningu, tölvupóst? Getur þú á innan við 15 sekúndum valið viðbragð og geymslustað fyrir það sem kom? Merkt, bætt við áminningu… skrifað í innhólf? Ef ekki, þá er örugglega til betri leið!

Annað vers – Verkefni á vísum stað

Hvernig heldur þú utanum verkefnalistann þinn? Allt á vísum stað? Einum stað? Hvernig ákveður þú hvað eru 5 mikilvægustu atriði vikunnar? Getur þú byrjað daginn á mikilvægasta atriðinu af mikilvægasta verkefninu þínu, án þess að efast? Ef ekki… þá getur þú örugglega fundið betri leið!

Þriðja vers – Ég endurtek

Fátt er betra til bætinga en endurtekningin. Daglegt, vikulegt, mánaðarlegt, árlegt endurmat. Er einhver lykil spurning sem þú ættir að spyrja þig að minnsta kosti einu sinni í viku? Einu sinni í mánuði? Ef þú ert ekki búin(n) að setja neitt upp nú þegar… vá hvað ég öfunda þig! Þú átt eftir að bæta þig svo mikið!


Dagurinn rétt að byrja. Vona að þú sért klár í að taka við dropum dagsins. Megi dagurinn verða þér ógleymanlegur!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: