Pistlar

Hér má finna síðustu pistla sem hafa birst á síðunni. Viltu fylgjast með? Einfalt mál. Skráðu þig á póstlistann með nafni og netfangi hér að neðan.

  • Gagnabóndinn

    Gleðilegan bóndadag!

    Í mjólkurframleiðslu hefur, líkt og á mörgum öðrum sviðum, orðið bylting síðustu áratugina. Nútímabóndinn er ekki bara kúabóndi, hann er líka gagnabóndi. Góð mjólkurnyt er minnst tilviljun eða heppni. Nytin byggir frekar á natni bóndans við að sinna sínu, rýna í gögn, stilla breytur. Hiti, lýsing, fóður, efnainnihald, tími og tíðni gjafa og mjalta er nú eitthvað sem (gagna)bóndinn horfir til í viðleitni sinni við að fjölga góðu dögunum í fjósinu, auka nytina. Bóndinn þarf að horfa á heildarmyndina, tryggja að kúnum líði vel, þær fái sitt, til að þær skili sínu.

    En hvað með bóndann sjálfan, er hann nokkuð að gleyma sjálfum sér? Þess þarf ekki. Með snjöllum græjum getur hann nú mælt og skráð magn og gæði svefns, næringar og hreyfingar. Hann getur auðveldlega mælt tímann sem hann eyðir í áætlanagerð og endurskipulagningu, fjármál vs. fréttir, viðhald á húsum vs. viðhald á eigin skrokki og eflingu andans.

    Með einfaldri daglegri skráningu og einkunnagjöf daganna, á skala frá 1-10, getur bóndinn síðan greint hvað það er í raun sem tryggir gæði hans eigin daga. Hvort heldur hann missir allt í skrúfuna, eða allt er upp á tíu, þá má rýna í orsökina? Er það í raun svefninn, hreyfingin, morgunrútínan eða kannski samskiptin í sveitinni eða samfélagsmiðlum, sem er lykillinn að góðum degi? Með gögn við hendina þarf ekki lengur að giska. Góðir dagar gagnabóndans eru sjaldnast heppni, ekki frekar en nytin í fjósinu.


    Pistill birtur í tilefni bóndadagsins 2021. Frumútgáfa af þessum pistli, þá ekki sniðin að bóndanum sjálfum, birtist fyrst sem Þrenna vikunnar.

  • Hvernig sefur þú í vinnunni?

    Afi á Heiði átti sína stund og sinn stað, sína aðferð, sinn bedda. Pabbi hafði sína aðferð. Á bakinu, olnbogabót yfir augun, útvarpið á.

    ,,Þetta er á Veðurstofu Íslands veðurspá. Skammt suður af landinu er víðáttumikil 1028 millibara…”

    Þetta var yfirleitt nóg. Andardrátturinn þyngdist. Eftir hádegislúrinn kom svo í ljós hvort einhver hafði enst alla leið inn í Suðurlandsspána. Þar var ekki á vísan að róa. Það sem ekki brást að menn voru heldur betri eftir en fyrir.

    Nú er komin ný kynslóð. Nýir tímar. Nú þarf ekki að leggja sig í hádeginu. Það er heldur enginn tími. Hvað ætli vinnufélagarnir segi? Yfirmaðurinn? Það er klárt veikleikamerki að leggja sig! Eða hvað?

    20130508_164828

    Nú er ég yfirmaðurinn. Ég reyni að fara á undan með góðu fordæmi. Geri það sem ég tel skila bestum afköstum og einbeitingu yfir daginn.  Nú legg ég mig í hádeginu, ef ég mögulega get. Af hverju? Michael Hyatt orðar það betur en ég gæti nokkru sinni í þessari grein.

    Aðstaðan er ekki háþróuð. Það er æfingadýnan, púði úr sófa og fermingarteppið frá Rúnu frænku. Í eyrunum því miður ekki eintóna veðurlýsing af Bústaðavegi, heldur snark í eldiviði. Relax timer af Google Play. Nútíminn er hér.

    Loksins er ég að verða maður með mönnum. Með teppi yfir eins og afi á Heiði. Höndin yfir eins og pabbi. Sama gildir. Ég er heldur betri á eftir.

    Hvernig sefur þú í vinnunni?


    Endurbirt í tilefni af 100 ára ártíð afa, Þorsteins Oddssonar frá Heiði á Rangárvöllum, fæddur 23. okt 1920.

    Pistill áður birtur á https://blandan.wordpress.com 14. maí 2013 sem hluti af fyrsta opinbera skrifspretti höfundar.

  • Af ömmum og mistökum

    Ef það er eitthvað í veröldinni sem ég væri til í að heyra minna af, þá er það fífl, bjánar og kjánar. Þó ekki af heimskupörum heldur af notkun orðanna í ,,uppeldi”. 

    Ég er nefnilega einn af þeim sem gerir mistök. Án þess að fara í djúpa tölfræðilega greiningu sýnist mér ég gera heldur fleiri mistök en meðal Jóninn. En ég er viðkvæmt blóm og á erfitt með að taka þeirri fullyrðingu að ég sé bjáni. Enn verra þykir mér að heyra fullyrt við börn að þau séu fífl. Gert mikið úr mistökum þeirra. Þegar farið er í barnið en ekki boltann.

    Ég átti eina ömmu undir Eyjafjöllum sem ég fékk oft að heimsækja. Fór í orlof. Þar var lítið gert úr mistökunum. Öllu var tekið með brosinu blíða. Röddin ráma sagði ,,Jæja, varstu að bleyta síðustu buxurnar þínar væni. Heldurðu. Aldeilis tækifæri til að fá sér kókó. Svo geturðu skriðið í flatsængina. Þið náðuð að kanna svo vel lækinn. Elsku drengirnir. Alveg ómetanlegt.” 

    Að orlofi loknu gat ég allt. Hefði sennilega flogið ef ég hefði haft hugmyndaflug til þess. 

    Ég hef heyrt aðra segja af sambærilegu tilefni. ,,Ohh, allt orðið blautt af þér. Endemis fífl geturðu verið! Hvað ætlarðu nú að fara í?” Ég hef fundið á eigin skinni hvort er betra. Hef sannfæringu fyrir því hvor aðferðin er uppbyggilegri.

    Mistök eru góð. Gleymum ekki að þau eru eðlilegur hluti af þroskaferlinu. Þau eru frábært tækifæri fyrir uppalendur til þess að leiðbeina. Fyrir þann sem fremur þau að læra af þeim.

    Lyfi mystökyn.


    Fyrst birt á vef 11. júní 2013. Endurbirt í tilefni dagsins. Katrín Marta Magnúsdóttir, fædd að Steinum undir Eyjafjöllum 22. október 1918.

  • Fólkið og fjártæknin

    Nýlega gekk ég í Fjártækniklasann. Tæknilega var það ekki ég, heldur 4702080230, en hver man ólógískar talnarunur? Tölvurnar hjá Skattinum eru flinkar við það, manneskjur tengja heldur við félagið mitt, Stöku ehf, en meira að segja viðskiptavinir mínir pæla fæstir mikið í félaginu, þau tengja við mig persónulega og er alveg sama um kennitöluna sem sendir reikningana og gefur tölvunum hjá Skattinum girnilegar tölur til að kjamsa á.

    Kjarninn í klasanum góða snýst í mínum huga einmitt um þetta, þetta persónulega og mannlega sem við skiljum og þurfum. Ég er í honum vegna tækifæranna til að hitta allt flotta fólkið í klasa-fyrirtækjunum öllum, en fyrst og fremst er ég í honum vegna Fjártækni-dúettsins sjálfs, Gulla og Þórdísar, sem skilja svo vel þessa þörf fyrir fólk að tengjast og mikilvægi þess. Þau skilja að fólk í stöndugum bönkum þarf samtal við spennandi sprota, ráðgjafar við rafmyntagúrú o.s.frv. Þau Gulli og Þórdís hafa lag á að skipuleggja margvíslegar samkomur, okkar tíma réttir, vitandi að það er lítið gaman í réttum ef þar er aðeins fé, en ekki fólk!

    Í þessu sama kristallast kjarninn í árangri fyrirtækjanna í Fjártækniklasanum og nútíma tækniþróun yfirhöfuð. Þó unnið sé með tölur og tækni á bakvið tjöldin, þá snýst hún fyrst og fremst um fólk. Að skilja takmarkanir mannskepnunnar og laga sig að henni, að gera flókna hluti einfalda, spara notendum sekúndur hér og hvar, auka þægindi, gegnsæi, sjálfvirkni, yfirsýn. Að ná jafnvel að gera hóflega spennandi og flókna hluti heillandi og öllum aðgengilega. Þá gildir vel slagorðið þekkta, allir vinna!


    Sjá nánar um Fjártækniklasann á https://www.fjartaekniklasinn.is

  • Hvernig verðu bestu stund dagsins?

    Eitt er að verja og annað er að verja!

    Stundir dagsins gefa mis mikið af sér. Munurinn á okkar bestu stundum og öðrum lakari er sjaldnast fáein prósent, heldur margfeldi, sérstaklega í skapandi vinnu og krefjandi. Þá er spurningin. Ef þú ert búin(n) að finna út hvernig þú ætlar að verja þinni bestu stund, hvernig verðu hana þá? Okkar bestu ættum við að verja með kjafti og klóm!

    Til að verja stundina þarf gjarnan, líkt og í skák, að hugsa nokkra leiki fram í tímann. Ákveða staðinn og stundina, ákveða áminningu/kveikju (e. trigger), undirbúa daginn áður allt sem þarf, láta samstarfsfólk vita að þín gæða stund gefur gull í mund, eykur afköst og léttir lund!

    Ef næði er uppspretta góðra hugmynda og afkasta, hvernig tryggirðu þú þá næðið? Sama á við ef lykillinn er hreyfing, næring, svefn, vel undirbúinn verkefnalisti frá kvöldinu áður, hljóðvist, umhverfi…? Hvers virði er stundin? Hversu langt ertu tilbúin(n) að ganga til að verja hana? Gera hana góða?

    Fyrir suma er besta stundin jafnvel utan skrifstofunnar, hreyfing eða íhugun, ómetanleg samvera. Hvernig tryggirðu þá að þú náir þessari ómetanlegu stund, látir hana ganga fyrir öðru og látir ekki daga eða vikur líða án þinnar bestu?

    Ef þú verð vel og vandlega þína bestu stund, eru auknar líkur á að þú náir að verja vel þinni bestu stund!

  • Gleðilegt ár!

    Senn líður árið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka, frekar en fyrri ár. Þó árið líði þá er engin stund til að iðrast, heldur þakka fyrir það sem liðið ár færði okkur af upplifun og reynslu, sárri og biturri, jafnt sem og góðri og gefandi.

    Þessi miðvikudagur er síðasti virki miðvikudagur ársins, pistlar ársins verða því ekki fleiri, of seint að iðrast yfir óskrifuðum pistlum. Ég hóf þennan skrifsprett á miðju ári þegar ég kom á þessari miðvikudagsvenju minni. Þar var lagt upp í ferð án fyrirheits, aðeins komið á lítilli saklausri venju, á miðvikudagsmorgnum birti ég pistil. Nú tuttugu og níu vikum síðar liggja eftir tuttugu og níu pistlar, hér. Hvort haldið verður áfram á nýju ári verður að koma í ljós.

    Á þessum tímamótum er mér efst í huga þakklæti. Ég er sérstaklega þakklátur fyrir lestur ársins, án lesturs væri til lítils að skrifa. Ég er þakklátur fyrir öll góðu samtölin, verkefnin og áskoranirnar sem hafa veitt mér innblástur á árinu, þakklátur þeim sem hafa skrifað áhugaverðan texta í færslum, pistlum og bókum sem hafa kennt mér ótal margt. Ég er sérlega þakklátur bræðrum mínum fyrir yfirlestur og ábendingar og fjölskyldunni fyrir stuðning og umburðarlyndi.

    Okkar bíður nýtt magnað ár, Ólympíuár, hlaupár, ár sem er óskrifað blað fyrir mig og þig og þannig klárlega ár tækifæranna. Megi árið 2020 verða þér og þínum einstakt, ánægjulegt og gott. Gleðilegt ár!

  • Er trekantur málið?

    Hápunktur helgarinnar hjá mér var klárlega vel heppnaður trekantur. Ég hef prófað áður, með misjöfnum árangri, en nú gekk allt upp. Líkamlegt var það, hreyfing og sviti, vel valin orð í eyra og áhorf á fríska kroppa að iðka sitt sport, yndislegt.

    Þessum hápunkti náði ég í Egilshöll í Grafarvogi, sportið var knattspyrna, æfingaleikur meistaraflokks Þróttar og Njarðvíkur. Það sem dró mig á völlinn var kærkomið tækifæri míns frumburðar og föðurbetrungs með liði Þróttar. Í eilífri leit minni að leiðum til að nýta tímann sem best, bætti ég tveimur þáttum við áhorfið á leikinn og fullkomnaði þannig trekantinn. Náði ég því samhliða leiknum ágætis hlaupaæfinu í áhorfendastæðinu sem og að hlusta á fína hljóðbók, Radical Candor eftir Kim Scott.

    Meðan ég framkvæmdi þessa þríliðu auðnaðist mér um leið að sannreyna tilgátur valinna vísindagreina. Ég staðfesti til dæmis hið margkveðna að einbeiting er réttnefni, eitt og aðeins eitt getur átt athyglina í einu og óháð kyni (sorrý konur, rannsóknir sýna). Um leið og Freysson spretti fram völlinn og fangaði alla mína athygli, varð hljóðbókin að bíða, öðru máli gegndi um bakgrunns-vinnsluna, hlaupin, þeim gat ég haldið áfram án vandræða. Ég virðist því, líkt og aðrir sem hafa lært vel líkamlega færni, eins og að prjóna, ganga eða hjóla, geta framkvæmt hana á „sjálfsstýringu“ í bakgrunni meira krefjandi hugarverkefna.

    Æfingin var um leið tilraun við tvær tilgátur, þ.e. að þegar áreiti og upplýsingar koma úr mörgum áttum, reyni á mörg skilingarvit, þá geti það verið til gagns í sumum tilfellum (sbr. rannsókn) og að máli skiptir hvort við séum búin undir fjölvinnslu (e. multitasking), líkt og ég var, eða ekki (sbr. rannsókn). Ágætis tilraun og skemmtun, en ég er efins, áfram stendur trú mín á það sem heilu bækurnar og fjöldi greina hafa staðfest að „fjölvinnsla“ og verkefnahopp heftir en hjálpar ekki, hvort sem um er að ræða unglinga eða eldri, einstaklinga eða teymi, ef fullrar athygli og andlegrar getu er þörf.

    Hver er þá helsti lærdómur helgarinnar?

    • Það má alltaf finna tíma til að taka æfingu!
    • Hljóðbækur og hlaðvörp geta verið fræðandi ferðafélagar, jafnvel á knattspyrnuleik.
    • Radical Candor er áhugaverð bók, sérstaklega fyrir þá sem vilja verða góðir stjórnendur.
    • Þróttur er með efnilegt lið sem verður gaman að fylgjast með áfram.

    Eftir stendur stóra spurningin, er trekantur málið? Hér talar augljóslega maður með reynslu. Þetta hljómar spennandi, draumur fyrir einhverja. Þó ég hafi prófað, þá minni ég á að ekki er allt eins í draumi og í raun. Þó við þykjumst geta einbeitt okkur að tveimur (einbeitingarefnum) í einu, þá ráðum við ekki almennilega við það og því getur endað illa ef ekki er varlega farið! Stundum er því líklega hollast að lofa draumnum að duga.

  • Af trippum og stuttum lotum

    Án þess að hallað sé á aðra ágæta kafla ævi minnar þá voru árin á Laugarvatni einhver þau allra bestu. Hvað má hugsa sér betra en að búa með sínum bestu vinum á heimavist? Fá að njóta mótunarára í gleði með góðum hópi jafnaldra, upplifa frábært félagslíf og takmarkalítinn aðgang að íþróttahúsi? Ef til væri himnaríki, þá gæti ég trúað að þar væri svipað fyrirkomulag og á Laugarvatni.

    En þó umhverfið væri himneskt, vorum við nemendurnir ekki endilega englar alla daga. Eins og við er að búast í slíkum hópi þá kom fyrir að helsta markmiðið með dvölinni gleymdist, bóknámið fékk gjarnan að víkja fyrir gleðinni. Skipulagið hentaði vel „spretthörðum“ námsmönnum. Litlu og stundum engu máli, skipti frammistaða yfir önnina, endaspretturinn og lokaprófið var allt. Við, mis þroskaðir unglingarnir, fjarri eftirliti og stuðningi foreldra, höndluðum þetta frelsi auðvitað misjafnlega vel.

    Auðvitað er ekki stórmannlegt að bölva kerfinu frekar en eigin breyskleika, en ég leyfi mér það samt. Breyskleikinn sýnist mér nefnilega sammannlegur og einskorðast ekkert endilega við óharðnaða unglinga á heimavist, hefur þú t.d. fylgst með atganginum á Alþingi þegar líður að þinglokum?

    Fyrir mér er þetta skipulag, skipulag gamla tímans, þó það sé enn praktíserað hér og hvar, jafnvel á æðstu stöðum. Betra tel ég að byggja upp skipulagið líkt og unnið sé með unglingstrippi alla daga, trippi sem eru tilbúin að leyfa gleðinni að ganga fyrir, svo lengi sem ekki er komin stund sannleikans. Regluleg „skil“ geta verið ágætis uppspretta árangurs. Taktviss ör skil (t.d. viku/tveggja vikna/mánaðar) á því sem mestu máli skiptir er það sem við þurfum til að vinna með breyskleikann. Lítil skil, ófullkomin skil, en skil samt, skil til að endurmeta stöðuna, rétta af kúrsinn, læra, sýna, fá viðbrögð, skilja.

    Stuttu loturnar halda okkur á tánum og hjálpa hvort sem við viljum afhenda hugbúnað, ná sölumarkmiði, gefa út bók, læra, breyta skipulagi eða setja lög. Alltaf er uppbrotið til gagns. Stuttar lotur tryggja jöfn afköst og hraða. Þó við þurfum að spretta aðeins úr spori, þá er það mun léttara að næstu vörðu, næstu helgi, en ef öll önnin eða árið er undir. 

    Einstaka englar hrista sjálfsagt höfuðið yfir þessum óþarfa mínum, en a.m.k. við hin, þessi eilífðar unglingstrippi, tel ég að höfum ekki annað en gagn af góðri girðingu, stuttum lotum til að styðja okkur við.

  • Er hræðslan að hjálpa?

    Ég er dýr, nei ég er ekki að vísa til þess hvers ég rukka í ráðgjöfinni, heldur þess að ég sem manneskja er eitt af dýrum jarðarinnar, með þess kostum og göllum. Ég og þú erum líkt og önnur dýr fædd með margvísleg viðbrögð, viðbrögð sem m.a. björguðu formæðrum okkar og -feðrum frá því að verða drepin og tókst þannig að koma erfðaefninu sínu alla leið til mín og þín. Takk.

    Sannarlega er ég þakklátur, ég hef notið sumra þessara viðbragða á jákvæðan hátt á stundum, ég hef hræddur hoppað út úr nautastíu á núll einni, hlaupið undan skólafélögum í skapofsakasti, hent af mér stígvélum við að stíga á mús, allt á meiri hraða en rökvísi skynsami heilinn hefði getað höndlað fyrir mig innan tímamarka.

    En oft fylgir böggull skammrifi. Þessi gamli snarpi tilfinningaríki- og heiti hluti heilans sem hefur verið hluti af manninum og fyrirrennurum hans í milljónir ára hefur augljóslega ekki haft nokkurn tíma til að aðlagast þessu sítengda skjálífi nútímans. Þessi örfáu ár með tölvum og skjám ná vart að teljast sem augnablik í þróunarsögunni.

    Það er hollt að gera sér grein fyrir þessum mismunandi hlutum heilans, að átta sig á að sumt af okkar hegðun og viðbrögðum við skjáinn og í samskiptum eru dýrsleg ósjálfráð viðbrögð sem við ráðum mis vel við, viðbrögð sem hrifsa til sín stjórnina, án þess að við náum að hugsa málið og halda ró. Hvernig tekurðu t.d. ákvörðun um kaup eða sölu, er það alltaf ísköld yfirveguð skynsemi? Eða er það skort-dýrið? Hræðslan við að eiga ekki, eða eiga minna?

    Væri ekki gaman að geta umgengist löngunina til að elta innri óróa og truflun af skynsemi öllum stundum? Væri ekki gaman að geta ávallt rætt af skynsemi við heimsku efasemdarröddina sem við okkur talar, sem vill að við látum deigan síga, kveðið hana í kútinn og haldið áfram? Væri ekki gaman að geta borið sig saman við allan heiminn á augabragði, eins og við getum núna við skjáinn, en í stað þess að hræðast samanburðinn, efast um eigið ágæti, séð stóru myndina og haldið áfram af ró og skynsemi?

    Væri ekki gaman að geta vegið og metið hvort hræðslan er að þjóna okkur eða þjaka? Geta elskað hræðsluna, elskað efann og kvatt hann áður en hann verður að einhverju stærra og verra, geta hlegið að okkur sjálfum og þessum mis skynsamlegu ósjálfráðu viðbrögðum og tilfinningum sem gamli heimski heilinn stendur fyrir?

    Það væri gaman, en þróun tekur ekki ár eða áratugi, heldur ótal ótal kynslóðir. Okkar er að átta okkur á staðreyndum, takmörkunum toppstykkisins, fullkomnum ófullkomleikanum og reyna að læra á okkur sjálf. Við þurfum að þekkja muninn á heitum og köldum heila, fræða börnin og unglingana um að efasemdirnar sem geta orðið að angist séu ekki óbreytanleg staðreyndir, heldur upplifun augnabliksins. Augnabliks sem er í heljargreipum eldgamla hluta heilans, hluta sem lærði að bregðast við alvöru hættum og hjálpaði okkur þannig að lifa af, en getur nú, þegar alvöru ógnirnar eru flestar fjarri orðið okkar eigin stóra ógn við vellíðan, heilsu og hamingju.

  • Greindur liggjandi

    Síðasta vika verður seint talin mín besta. Saklaus kvefpest sótti í sig veðrið og náði að leggja mig flatann. Þar sem ég lá og vorkenndi mér mundi ég eftir einu sem gæti byggt mig upp í legunni. Ein af yndis mágkonum mínum níu var nýbúin að benda mér á bók á mínu áhugasviði, Neuroplasticity. Innblásinn af bókinni sá ég nú tækifæri til þess að verða greindur liggjandi, í fleiri en einum skilningi! 

    Vitandi um mikilvægi hreyfingar fyrir heilabúið hafði ég eðli málsins nokkrar áhyggjur af hreyfingarleysinu. Lán mitt fólst í uppörfandi ábendingum sem koma fram strax í fyrstu köflum bókarinnar: Heilaleikfimi hjálpar miðaldra mönnum, ekki síður en önnur leikfimi! 

    Ég greip fegins hendi fyrstu æfingu sem bókin benti á, Dual N-back heitir sú, sögð bæta bæði minni og mögulega greind (a.m.k. svo kallaða kvika-greind (e. fluid intelligence)). Ég var ekki lengi að sækja appið. Meðan ég beið, liggjandi á hlið, eftir því að opnaðist fyrir stífluðu nösina (þá eystri hefðu menn líklega nefnt hana austur í Mýrdal), brúkaði ég appið og æfði þannig það eina sem ég megnaði, heilasellurnar. Þær gömlu gráu svöruðu kallinu og smám saman komst ég lengra. Nú, nokkrum dögum síðar, er bætingin orðin sýnileg, tölfræðin lýgur ekki! Með því að leggja rúðustiku á neðangreint súlurit yfir árangur minn í appinu, sést augljóslega í hvað stefnir, klárlega norð-austur! Ég verð líklega kominn langleiðina í Einstein á nýju ári.  

    Nú er lífið aftur að færast í vanalegri búning og styttist í að kroppurinn verði aftur klár í hefðbundnari leikfimi, í ljósi gráu háranna og heilasellanna þori ég þó ekki öðru en að halda heilaleikfimi áfram samhliða í þeirri von að ég „haldi haus“, a.m.k. fram að næstu pest.

    Ps. rétt er að taka fram að það eru til hófstemmdari pistlar um áhrif Dual N-back æfinga á minni og greind en þeirra sem höfundar minnisæfinganna hafa skrifað (og þessi pistill), svo mögulega verður aðeins bið á útgáfu minni á afstæðiskenningunni hinni síðari.