Rammi vikunnar

Rammi vikunnar 150 150 Freyr

Hvítir stafir birtast einn af öðrum á svörtum bakgrunni. Ramminn er klár, settur dagur, sett stund. Í dag skrifumst við á, ég og þú. Ég gef mér þessa stund á miðvikudagsmorgni til að leika mér að orðum og tala við þig. Stutt stund með upphaf og endi.

Innrömmuð takmörkuð stund þykir mér áhugaverð andstæða við endaleysuna sem við upplifum hvern dag. Fyrir liggja endalausir verkefnalistar, endalaust áreiti, endalaust framboð af upplýsingum, gleði og sorg. Afmörkunin er mótsvar, innrammaðar stuttar stundir, jafnvel bara nokkrar mínútur. Hvað geta vel nýttar fimm mínútur t.d. gefið okkur? Fimm mínútur í þögn að morgni, áður en við setjumst á hringekjuna. Fimm mínútur til að íhuga hvað er aðal atriðið í aðal atriðinu. Fimm mínútur undir lok dags til að gera upp daginn og undirbúa þann næsta? Fimm mínútur til að gera hléæfingar þegar herðarnar eru komnar upp að eyrum?

Hvað gefur það okkur að breyta ramma dagsins og vikunnar? Að breyta þeim tíma sem við gefum okkur í mismunandi þætti? Til dæmis að fjölga stundunum þar sem við skoðum stóru myndina, horfum til framtíðar, en fækkum stundunum þar sem við erum í viðbragðs og afgreiðsluham?

Ef þú hefur fullt frelsi til að útfæra eigin stundaskrá, hvernig skipuleggur þú vikuna? Ef tímar vikunnar eru merktir SVAN…

S = Sýn (Stefna, markmið, endurmat, yfirsýn)
V = Viðbragð (Brugðist við tilkynningum, áreiti, poti frá fólki og tækjum)
A = Afgreiðsla (Unnið í verkefnum, afgreitt í næði)
N = Næring (Andleg næring, hvíld, hreyfing, hugleiðsla)

…hvernig lítur stundaskráin þín þá út? Byrja dagarnir eða vikan á N(æringu) eða S(ýn), eða ferðu beint í V(iðbragð) eða A(fgreiðslu)? Hver eru hlutföll vikunnar hjá þér? Prófaðu að rissa upp þína drauma viku. Uppröðunin getur breytt miklu. Það er freistandi að fórna S-um og V-um til að afkasta meira í augnablikinu, hvað gerir einn dagur, eða ein vika? En hvernig fer ef þú fórnar þeim alltaf? Gætirðu mögulega gert minna, en afrekað meira, aukið gæðin og gleðina?

Mín afmarkaða stund til skrifta er liðin. Stutt afmörkuð stund með upphaf og endi. Stund sem hófst á einum hvítum staf á svörtum bakgrunni, útfrá óljósri hugmynd sem kviknaði á koddanum, hugmynd sem nú er römmuð inn í pistli sem endar á þakklæti og punkti. Takk fyrir mig.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.