Sláturpotturinn

Sláturpotturinn 150 150 Freyr

Í morgun átti ég bágt. Ég fann ekki betur en ég ætti skilið að minnsta kosti tveggja stunda svefn í viðbót. Hver getur skrifað útkeyrður og með kvef? Í virkri leit minni að afsökunum rifjaðist upp Sláturpotturinn, pistill sem ég skrifaði í fyrri skrifspretti, þá í ámóta ásigkomulagi. Miðvikudagsvenjan vinnur vesældóminn og þú færð nýjan, en þó endurnýttan pistil.

Á mínu heimili er reglulega slátur á borðum, eldað í stórum potti. Að hverri veislu lokinni stendur eftir sama staðreynd. Vegsemd fylgir fullur vaskur, hlaðinn af óhreinu leirtaui og áhöldum. Sláturpotturinn trónir eins og tindur upp úr haugnum.

Þegar ég nálgast ofhlaðinn vaskinn byrja óþægindin. Minnkuð munnvatnsframleiðsla, máttleysi í hnjám, erfiðleikar með öndun. Ég snýst í hringi, ekkert gengur. Finn fyrir titringi í vasa, ahh, skilaboð, tek fram símann. Stari enn á skjáinn þegar betri helmingurinn birtist, strýkur mér um bakið og býður fram aðstoð. Þvílík hamingja! …eða allt þar til ég heyri hvert hjálpræðið er: „Þú þarft bara að leggja frá þér símann, anda djúpt og taka síðan einn hlut í einu.“

Ég finn ekki fyrir miklu þakklæti. Með sært stolt legg ég frá mér símann og set á mig bleiku hanskana. Læt reyna á ráðið. Tek upp einn hlut í einu, aðeins einn, síðan þann næsta. Má ekki hika, má ekki hætta. Mér til gleði og ánægju virðist ráðið virka. Að endingu er hluturinn eini orðinn sá síðasti, nú glansa jafnt glös sem gamli potturinn stóri.

Hversu spennandi sem verkefnið er, þá þarf að þrífa allt heimsins leirtau, einn hlut í einu, aðeins einn hlut í einu. Með seiglu má sigrast á sérhverri þraut.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.