amma

Af ömmum og mistökum
Af ömmum og mistökum 150 150 Freyr

Ef það er eitthvað í veröldinni sem ég væri til í að heyra minna af, þá er það fífl, bjánar og kjánar. Þó ekki af heimskupörum heldur af notkun orðanna í ,,uppeldi”. 

Ég er nefnilega einn af þeim sem gerir mistök. Án þess að fara í djúpa tölfræðilega greiningu sýnist mér ég gera heldur fleiri mistök en meðal Jóninn. En ég er viðkvæmt blóm og á erfitt með að taka þeirri fullyrðingu að ég sé bjáni. Enn verra þykir mér að heyra fullyrt við börn að þau séu fífl. Gert mikið úr mistökum þeirra. Þegar farið er í barnið en ekki boltann.

Ég átti eina ömmu undir Eyjafjöllum sem ég fékk oft að heimsækja. Fór í orlof. Þar var lítið gert úr mistökunum. Öllu var tekið með brosinu blíða. Röddin ráma sagði ,,Jæja, varstu að bleyta síðustu buxurnar þínar væni. Heldurðu. Aldeilis tækifæri til að fá sér kókó. Svo geturðu skriðið í flatsængina. Þið náðuð að kanna svo vel lækinn. Elsku drengirnir. Alveg ómetanlegt.” 

Að orlofi loknu gat ég allt. Hefði sennilega flogið ef ég hefði haft hugmyndaflug til þess. 

Ég hef heyrt aðra segja af sambærilegu tilefni. ,,Ohh, allt orðið blautt af þér. Endemis fífl geturðu verið! Hvað ætlarðu nú að fara í?” Ég hef fundið á eigin skinni hvort er betra. Hef sannfæringu fyrir því hvor aðferðin er uppbyggilegri.

Mistök eru góð. Gleymum ekki að þau eru eðlilegur hluti af þroskaferlinu. Þau eru frábært tækifæri fyrir uppalendur til þess að leiðbeina. Fyrir þann sem fremur þau að læra af þeim.

Lyfi mystökyn.


Fyrst birt á vef 11. júní 2013. Endurbirt í tilefni dagsins. Katrín Marta Magnúsdóttir, fædd að Steinum undir Eyjafjöllum 22. október 1918.

Hörmung er að fara svona með tímann!
Hörmung er að fara svona með tímann! 150 150 Freyr

Tíminn er merkileg auðlind. Hann er uppsprettan sem aldrei þverr, en er hverri manneskju svo naumt skammtaður að það nístir á stundum. Ein af stóru spurningunum nagar, hvernig er best að nýta þessa takmörkuðu auðlind? Er eitthvað rétt svar?

Föðurafi minn, Bjarni, átti í sama angistarsambandi við tímann eins og við flest. Austur undir Eyjafjöllum bjó hann ásamt Kötu sinni í Skálakoti. Þar var gott að vera, þangað var gott að koma. Afi tók á móti gestum með bros á vör, hrókur alls fagnaðar. Tímans naut hann hvað best í samræðum við eldhúsborðið, stundum með glas í hönd, með góðum vinum. „Slaggur að njódda og livva“, hefðu nútíma-skáldin líklega kallað það.

Gömlu hjónin brugðu sér stundum í borgina. Þá var mikilvægt að nota tímann vel. Vinina varð að heimsækja, frændur og frænkur, endurgjalda góðar stundir austur í Skálakrók.

Sá gamli náði að ekki næra sig með núvitundarpælingum öllum stundum. Þegar þau gömlu voru rétt byrjuð að verma eldhúskollana í bækistöð sinni í bænum, hjá Rúnu dóttur sinni, spratt afi upp með orðunum: „Hörmung er að fara svona með tímann, Kata“ og var við það sama kominn fram í dyragættina með hatt á höfði, klár í næstu heimsókn.

Frasinn lifir í fjölskyldunni og um leið minningin um bóndann sem lét góða vináttu ganga fyrir öllu. Faðmurinn alltaf opinn, jafnvel þó flekkurinn lægi flatur.

Stefið stakk sér niður í koll mér þegar ég rakst á skrif ástralska hjúkrunarfræðingsins, Bronnie Ware. Bronnie vann árum saman við heimahjúkrun deyjandi fólks. Hún hlustaði á fólkið, sumt sátt og tilbúið, annað fullt eftirsjár. Samantekt Bronnie kom fyrst fram í pistli og síðan bók en kjarnann tók hún saman í eftirfarandi:

  • Ég vildi að ég hefði haft hugrekkið til að lifa lífinu sjálfri mér trú, en ekki lífinu sem aðrir ætluðust til.
  • Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
  • Ég vildi að ég hefði þorað að láta tilfinningar mínar í ljós. 
  • Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vinina. 
  • Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari.

Við stöðvum ekki stóra stundaglasið, en við ráðum miklu um hvað við gerum meðan sandkornin hrynja niður. Náum við að sinna og sýna okkar sanna kjarna, án eftirsjár, rækta vináttuna og eigin hamingju? Áskoranirnar gerast ekki mikið stærri þegar upp er staðið, að ganga af velli sátt við okkur og hvernig við nýttum tímann.

En hví að flækja þessi fræði? Líklega liggur svarið og tækifærið oftar en ekki í því sama og hjá þeim gamla, að við séum oftar tilbúin að henda frá okkur „hrífunni“, opna faðminn, „slögg að njódda og livva“ með vinunum. Þurfum við ekki að fara að hittast?


Tilvísanir

„Ég er slakur að njóta og lifa“: Ég vil það – Chase & Jói P

Bronnie Ware, regrets of dying, sjá viðtal á mindful.org, stutt TEDx myndband.

Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig?
Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig? 150 150 Freyr

Þú ert vel lesinn stjórnandi. Með fimm háskólapróf! Fyrsta einkunn lágmark. Hakað í öll boxin hjá þér. Mesti sérfræðingur landsins á þínu sviði. Ég trúi ekki öðru en allar hæfisnefndir heimsins elski þig! En vill einhver í raun vinna fyrir þig? Vinna með þér? Nær þitt fólk góðum afköstum og árangri og vex í starfi?

Þú ert ekki eini stjórnandinn sem keppir um hylli góðra starfsmanna. Atvinnuleysi á Íslandi er sáralítið. Laun hafa hækkað og kaupmáttur þeirra hefur vaxið. Starfsmenn njóta ágætra réttinda og góðs aðbúnaðar, ekki bara hjá þér heldur víðast hvar. Þá má ekki gleyma að þó Ísland sé eyja, þá er hún hluti af heiminum öllum sem er leiksvið unga fólksins í dag. Það hefur val hvar það vinnur. Dalvík eða Drammen, Reykjavík eða Rotterdam.

Mín sýn er sú að lykilinn að því að einhver vilji vinna fyrir þig, að minnsta kosti til lengri tíma, sé ekki endilega að finna í háskólagráðunum. Nær væri að leita í viskubrunn ömmu þinnar. Nokkur lykilorð sem ég tengi meira við ömmur mínar en háskólamenntun eru: Væntumþykja og skilningur, einlægur áhugi og notaleg fjarlægð og frelsi.

1. Væntumþykja og skilningur
Grunnur að því að leiða aðra er að líða vel í eigin skinni. Að þykja vænt um sjálfan sig og þekkja sjálfan sig. Á þeim grunni þarf að byggja til að geta sýnt væntumþykju og skilning á aðstæðum og áhugahvötum annarra.
Manneskjan er í eðli sínu sjálfhverf. Hörðustu naglar vilja ekki viðurkenna það en samt líður mönnum betur þar sem yfirmaðurinn skilur þá og þeir finna fyrir stuðningi og væntumþykju, eins og hjá ömmu. Það er lykilatriði að yfirmaðurinn skilji hvað drífur starfsmanninn helst áfram.

2. Einlægur áhugi
Ef fyrsta þrep er væntumþykja og skilningur, þá er annað þrep einlægur og sannur áhugi. Eins og þeir muna sem hafa lesið um Hawthorne rannsóknirnar þá er löngu vitað að raunverulegur áhugi og athygli stjórnenda er ekki bara lykilatriði í vellíðan starfsmanna heldur einnig framleiðni þeirra. Þetta er enn mikilvægara núna þegar líður að 100 ára afmæli upphafs rannsóknanna og hlutfall þekkingarstarfsmanna hefur margfaldast.
Hver er ástæðan fyrir því að starfsmaðurinn valdi að vinna með þér? Hverjar eru hans aðstæður í dag? Hvert stefnir hann næst? Styrkir það mögulega samband ykkar að ræða opinskátt hvert starfsmaðurinn stefnir? Eins og segir hér á nokkrum glærum. Ef starfsmanninum og hans vegferð til þroska og eflingar er sýndur einlægur áhugi, þá aukast líkur á því að hann eflist og enn fremur að ykkar samband styrkist, öllum til hagsbóta.

3. Notaleg fjarlægð og frelsi
Ég vona að þú hafir eins og ég upplifað bros og bjarma frá ömmum þínum, jákvæðni gagnvart þinni framtíð en um leið þessa hæfilegu fjarlægð ömmunnar sem leyfði þér, innan eðlilegra marka, að njóta þín frjáls í því sem þú hafðir mestan áhuga á. Ömmur vita sínu viti því rannsóknir sýna að sjálfræði í starfi hefur meiri að segja en margt annað um ánægju og framleiðni þekkingarstarfsmanna. Sjálfræðið gefur ágætlega launuðum og skapandi þekkingarstarfsmönnum meira en t.d. fjárhagsleg umbun eða bónusar við störf og verkefni. Ekki veit ég hvort Daniel H. Pink lærði meira um mikilvægi sjálfræðis í starfi af ömmu sinni eða í háskóla en ég verð að mæla með því hvernig hann nálgast sjálfræði og fleiri drifkrafta starfsmanna í þessu 10 mínútna myndbandi.

Kæri núverandi og/eða verðandi leiðtogi. Það er frábært að mennta sig og sérhæfa, háskólanám er góður grunnur og vonandi hættirðu aldrei að leita svara og þekkingar, en ekki halda að amma þín sé ekki enn með gagnlegustu svörin!