árangur

Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur
Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur 150 150 Freyr

Rétta glerið í kófinu

Í „kófinu“ reynir á stjórnendur sem aldrei fyrr. Fæstir hafa stýrt sínu liði í fjarvinnu. Hér kemur fram það sem allflestum stjórnendum er ljóst en öðrum ekki, að starfsmenn vilja yfirhöfuð allir skila góðu starfi og ná árangri í sínu. Þeir þurfa ekkert smásjáreftirlit, eða handstýringu í gegnum daginn. En… það breytir því ekki að stjórnandinn verður áfram að hafa yfirsýn, hún verður að sjá stóru myndina, hafa á hreinu mælikvarðana sem segja henni hvort teymið er á réttri leið. Þá er nú gleiðlinsan betri, en smásjáin!

Þunna línan milli hvetjandi sjálfræðis og afskiptaleysis

Í ræðu og riti hef ég talað fyrir sjálfræði starfsmanna sem lykli að ánægju og afköstum í hugrænni vinnu. Hef ég í þessu samhengi bent á pælingar Daniel H. Pink um þrennuna mikilvægu, sjálfræði, fagþekkingu og tilgang (e. autonomy, mastery and purpose). Þessa þrennu hafa margir stjórnendur í huga og nýta með góðum árangri í sinni stjórnun. Í sjálfræðinu er samt falinn varasamur pyttur. Línan frá hvetjandi sjálfræði yfir í afskiptaleysi er þunn.

Það kemur fyrir að þrátt fyrir sjálfræði, gríðar spennandi og tilgangsrík verkefni á fagsviði starfsmanns, þá kviknar enginn eldmóður. Hitt er jafnvel algengara, „stjörnuleikmaðurinn“ byrjar vel, en síðan dofnar yfir honum. Hver sem ástæðan er fyrir því að starfsmaður „spilar undir getu“, þá verður stjórnandinn að stíga inn. Þjálfari horfir ekki upp á leikmann eiga sinn versta dag á vellinum lengi áður en hann skiptir honum útaf. Með því að horfa aðgerðalaus á starfsmann missa flugið er stjórnandinn að gera bæði sjálfum sér og starfsmanninum ógagn. Uppbyggileg, krefjandi gagnrýni og leiðbeining er nefnilega enn lykilþáttur í góðri stjórnun, hvað sem sjálfræðinu líður!

ps. fyrir áhugasama um málefnið mæli ég með bókinni Radical Candor eftir Kim Scott.

Annir og árangur

Það er fátt auðveldara í henni veröld en að vera upptekinn. Verkefnalistar og tölvupóstar geta t.d. verið „góð“ uppspretta endalausra anna og þannig fest okkur á okkar eigin heimatilbúna hamstrahjóli. Við gleðjumst yfir afgreiddu verki eða pósti til þess eins að sjá listann lengjast á ný, án þess að við komumst í stóru málin. Þá er nú betra að brúka dagatalið með. Að ramma inn fyrirfram hve miklum tíma við verjum „á hamstrahjólinu“ á móti tíma í stefnumótun, fólk og ferla eða hvað það er sem eru mikilvægu stóru málin sem hrópa ekki svo hátt á okkur í núinu en öllu skipta fyrir framtíðina.

Gætum okkar, það er nefnilega svo ósköp auðvelt að rugla saman önnum og árangri!

Þrenna vikunnar: Aðalríkur allsgáði og tveir með
Þrenna vikunnar: Aðalríkur allsgáði og tveir með 150 150 Freyr

1-Aðalríkur allsgáði, Phelps og þú

Já, það er COVID, já það er möguleiki á verðbólguskoti, eldgosi, jarðskjálfta og umtalsverðar líkur á að himnarnir hrynji ofaná okkur, eins og Aðalríkur allsgáði benti reglulega á í Gaulverjabænum um árið. Hvað með það? Hvert setur þú athyglina og orkuna? Hver er þín leið til að hugsa meira um þín tækifæri, frekar en ógnanir? Hvernig neglir þú daginn eða vikuna?

Í þessu samhengi verður mér sérstaklega hugsað til Michael Phelps, besta sundmanns sögunnar, sem fylgdi nákvæmlega sömu rútínu fyrir hverja einustu keppni. Allt til að gera sitt sund sem best! Phelps útilokaði alla truflun, fækkaði óvissuþáttunum, fylgdi sínu ferli frá morgni til sunds, með ótrúlegum árangri! En þú? Hvernig tryggir þú þinn árangur? Að dagurinn í dag verði góður? Morgundagurinn enn betri? Hugsar meira um hvernig þú eflir þinn innri eld en möguleikann á eldi úr iðrum jarðar, eða aðrar ógnir heimsins?

2-Mjór er mikils vísir

Hvenær þarftu að skila? Vera klár með þitt? Eftir mánuð? Tvo, meira? Hvernig væri að snara 20 mínútum í verkið núna? Einni stuttri lotu? Hvað segja ekki máltækin góðu, mjór getur verið mikils vísir og hálfnað verk þá hafið er! Brjóttu ísinn og komdu kvörnunum í gang! Þú þakkar þér seinna!

3-Umsögnin

Það er fínt að auglýsa. Láta vita af þér og þínu. En ekki gleyma að auglýsing keppir aldrei við jákvæða umsögn eða ábendingu. Vinir treysta vinum. Er mögulega eitthvað sem þú getur gert í dag sem getur gert umsögn morgundagsins betri?

Lengi má manninn bæta
Lengi má manninn bæta 150 150 Freyr

Ég var ekki svo lánsamur að kynnast sykurpúðum í æsku. Ég er ekki viss um að þeir hafi fengist í Kaupfélagi Rangæinga á þeim tíma. Frændur þeirra, sykurmolana sem og fagurlitað kökuskraut, fann ég þó einn og óstuddur í eldhússkápum móður minnar. Grunlaus var ég um að meðan ég gekk hvað harðast fram gegn finnskættuðum sykurmolum austur í Landeyjum rýndu sálfræðingar í Ameríku í hvaða máli skiptir fyrir lífshlaup barna að standast sykraðar freistingar. Sálfræðingarnir settu sykurpúða fyrir framan barn, lofuðu því tvöföldum skammti gegn góðri bið og fylgdust með hvernig því gekk að halda aftur af sér. Með langtímarannsóknum komust þeir að því að lífslánið virtist fylgja ótrúlega vel árangri á þessu ofurlitla prófi í æsku. Geta barnanna til að standast freistingarnar, að hemja hvatir sínar í prófinu, hafði mikið forspárgildi um hvernig þeim vegnaði þegar leið á lífið.

Framangreinda speki las ég í bókinni um sykurpúðaprófið, The Marshmallow Test. Vegna sambúðar minnar við sykur og aðrar freistingar í æsku var ljóst í upphafi bókar að vonir mínar til árangurs í lífinu væru mjög takmarkaðar. Ég var að því kominn að henda bókinni á haugana. Það bráði þó af mér, ég las bókina til enda og eygði að endingu smá von.

Von mín vaknaði við að finna út að börnin sem stóðu sig betur á sykurpúðaprófinu voru ekki endilega fædd með meira mótstöðuafl. Það sem frekar réð var hve fær þau voru að „fífla“ sig sjálf. Börnin sem stóðu sig betur settu jafnvel upp lítil leikrit í huganum. Þau gáfu sér að molarnir væru myndir, lærðu að telja endalaust fingur og tær eða söngla lag. Þau gerðu hvað þau gátu til að halda löngun í freistingu frá. Það hvernig við tökumst á við freistingar getum við sem sagt undirbúið og æft og sannarlega þar með æft börnin okkar og aðra áhugasama í færninni.

Auðvitað má segja að auðveldasta leiðin til að standast freistingar sé að koma þeim úr augsýn. Heima borðum við ekki bollurnar sem bíða enn í búðinni. Símar titra ekki í tíma og ótíma nema stillingarnar leyfi það. En jafnvel þó að okkar sé freistað, getum við undirbúið viðbrögðin, skipulagt og jafnvel æft. Þreytt og/eða óundirbúin erum við líklegri til að falla í freistni, æfð og undirbúin getum við staðið klár. Fyrir suma er nóg að taka eina ákvörðun, aðrir þurfa að undirbúa sig og æfa reglulega allt upp í nokkrum sinnum yfir daginn… jafnvel alla ævi.

Að loknum lestri bókar var sem sagt niðurstaða mín að ég væri ekki með öllu vonlaus. Þrátt fyrir grá hár og grunn sem augljóslega var vart á byggjandi væri nú mest um vert að gyrða sig í brók, gefast ekki upp fyrir sjálfum sér. Með vilja og smá von má lengi manninn bæta!

Vilt þú ná árangri?
Vilt þú ná árangri? 150 150 Freyr

Einn minn kærasti mentor fyrr og síðar tók mig afsíðis. Við vorum stallbræður í þjálfun, ég að gutla við að æfa sjálfur, hann nærri höfðinu hærri, fjórtán árum eldri. Kappinn snéri sér að mér, horfði djúpt í augun á mér og spurði: „Hvernig er það með þig Freyr Ólafsson, vilt þú ná árangri?“ Ég umlaði og hummaði og reyndi um leið að sannfæra þennan þrekvaxna Ólympíufara að tuttugu og tveggja ára gamlan sveitastrák vantaði ekki viljann. „Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?“ spurði hann áfram af yfirvegun og þunga og sínum uppörfandi áhuga. Ég hrökk við, reyndi að halda kúlinu, en varð fátt um svör.

Vésteinn Hafsteinsson hefur fyrr og síðar spurt fjölda fólks svipaðra spurninga. Sumir hafa hrokkið í kút og hikað, eins og ég á þessum tíma. Aðrir hafa fundið svarið í eigin kjarna, „kýlt á þetta“ og farið alla leið, hafa sýnt og sannað að þeir vildu raunverulega ná árangri, jafnvel orðið bestir í heimi.

Ótal stjórnendur og þjálfarar hafi mikla tæknilega færni og þekkingu á sínu sviði og geta sagt fólki sínu til, það hjálpar, en er það aðal atriðið? Í mínum huga hafa yfirburða stjórnendur og þjálfarar, eins og Vésteinn, það lag sem þarf á því að komast inn í kjarnann og kveikja í fólki. Þeir spyrja krefjandi spurninga sem lifa með því og hvetja áfram. Hjálpa því að finna viljann og löngunina hjá sjálfum þér.

Krafturinn er þarna á sínum stað, inni í þér. Það er enginn annar en þú sem getur fundið viljann til að ná árangri. Þú þarft að þora að stíga skrefið og fylgja eigin sannfæringu. Þú þarft að hunsa allar þær ótal efasemdarraddir sem sífellt telja úr þér kjark, dusta púkunum af öxlunum og halda áfram. Góður yfirmaður og þjálfari styður þig, bendir á púkana. Hjálpar þér að trúa en efast ekki.

En hvernig er þetta annars með þig, viltu raunverulega ná árangri? Hvenær ætlar þú bara að kýla á þetta og fara alla leið?