einbeiting

Hvernig verðu bestu stund dagsins?
Hvernig verðu bestu stund dagsins? 150 150 Freyr

Eitt er að verja og annað er að verja!

Stundir dagsins gefa mis mikið af sér. Munurinn á okkar bestu stundum og öðrum lakari er sjaldnast fáein prósent, heldur margfeldi, sérstaklega í skapandi vinnu og krefjandi. Þá er spurningin. Ef þú ert búin(n) að finna út hvernig þú ætlar að verja þinni bestu stund, hvernig verðu hana þá? Okkar bestu ættum við að verja með kjafti og klóm!

Til að verja stundina þarf gjarnan, líkt og í skák, að hugsa nokkra leiki fram í tímann. Ákveða staðinn og stundina, ákveða áminningu/kveikju (e. trigger), undirbúa daginn áður allt sem þarf, láta samstarfsfólk vita að þín gæða stund gefur gull í mund, eykur afköst og léttir lund!

Ef næði er uppspretta góðra hugmynda og afkasta, hvernig tryggirðu þú þá næðið? Sama á við ef lykillinn er hreyfing, næring, svefn, vel undirbúinn verkefnalisti frá kvöldinu áður, hljóðvist, umhverfi…? Hvers virði er stundin? Hversu langt ertu tilbúin(n) að ganga til að verja hana? Gera hana góða?

Fyrir suma er besta stundin jafnvel utan skrifstofunnar, hreyfing eða íhugun, ómetanleg samvera. Hvernig tryggirðu þá að þú náir þessari ómetanlegu stund, látir hana ganga fyrir öðru og látir ekki daga eða vikur líða án þinnar bestu?

Ef þú verð vel og vandlega þína bestu stund, eru auknar líkur á að þú náir að verja vel þinni bestu stund!

Er trekantur málið?
Er trekantur málið? 150 150 Freyr

Hápunktur helgarinnar hjá mér var klárlega vel heppnaður trekantur. Ég hef prófað áður, með misjöfnum árangri, en nú gekk allt upp. Líkamlegt var það, hreyfing og sviti, vel valin orð í eyra og áhorf á fríska kroppa að iðka sitt sport, yndislegt.

Þessum hápunkti náði ég í Egilshöll í Grafarvogi, sportið var knattspyrna, æfingaleikur meistaraflokks Þróttar og Njarðvíkur. Það sem dró mig á völlinn var kærkomið tækifæri míns frumburðar og föðurbetrungs með liði Þróttar. Í eilífri leit minni að leiðum til að nýta tímann sem best, bætti ég tveimur þáttum við áhorfið á leikinn og fullkomnaði þannig trekantinn. Náði ég því samhliða leiknum ágætis hlaupaæfinu í áhorfendastæðinu sem og að hlusta á fína hljóðbók, Radical Candor eftir Kim Scott.

Meðan ég framkvæmdi þessa þríliðu auðnaðist mér um leið að sannreyna tilgátur valinna vísindagreina. Ég staðfesti til dæmis hið margkveðna að einbeiting er réttnefni, eitt og aðeins eitt getur átt athyglina í einu og óháð kyni (sorrý konur, rannsóknir sýna). Um leið og Freysson spretti fram völlinn og fangaði alla mína athygli, varð hljóðbókin að bíða, öðru máli gegndi um bakgrunns-vinnsluna, hlaupin, þeim gat ég haldið áfram án vandræða. Ég virðist því, líkt og aðrir sem hafa lært vel líkamlega færni, eins og að prjóna, ganga eða hjóla, geta framkvæmt hana á „sjálfsstýringu“ í bakgrunni meira krefjandi hugarverkefna.

Æfingin var um leið tilraun við tvær tilgátur, þ.e. að þegar áreiti og upplýsingar koma úr mörgum áttum, reyni á mörg skilingarvit, þá geti það verið til gagns í sumum tilfellum (sbr. rannsókn) og að máli skiptir hvort við séum búin undir fjölvinnslu (e. multitasking), líkt og ég var, eða ekki (sbr. rannsókn). Ágætis tilraun og skemmtun, en ég er efins, áfram stendur trú mín á það sem heilu bækurnar og fjöldi greina hafa staðfest að „fjölvinnsla“ og verkefnahopp heftir en hjálpar ekki, hvort sem um er að ræða unglinga eða eldri, einstaklinga eða teymi, ef fullrar athygli og andlegrar getu er þörf.

Hver er þá helsti lærdómur helgarinnar?

 • Það má alltaf finna tíma til að taka æfingu!
 • Hljóðbækur og hlaðvörp geta verið fræðandi ferðafélagar, jafnvel á knattspyrnuleik.
 • Radical Candor er áhugaverð bók, sérstaklega fyrir þá sem vilja verða góðir stjórnendur.
 • Þróttur er með efnilegt lið sem verður gaman að fylgjast með áfram.

Eftir stendur stóra spurningin, er trekantur málið? Hér talar augljóslega maður með reynslu. Þetta hljómar spennandi, draumur fyrir einhverja. Þó ég hafi prófað, þá minni ég á að ekki er allt eins í draumi og í raun. Þó við þykjumst geta einbeitt okkur að tveimur (einbeitingarefnum) í einu, þá ráðum við ekki almennilega við það og því getur endað illa ef ekki er varlega farið! Stundum er því líklega hollast að lofa draumnum að duga.

Að fasta, eða ekki fasta
Að fasta, eða ekki fasta 150 150 Freyr

Ég hef tröllatrú á föstum. Ég er sannfærður um ágæti þess að gera tilraunir á sjálfum sér, setja sér mörk, finna freistingarnar naga, detta stundum af baki, en brölta aftur á truntuna, þó heilinn gangi laus.

Í allsnægtalandinu sem við lifum í, þar sem framboð matar, upplýsinga og truflunar er taumlaust, getur ágætis mótvægi falist í tímabundnum föstum. Nokkur dæmi, til að gefa þér hugmyndir:

 • Sextán – átta: Að sleppa mat milli klukkan átta að kvöldi til tólf á hádegi morguninn eftir.
 • Nammidagur: Einn dagur í viku fyrir valdar freistingar.
 • Hádegis og kvöldráp: Að neyta aðeins miðla (s.s. samfélags- og fjölmiðla), ef tími vinnst til, milli 12 og 13 og/eða eftir klukkan 20:00 að kvöldi, annars ekki.
 • Fréttir af afspurn: Að sleppa öllum miðlum (samfélags- og fjölmiðlum), en spyrja heldur samferðafólk frétta.
 • Skila fyrst, skoða svo: Að skoða ekkert sem truflar hugann fyrr en allra allra mikilvægasta verkefni dagsins hefur verið unnið.
 • Þriggja tíma póstfasta: Að skoða aðeins tölvupóst eftir þriggja tíma vinnu-lotu í senn, með stuðningi niðurteljara.
 • Skapa, ekki gapa: Að skapa s.s. semja, smíða, sauma, forrita, hanna… en sleppa því að gapa yfir öðrum (t.d. á samfélagsmiðlum) í miðri viku.

Möguleikarnir til að setja sér mörk eru ótæmandi, rétt eins og tækifærin til þess að láta trufla sig. Það má setja áminningar og læsingar í síma og tölvu. Það má nota öpp til að hjálpa sér að halda sér á braut, nú eða gamaldags aðferð eins og að setja teygju utanum símann. Teygjan minnir þig þá á ,,símaföstuna“.

Færð þú góða hugmynd að föstu upp í hugann við lesturinn? Láttu hana eftir þér! Hlakka til að heyra hvernig gengur. T.d. með tölvupósti, eða með athugasemd. Ekki samt móðgast ef ég svara ekki strax, ég gæti verið að fasta.

———-

Takk fyrir innblásturinn:

ps. viltu fá pistil í áskrift? Þá getur þú skráð þig hér.

Af neyslu og lyst
Af neyslu og lyst 150 150 Freyr

Konan mín hefur ráð undir rifi hverju. Hún hefur fundið út að besta lyst á grænmeti hafa börnin rétt fyrir kvöldmatinn. Þegar lágt er orðið á tanknum fá þau grænmetisskál meðan þau horfa á barnatímann. Vittu til, skálin tæmist á augabragði. Grænmetið er góður forréttur og lystin á kvöldmatnum er góð. Við vitum hvað gerist ef börnin komast í sælgæti fyrir mat. Þau kvarta ekki, eru sæl og glöð en það sem þau fá í kroppinn eru næringarlausar hitaeiningar og það sem verra er, matarlystin er lítil sem engin þegar kemur að matartímanum.

Þetta minnir mig á lyst mína á skapandi og krefjandi verkefnum.

Ef ég vil hámarka afköst mín og árangur við skrif, eins og þennan pistil, þá geri ég það ,,fastandi“, fyrst að morgni áður en ég hleypi nokkru öðru að. Ég tryggi að slökkt sé á öllum tilkynningum í síma og tölvu. Ég hef aðeins opinn einfaldan ritil, þar sem ég sé ekki neitt annað en textann. Ég vil ekki hafa ,,sælgætisskál“ opna fyrir framan mig sem freistar mín. Að kroppa í ,,sætmeti“, eins og fréttir eða samfélagsmiðla í miðri krefjandi vinnulotu veit ég að slær mig út af laginu og ,,sköpunarlystin“ minnkar, jafnvel löngu eftir, ein rannsókn sýnir að áhrifa truflunar gætir í meira en 20 mínútur eftir að menn verða fyrir henni.

Að gera marga hluti í einu eða samhliða („múltítaska“) er það allra versta. Það minnkar ekki aðeins afköst og getu mína í augnablikinu heldur getur það minnkað andlega getu mína til langframa (sbr. rannsókn).

Ert þú nokkuð að gera sem skemmir þína sköpunar- eða lærdómslyst?