fókus

Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn
Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn 150 150 Freyr

Hundurinn og rófan

Stundum elti ég óróann inni í mér eins og hundur rófuna sína. Finn mig við skjáinn í endaleysu. Álíka kjánalegur og hundurinn, sé horft úr fjarska. Þá þarf ég að minna mig á að ég, rétt eins og hundurinn, á mér þjálfara. Sá er í öðrum hluta heilans, þessum skynsama.

Þessi “innri þjálfari” blæs því miður yfirleitt of seint í flautuna, eða ég hlusta ekki á hann, í öllum hamaganginum við að elta eigin rófu við skjáinn.

Hvað er til ráða?

  • Við getum kennt “hundinum” í okkur að hann leiki ekki frjáls, án þjálfara, hvenær sem honum dettur í hug!
  • Við getum skipulagt og bókað fyrirfram skjátímann, svo endaleysan fái enda!
  • Við verðum að tryggja að “flaut þjálfarans” sé þannig að við tökum eftir því!

Mikilvægt er að við séum umburðarlynd gagnvart “dýrinu” í þjálfuninni, reynum að skilja hvað fær það til að stökkva af stað, fyrirgefum því þegar það fer út af brautinni og reynum að læra inn á það.

Gott er einnig að hafa í huga að allir afþreyingar-hugbúnaðar-framleiðendur heimsins þekkja “hundinn” í okkur út og inn og leika á hann alla daga! Ef við leyfum „hundinum“ að eiga leika sér ólar- og þjálfaralausum alla daga í slíku umhverfi, þá er nú nokkuð fyrirséð hvernig fer!

Örbylgjuhoppið

Hefurðu heyrt sögu Íedu Jónasdóttur Herman? Við Íslendingar kynntumst henni sem óstöðvandi töffara á tíræðisaldri. Mér gaf hún innblástur og ráð sem ég hugsa oft til.

Dæmi: Íedu fannst illa farið með tímann að bíða aðgerðalaus eftir örbylgjuofninum. Íeda bjó til “örbylgjuhoppið”. Hún notaði malið í örbylgjuofninum sem áminningu um hreyfingu. Hún hoppaði og hoppaði, án afláts, þar til ofn-bjallan gall. Lítið trix sem hélt henni á tánum, í orðsins fyllstu, langt fram á tíræðis aldur!

Tækifærin fyrir “örbylgjuhoppin” leynast víða. Okkar er að grípa þau!

Tíminn og textinn

Eftir slíka langloku má hugsa til Woodrow Wilson sem var spurður hvort hann gæti gefið 5 mínútna ræðu sem snöggvast? “Nei, alls ekki! Slíka ræðu tekur mig eina til tvær vikur að undirbúa, en ef ég má tala í klukkutíma eða meira, þá er ég tilbúinn strax!”

Þrenna vikunnar: Einn, þrír og fimm
Þrenna vikunnar: Einn, þrír og fimm 150 150 Freyr

1 – Eitt í einu

Tætingur er aldrei svarið. Vinna í einu, því allra mikilvægasta, kýla á það, klára, kveðja, bless! Það er enginn sigurvegari í keppninni „tættasti starfsmaður vikunnar“, svo mikið er víst. Er hægt að bunka upp verkefnum? Taka lotur?

3 – Þegar þrennt er allt en eitt er ekkert

Ertu að kynna möguleika fyrir einhverjum? Stilla upp tilboði? Geturðu bætt tveimur möguleikum við? Boðið upp á þrjá kosti? Með því gætirðu breytt pælingum viðkomandi úr hvort hún vill vinna með þér, yfir í hvernig!

5 – Fimm á dag

Manstu eftir fimm á dag? Ráðlagður dagskammtur af grænmeti og ávöxtum. Steinliggur! Hollt og gott! En hvernig getum við komið á venju sem þessari? Ég er með fimm hugmyndir:

  1. Komdu þér upp blaði með 5 reitum fyrir hvern dag, hakaðu við fyrir hverja gúrku og gulrót.
  2. Vertu með app í símanum, t.d. „Five a Day“ appið og merktu við hvern skammt.
  3. Finndu til þinn dagskammt í ílát að morgni, hafðu á áberandi stað og tryggðu að þú hafir tæmt að kvöldi.
  4. Finndu fimm atriði yfir daginn til að tengja við og fáðu þér einn ávöxt eða grænmeti við hvern. T.d. einn við fyrstu máltíð dagsins, annan áður en ferð út úr dyrum, þriðja eftir að kemur heim… etc.
  5. Settu fimm netta steina í vinstri vasann að morgni, færðu einn yfir í hægri vasann fyrir hvern „bita“ og vertu viss um að vinstri vasinn sé tómur fyrir svefninn! Ps. það er ókostur að þekkja ekki muninn á hægri og vinstri ef beita á þessa aðferð 😅

Skiptu síðan út grænmeti og ávöxtum í ofangreindu fyrir hvaða jákvæðu breytingu sem þú vilt koma á í þínu lífi, innan eða utan vinnu. Steinliggur, ekki satt?

Þrenna vikunnar: Facebook, dugnaðar dellan og salan
Þrenna vikunnar: Facebook, dugnaðar dellan og salan 150 150 Freyr

1 – Tæknitrix – Facebook.com/notifications:

Viltu nota Facebook meira en Facebook notar þig? Hugmynd: Hentu út Facebook appinu, smelltu bókamerki inn í vafrann á: http://facebook.com/notifications Með þessu móti geturðu séð allar tilkynningar, án þess að láta tímalínuna toga þig og þína athygli til sín (eins og hún er hönnuð til að gera)! Ps. ekki klikka á að stilla tilkynningar þannig að sjáir aðeins ábendingar frá ómissandi hópum og síðum.


2 – Dugnaðar dellan!

Gætum okkur á dugnaðar dellunni. Þreyta má aldrei verða mælikvarði, hvað þá markmið. Það er oft gaman að taka á því, svitna, redda málum, en hví það, ef skynsemi og skipulag er það sem kemur þér af öryggi fyrst í mark?


3 – Viltu selja?

Að selja er að hjálpa. Að selja er að hlusta. Að selja er að skilja. Hvað getur þú gert í dag til að hjálpa, hlusta og skilja betur?