sjálfsstjórn

Að fasta, eða ekki fasta
Að fasta, eða ekki fasta 150 150 Freyr

Ég hef tröllatrú á föstum. Ég er sannfærður um ágæti þess að gera tilraunir á sjálfum sér, setja sér mörk, finna freistingarnar naga, detta stundum af baki, en brölta aftur á truntuna, þó heilinn gangi laus.

Í allsnægtalandinu sem við lifum í, þar sem framboð matar, upplýsinga og truflunar er taumlaust, getur ágætis mótvægi falist í tímabundnum föstum. Nokkur dæmi, til að gefa þér hugmyndir:

  • Sextán – átta: Að sleppa mat milli klukkan átta að kvöldi til tólf á hádegi morguninn eftir.
  • Nammidagur: Einn dagur í viku fyrir valdar freistingar.
  • Hádegis og kvöldráp: Að neyta aðeins miðla (s.s. samfélags- og fjölmiðla), ef tími vinnst til, milli 12 og 13 og/eða eftir klukkan 20:00 að kvöldi, annars ekki.
  • Fréttir af afspurn: Að sleppa öllum miðlum (samfélags- og fjölmiðlum), en spyrja heldur samferðafólk frétta.
  • Skila fyrst, skoða svo: Að skoða ekkert sem truflar hugann fyrr en allra allra mikilvægasta verkefni dagsins hefur verið unnið.
  • Þriggja tíma póstfasta: Að skoða aðeins tölvupóst eftir þriggja tíma vinnu-lotu í senn, með stuðningi niðurteljara.
  • Skapa, ekki gapa: Að skapa s.s. semja, smíða, sauma, forrita, hanna… en sleppa því að gapa yfir öðrum (t.d. á samfélagsmiðlum) í miðri viku.

Möguleikarnir til að setja sér mörk eru ótæmandi, rétt eins og tækifærin til þess að láta trufla sig. Það má setja áminningar og læsingar í síma og tölvu. Það má nota öpp til að hjálpa sér að halda sér á braut, nú eða gamaldags aðferð eins og að setja teygju utanum símann. Teygjan minnir þig þá á ,,símaföstuna“.

Færð þú góða hugmynd að föstu upp í hugann við lesturinn? Láttu hana eftir þér! Hlakka til að heyra hvernig gengur. T.d. með tölvupósti, eða með athugasemd. Ekki samt móðgast ef ég svara ekki strax, ég gæti verið að fasta.

———-

Takk fyrir innblásturinn:

ps. viltu fá pistil í áskrift? Þá getur þú skráð þig hér.

Lengi má manninn bæta
Lengi má manninn bæta 150 150 Freyr

Ég var ekki svo lánsamur að kynnast sykurpúðum í æsku. Ég er ekki viss um að þeir hafi fengist í Kaupfélagi Rangæinga á þeim tíma. Frændur þeirra, sykurmolana sem og fagurlitað kökuskraut, fann ég þó einn og óstuddur í eldhússkápum móður minnar. Grunlaus var ég um að meðan ég gekk hvað harðast fram gegn finnskættuðum sykurmolum austur í Landeyjum rýndu sálfræðingar í Ameríku í hvaða máli skiptir fyrir lífshlaup barna að standast sykraðar freistingar. Sálfræðingarnir settu sykurpúða fyrir framan barn, lofuðu því tvöföldum skammti gegn góðri bið og fylgdust með hvernig því gekk að halda aftur af sér. Með langtímarannsóknum komust þeir að því að lífslánið virtist fylgja ótrúlega vel árangri á þessu ofurlitla prófi í æsku. Geta barnanna til að standast freistingarnar, að hemja hvatir sínar í prófinu, hafði mikið forspárgildi um hvernig þeim vegnaði þegar leið á lífið.

Framangreinda speki las ég í bókinni um sykurpúðaprófið, The Marshmallow Test. Vegna sambúðar minnar við sykur og aðrar freistingar í æsku var ljóst í upphafi bókar að vonir mínar til árangurs í lífinu væru mjög takmarkaðar. Ég var að því kominn að henda bókinni á haugana. Það bráði þó af mér, ég las bókina til enda og eygði að endingu smá von.

Von mín vaknaði við að finna út að börnin sem stóðu sig betur á sykurpúðaprófinu voru ekki endilega fædd með meira mótstöðuafl. Það sem frekar réð var hve fær þau voru að „fífla“ sig sjálf. Börnin sem stóðu sig betur settu jafnvel upp lítil leikrit í huganum. Þau gáfu sér að molarnir væru myndir, lærðu að telja endalaust fingur og tær eða söngla lag. Þau gerðu hvað þau gátu til að halda löngun í freistingu frá. Það hvernig við tökumst á við freistingar getum við sem sagt undirbúið og æft og sannarlega þar með æft börnin okkar og aðra áhugasama í færninni.

Auðvitað má segja að auðveldasta leiðin til að standast freistingar sé að koma þeim úr augsýn. Heima borðum við ekki bollurnar sem bíða enn í búðinni. Símar titra ekki í tíma og ótíma nema stillingarnar leyfi það. En jafnvel þó að okkar sé freistað, getum við undirbúið viðbrögðin, skipulagt og jafnvel æft. Þreytt og/eða óundirbúin erum við líklegri til að falla í freistni, æfð og undirbúin getum við staðið klár. Fyrir suma er nóg að taka eina ákvörðun, aðrir þurfa að undirbúa sig og æfa reglulega allt upp í nokkrum sinnum yfir daginn… jafnvel alla ævi.

Að loknum lestri bókar var sem sagt niðurstaða mín að ég væri ekki með öllu vonlaus. Þrátt fyrir grá hár og grunn sem augljóslega var vart á byggjandi væri nú mest um vert að gyrða sig í brók, gefast ekki upp fyrir sjálfum sér. Með vilja og smá von má lengi manninn bæta!