skipulag

Þrenna vikunnar: Byrjað á brauði, kveikt og slökkt, á fílsbaki
Þrenna vikunnar: Byrjað á brauði, kveikt og slökkt, á fílsbaki 150 150 Freyr

Byrjað á brauði

Æskuminning. Kaffitími. Hlaðið borð af kræsingum. Kanelsnúðarnir nýkomnir úr ofninum. Ilmurinn lokkar lítinn mann. Teygi spenntur fram höndina að snúðafatinu. Vakinn af draumi. „Freyr minn! Hér byrjum við á brauði!“

Í dag. Vinnudagur. Hlaðinn heimur af spennandi upplýsingum. Nýjar fréttir streyma úr ofninum. Samfélagsmiðlarnir svigna af slúðri og hvers dags gleði og sorg. Teygi spenntur fram músarhöndina. Vakna af draumi við gamalt stef. „Freyr minn! Hér byrjum við á…“. Anda djúpt. Hugsa þakklátur til mömmu. Byrja á pistlinum.

Kveikt og slökkt

Kveikjur eða „triggerar“ eru skemmtilegt fyrirbæri. Hugmynd. Í hvert sinn sem ég heyri jólaauglýsingu þá nota ég það sem kveikju. Slekk á miðlinum. Kveiki á jákvæðni-radarnum. Finn eitthvað jákvætt í fari næstu manneskju sem ég hitti. Brosi. Hrósa.

Á baki fílsins

Ég er í miðri bók. „The happyness hypothesis“ eftir Jonathan Haidt. Himnasending hlaðin fróðleik. Höfundur líkir heila okkar við knapa á fílsbaki. Þar sem gamli, kviki, hræddi, viðbragðahluti heilans er fíllinn en skynsami rökvísi hluti heilans er knapinn.

Myndin er skýr. Ef fíllinn vill fara eitthvað, þó hann fælist bara undan mús, þá getur knapinn lítið gert annað en að reyna að hanga á baki. Knapans er að skilja, þjálfa og umbera hrædda dýrið.

Okkar er að sjá að við, okkar heili og hugsun sem heild, er bæði knapi og fíll. Ef knapinn setur stefnuna, temur, stýrir og skilur skepnuna, þá er fátt sem stöðvar, þó ýmislegt geti hent á langri leið.

Gagnabóndinn
Gagnabóndinn 150 150 Freyr

Gleðilegan bóndadag!

Í mjólkurframleiðslu hefur, líkt og á mörgum öðrum sviðum, orðið bylting síðustu áratugina. Nútímabóndinn er ekki bara kúabóndi, hann er líka gagnabóndi. Góð mjólkurnyt er minnst tilviljun eða heppni. Nytin byggir frekar á natni bóndans við að sinna sínu, rýna í gögn, stilla breytur. Hiti, lýsing, fóður, efnainnihald, tími og tíðni gjafa og mjalta er nú eitthvað sem (gagna)bóndinn horfir til í viðleitni sinni við að fjölga góðu dögunum í fjósinu, auka nytina. Bóndinn þarf að horfa á heildarmyndina, tryggja að kúnum líði vel, þær fái sitt, til að þær skili sínu.

En hvað með bóndann sjálfan, er hann nokkuð að gleyma sjálfum sér? Þess þarf ekki. Með snjöllum græjum getur hann nú mælt og skráð magn og gæði svefns, næringar og hreyfingar. Hann getur auðveldlega mælt tímann sem hann eyðir í áætlanagerð og endurskipulagningu, fjármál vs. fréttir, viðhald á húsum vs. viðhald á eigin skrokki og eflingu andans.

Með einfaldri daglegri skráningu og einkunnagjöf daganna, á skala frá 1-10, getur bóndinn síðan greint hvað það er í raun sem tryggir gæði hans eigin daga. Hvort heldur hann missir allt í skrúfuna, eða allt er upp á tíu, þá má rýna í orsökina? Er það í raun svefninn, hreyfingin, morgunrútínan eða kannski samskiptin í sveitinni eða samfélagsmiðlum, sem er lykillinn að góðum degi? Með gögn við hendina þarf ekki lengur að giska. Góðir dagar gagnabóndans eru sjaldnast heppni, ekki frekar en nytin í fjósinu.


Pistill birtur í tilefni bóndadagsins 2021. Frumútgáfa af þessum pistli, þá ekki sniðin að bóndanum sjálfum, birtist fyrst sem Þrenna vikunnar.

Þrenna vikunnar: Vika tvö, skipulögð hvíld, með vitund
Þrenna vikunnar: Vika tvö, skipulögð hvíld, með vitund 150 150 Freyr

Vika tvö

Seinni hluti viku tvö. Liðin vika fór í að rétta sig af. Við lifðum enn á sælu hátíðanna. Lifðum enn í loftkastalanum. Takmarkalausri trú á tuttugu og eitt. Síðan kom vika tvö. Mánudagur. Raun. Raun hjá sumum í tvennum skilningi.

Hmmm hvað gerðist? Ætlaði ég að breyta einhverju, sigra heiminn? Eða láta bara hverjum degi nægja sína þjáningu. Fagna því að komast þó framúr, klára daginn sómasamlega.

Flestir dagar eru víst einmitt eins og dagurinn í dag „hversdagar“ þar sem hvorki kartaflan né dagurinn eru sykurhúðuð. En er líður á viku tvö er líka ágætt að minna sig á að einmitt á ósykruðum dögum vinnum við flesta okkar sigra, þrátt fyrir allt.

Skipulögð hvíld

Ég hef unnið með afreksfólki á ótal sviðum. Oftar en ekki má sjá hver eru „afreks“ og hver ekki af skipulagi hvíldarinnar. Þau sem rótast endalaust áfram, án lotubindingar, ná sjaldnast sömu hæðum og þau sem skipuleggja daga, vikur og mánuði í kringum mikla ákefð í lotum og skynsama hvíld, endurmat og endurheimt.

Hvernig er þitt hvíldar skipulag? Afreks?

Með vitund

Eitt er að vera með meðvitund, annað er að fara í gegnum hverja stund dagsins með vitund! Ég er að æfa mig. Gengur mis vel. Að taka á móti öllum tilfinningum af áhuga, opinmynntur eins og ungabarn sem er að læra á lífið. Taka brosandi á móti þreytu, fókusleysi, fréttafíkn (eða annarri fíkn) með vitund. Enn frekar að taka eftir viðbragðinu. Elti ég ólguna í kviðnum, eða ekki? Oftar en ekki eru nefnilega gjörðirnar ósjálfrátt svar við „ólgunni áðan“. Getum við kannski breytt þeim?

Mig dreymir um daga þar sem hvert skjáfylli sem ég skoða, skoða ég með vitund.

Mig dreymir um daga þar sem ég get tekið á móti reiði og pirringi, með vitund, svarað af yfirvegun og skynsemi. Get valið viðbragðið.

Það má láta sig dreyma, ekki satt?

Þrenna vikunnar: Bókað, forsetinn og betra verð
Þrenna vikunnar: Bókað, forsetinn og betra verð 150 150 Freyr

Bókað

Hvenær bókarðu tíma, til að bóka tíma? Það er alveg bókað að ef þú bókar ekki tíma fyrirfram fyrir þína eigin skipulagsvinnu, þinn verðmætasta tíma vikunnar, þar sem þú aftur bókar hvernig þú velur að verja vikunni í grófum dráttum, þá mun þeytivinda vikunnar fylla upp í hverja einustu glufu! Vikunni er nefnileg alveg sama hvort þú ert klár í slaginn næst þegar klukkan slær, hún heldur ótrauð áfram að kjamsa á klukkutímunum! Getum við ekki bókað þetta?

Forsetinn

Talandi um bókanir. Hverjum veitir þú skrif-aðgang að dagatalinu þínu? Er eðlilegt að hver sem er geti truflað þig hvenær sem er? Farið „framfyrir röðina“ og komist beint að þér og þínum dýrmæta tíma? Þú ert kannski ekki forseti landsins, með ritara og móttöku, en þú getur vel verið forseti lífs þíns! Þú þarft ekkert að hafa kveikt á síma alla daga, öllum stundum, svara öllum eða leyfa öllum forritum og öppum að fanga athygli þína þegar þeim dettur það í hug. Settu þér nú alvöru standard. Vertu forseti!

Hvað er betra verð?

Við segjum gjarnan að við viljum fá hitt og þetta á „betra verði“ og eigum þá líkast til við ódýrara, eða hvað? Hegðun okkar er ekki endilega á þann veginn! Þetta sýndi t.d. áhugaverð rannsókn Dan Ariely. Hópi þátttakenda var gefið rafstuð, þau fengu síðan sömu lyfleysuna, „verkjatöflu“. Öðrum helmingnum var sagt að skammturinn kostaði 350kr en hinum helmingnum að þetta væri hræódýr 14 krónu pilla. Hver var niðurstaðan? Jú, 85% af þeim sem fengu „350 krónu pilluna“ fundu fyrir minni sársauka af rafstuðinu eftir inntöku, meðan 61% þeirra sem tóku ódýra „lyfið“ þökkuðu sinni pillu minni sársauka. Fleiri rannsóknir á kauphegðun hafa sýnt það sama, menn gefa sama rauðvíninu og bjórnum hærri einkunn ef verðmiðinn sýnir hærri tölu, svo dæmi séu tekin.

Svo í leit þinni að „betri“ verðlagningu fyrir þína vöru og þjónustu, ekki vera of viss um að leiðin að hjarta viðskiptavinarins sé í gegnum lægra verð, því gæti jafnvel verið öfugt farið?! Hvað kúnninn segir skiptir nefnilega minna máli en hvað hann gerir!

Rammi vikunnar
Rammi vikunnar 150 150 Freyr

Hvítir stafir birtast einn af öðrum á svörtum bakgrunni. Ramminn er klár, settur dagur, sett stund. Í dag skrifumst við á, ég og þú. Ég gef mér þessa stund á miðvikudagsmorgni til að leika mér að orðum og tala við þig. Stutt stund með upphaf og endi.

Innrömmuð takmörkuð stund þykir mér áhugaverð andstæða við endaleysuna sem við upplifum hvern dag. Fyrir liggja endalausir verkefnalistar, endalaust áreiti, endalaust framboð af upplýsingum, gleði og sorg. Afmörkunin er mótsvar, innrammaðar stuttar stundir, jafnvel bara nokkrar mínútur. Hvað geta vel nýttar fimm mínútur t.d. gefið okkur? Fimm mínútur í þögn að morgni, áður en við setjumst á hringekjuna. Fimm mínútur til að íhuga hvað er aðal atriðið í aðal atriðinu. Fimm mínútur undir lok dags til að gera upp daginn og undirbúa þann næsta? Fimm mínútur til að gera hléæfingar þegar herðarnar eru komnar upp að eyrum?

Hvað gefur það okkur að breyta ramma dagsins og vikunnar? Að breyta þeim tíma sem við gefum okkur í mismunandi þætti? Til dæmis að fjölga stundunum þar sem við skoðum stóru myndina, horfum til framtíðar, en fækkum stundunum þar sem við erum í viðbragðs og afgreiðsluham?

Ef þú hefur fullt frelsi til að útfæra eigin stundaskrá, hvernig skipuleggur þú vikuna? Ef tímar vikunnar eru merktir SVAN…

S = Sýn (Stefna, markmið, endurmat, yfirsýn)
V = Viðbragð (Brugðist við tilkynningum, áreiti, poti frá fólki og tækjum)
A = Afgreiðsla (Unnið í verkefnum, afgreitt í næði)
N = Næring (Andleg næring, hvíld, hreyfing, hugleiðsla)

…hvernig lítur stundaskráin þín þá út? Byrja dagarnir eða vikan á N(æringu) eða S(ýn), eða ferðu beint í V(iðbragð) eða A(fgreiðslu)? Hver eru hlutföll vikunnar hjá þér? Prófaðu að rissa upp þína drauma viku. Uppröðunin getur breytt miklu. Það er freistandi að fórna S-um og V-um til að afkasta meira í augnablikinu, hvað gerir einn dagur, eða ein vika? En hvernig fer ef þú fórnar þeim alltaf? Gætirðu mögulega gert minna, en afrekað meira, aukið gæðin og gleðina?

Mín afmarkaða stund til skrifta er liðin. Stutt afmörkuð stund með upphaf og endi. Stund sem hófst á einum hvítum staf á svörtum bakgrunni, útfrá óljósri hugmynd sem kviknaði á koddanum, hugmynd sem nú er römmuð inn í pistli sem endar á þakklæti og punkti. Takk fyrir mig.

Ógleymanlegur dagur?
Ógleymanlegur dagur? 150 150 Freyr

Manstu hvar þú varst þegar turnarnir hrundu? Slétt 18 ár í dag. Manstu fyrsta daginn í nýjum skóla? Fyrsta kossinn? Eða hefurðu heyrt um bóndann sem var spurður: „Jón… hvenær fæddist hún Guðrún þín?“ „Ja hvernig gæti ég gleymt því? Það var vorið sem Fordinn kom, hann kom ’82 áður en við settum út kýrnar!“. Stórir viðburðir greipast í minni og hanga eins og akkeri án fyrirhafnar meðan hversdagurinn rennur hjá. Eða hvað varstu að gera á mánudaginn eftir hádegið? Eða fyrir viku?

Auðvitað skipta stóru minningarnar okkur máli, en fyrir þig og mig skiptir ekki minna máli hvernig við höndlum hversdaginn. Hugmyndir, beiðnir, fyrirspurnir falla á okkur látlaust, líkt og regndropar. Gjarnan skoppa þær af skallanum og niður á stétt. Margar mega það, aðrar ekki. Okkar er að standa klár með viðeigandi tunnu og trekt þegar næsta snilldar hugmynd fellur á okkur? Ekki viljum við að hún endi í ómerkilegu niðurfalli gleymskunnar.

Heilinn er í sumu tilliti eins og vöðvi. Með því að reyna að muna alla hluti án skipulags þreytist sá grái, hversu góður sem hann er. Hugarró og vissa um hvar við geymum hugmyndir, verkefni og annað, hjálpar okkur að halda kollinum klárum. Hvað gerir þú þegar þú færð á hlaupunum hugmynd að brjáluðum business, efni í Podcast, sniðugri æfingu? Eða hvernig ferðu að muna að kaupa bæði haframjöl og rúsínur í næstu búðarferð?

Freyr „ferill“, vill að sjálfsögðu meina að gott skipulag skipti mestu máli. Án skipulags er hending hvert hugmyndir hendast og alltaf er einfaldleikinn bestur. Miðillinn getur verið hvað sem er, tækið sem þú lest þessar línur á, minnisbók eða miðar. Skiptir ekki máli, en skipulagið gerir það!

Ég predika ekki um eina leið eða einn feril. Þitt er að finna þína leið, vita hver hún er og bæta síðan að vild, smám saman, eitt lítið skref í einu. Ef þú veist ekki hvernig þú ferð að, hvernig ferðu þá að því að bæta þig?

Neðangreind vers gætu nýst þér við að byggja upp og bæta þína nálgun.

Fyrsta vers – Innhólfið á hlaupunum

Í hamagangi dagsins skiptir máli að hafa alltaf með sér miðil til að grípa hugmyndir, ,,innhólf“ fyrir góðar hugmyndir. Ef miðillinn er í síma eða tölvu, þá má það ekki taka meiri tíma en… opna app, skrifa hugmynd, loka! Ef það er flóknara, þá er örugglega til betri leið!

Hvert er viðbragðið þegar þú færð skeyti, áminningu, tölvupóst? Getur þú á innan við 15 sekúndum valið viðbragð og geymslustað fyrir það sem kom? Merkt, bætt við áminningu… skrifað í innhólf? Ef ekki, þá er örugglega til betri leið!

Annað vers – Verkefni á vísum stað

Hvernig heldur þú utanum verkefnalistann þinn? Allt á vísum stað? Einum stað? Hvernig ákveður þú hvað eru 5 mikilvægustu atriði vikunnar? Getur þú byrjað daginn á mikilvægasta atriðinu af mikilvægasta verkefninu þínu, án þess að efast? Ef ekki… þá getur þú örugglega fundið betri leið!

Þriðja vers – Ég endurtek

Fátt er betra til bætinga en endurtekningin. Daglegt, vikulegt, mánaðarlegt, árlegt endurmat. Er einhver lykil spurning sem þú ættir að spyrja þig að minnsta kosti einu sinni í viku? Einu sinni í mánuði? Ef þú ert ekki búin(n) að setja neitt upp nú þegar… vá hvað ég öfunda þig! Þú átt eftir að bæta þig svo mikið!


Dagurinn rétt að byrja. Vona að þú sért klár í að taka við dropum dagsins. Megi dagurinn verða þér ógleymanlegur!