sprettir

Af trippum og stuttum lotum
Af trippum og stuttum lotum 150 150 Freyr

Án þess að hallað sé á aðra ágæta kafla ævi minnar þá voru árin á Laugarvatni einhver þau allra bestu. Hvað má hugsa sér betra en að búa með sínum bestu vinum á heimavist? Fá að njóta mótunarára í gleði með góðum hópi jafnaldra, upplifa frábært félagslíf og takmarkalítinn aðgang að íþróttahúsi? Ef til væri himnaríki, þá gæti ég trúað að þar væri svipað fyrirkomulag og á Laugarvatni.

En þó umhverfið væri himneskt, vorum við nemendurnir ekki endilega englar alla daga. Eins og við er að búast í slíkum hópi þá kom fyrir að helsta markmiðið með dvölinni gleymdist, bóknámið fékk gjarnan að víkja fyrir gleðinni. Skipulagið hentaði vel „spretthörðum“ námsmönnum. Litlu og stundum engu máli, skipti frammistaða yfir önnina, endaspretturinn og lokaprófið var allt. Við, mis þroskaðir unglingarnir, fjarri eftirliti og stuðningi foreldra, höndluðum þetta frelsi auðvitað misjafnlega vel.

Auðvitað er ekki stórmannlegt að bölva kerfinu frekar en eigin breyskleika, en ég leyfi mér það samt. Breyskleikinn sýnist mér nefnilega sammannlegur og einskorðast ekkert endilega við óharðnaða unglinga á heimavist, hefur þú t.d. fylgst með atganginum á Alþingi þegar líður að þinglokum?

Fyrir mér er þetta skipulag, skipulag gamla tímans, þó það sé enn praktíserað hér og hvar, jafnvel á æðstu stöðum. Betra tel ég að byggja upp skipulagið líkt og unnið sé með unglingstrippi alla daga, trippi sem eru tilbúin að leyfa gleðinni að ganga fyrir, svo lengi sem ekki er komin stund sannleikans. Regluleg „skil“ geta verið ágætis uppspretta árangurs. Taktviss ör skil (t.d. viku/tveggja vikna/mánaðar) á því sem mestu máli skiptir er það sem við þurfum til að vinna með breyskleikann. Lítil skil, ófullkomin skil, en skil samt, skil til að endurmeta stöðuna, rétta af kúrsinn, læra, sýna, fá viðbrögð, skilja.

Stuttu loturnar halda okkur á tánum og hjálpa hvort sem við viljum afhenda hugbúnað, ná sölumarkmiði, gefa út bók, læra, breyta skipulagi eða setja lög. Alltaf er uppbrotið til gagns. Stuttar lotur tryggja jöfn afköst og hraða. Þó við þurfum að spretta aðeins úr spori, þá er það mun léttara að næstu vörðu, næstu helgi, en ef öll önnin eða árið er undir. 

Einstaka englar hrista sjálfsagt höfuðið yfir þessum óþarfa mínum, en a.m.k. við hin, þessi eilífðar unglingstrippi, tel ég að höfum ekki annað en gagn af góðri girðingu, stuttum lotum til að styðja okkur við.

Tætt í gegnum daginn
Tætt í gegnum daginn 150 150 Freyr

Í landbúnaði lærði ég fyrst að vinna. Ungur tók ég hvers kyns vélavinnu fegins hendi, eins og að tæta upp tún. Á Zetor dólaði ég áfram í lága drifinu. Árangurinn náðist með einfaldri aðferð. Að byrja snemma, stoppa aldrei, láta ekkert trufla sig og hætta ekki fyrr en síðasti blettur var tættur. Ekki einu sinni kall náttúrunnar fékk að trufla, með handolíugjöfina fasta hélt ég í stýrið með annarri og vökvaði flagið með besta vininum með hinni. Einfalt líf á beinni braut.

Við vélavinnu sem þessa er maður strammaður af og í einum ham. Svo lengi sem svefninn er nægur til að sofna ekki undir stýri er maður í einföldustu vélavinnu í nokkuð góðum málum.

Nú er öldin önnur. Í borginni er ekki nein bein braut fyrir mig að aka eftir. Í frelsinu á skrifstofunni þarf ég að finna brautina sjálfur, hemja mig og temja.

Uppskriftin mín er svipuð og í sveitinni. Ef ég á krefjandi verkefni fyrir höndum þá virkar best að mæta snemma, vera vel sofinn, tryggja að ekkert geti truflað, slökkva á öllum tilkynningum í síma og tölvu, gera öllum ljóst að nú sé ég í ham¹.

Rétt er að taka fram að ekki eru allir morgunfuglar. Sumir eru nátthrafnar og skrifa og skapa best að kvöldi. En sama gildir hvort er morgunn eða kvöld, verkefnavings (e. multitasking) er vonlaus aðferð við krefjandi og skapandi vinnu, já líka fyrir ykkur konur!2

Við tætingar á túnum í sveitinni gat maður haldið áfram meðan enn var olía á tanknum og afköstin voru mest undir vélinni komin. Í borginni er það andinn okkar sem ræður afköstum. Andinn afkastar best í ,,fókuseruðum“ lotum og sprettum, ekki á langtíma lulli í lága drifinu. Við erum betri ef við tökum alvöru pásu. Vatnskælirinn eða kaffivélin eru þekkt fyrir að gefa góðan innblástur. Sannreynt er að skjálausar pásur, á hreyfingu, helst utandyra, með öðrum, gefa andanum besta fóðrið3.

Þegar líða fer á daginn og lækka á tankinum hjá okkur morgunfuglum er fínn tími til að koma sér í léttari verk. Þá er fínt að afgreiða tölvupósta eða fyrirspurnir, helst í lotu, hringja símtölin sem þarf að hringja, eða gera hvað annað sem krefst ekki of mikils andlegs styrks.

Að loknum degi getum við vonandi litið sátt yfir afköstin á ,,akrinum“. Þá búin að tæta í gegnum verkefni dagsins, vonandi ekki of tætt samt… og getum haldið heim á ný, fyllt aftur á tankinn, tilbúin í nýjar áskoranir á nýjum degi. Heldurðu að þú komist í ham í dag?


Pistillinn er tileinkaður pabba, sem hefði orðið 67 ára í dag. Hann kenndi mér að vinna. Með góðu fordæmi, nærveru og samveru sem ég sakna í dag sem aðra daga.


  1. Víða í ráðgjafarvinnu minni segir mér fólk sem vinnur í stórum opnum rýmum að vinnustaðurinn á vinnutíma sé ekki góður til að vinna. Pælið í því! Stór opin vinnurými eru ekki uppskrift að starfsánægju eða árangri, punktur! Já það má kaupa höfuðtól, mæta fyrr, vinna heima… en væri ekki betra að hanna vinnurýmið þannig að það henti til að ná afköstum og árangri? Líklega efni í sér pistil, en læt þennan punkt duga í bili.
  2. Rannsóknir sýna að karlar og konur eru jafn afleit í að ,,gera tvennt í einu“. Sjá t.d. pistil um málið hér.
  3. Daniel H. Pink fer vel yfir pásur til afkasta í öðrum kafla bókarinnar When. Sjá samantekt Samuel T. Davis hér.
Gefum sprettunum allt
Gefum sprettunum allt 150 150 Freyr

Ég kynntist sprettum fyrst sem lítill polli í Landeyjum. Þar átti ég fyrstu ,,yfirhraða-sprettina“ þegar ég hljóp hangandi á kálfahölum eftir túnum. Lífið var gott. Leiðinlegustu sprettina átti ég þegar ég rak nautheimskar kvígur og kindur milli svæða, ,,hvattur“ áfram af móður minni. Með því að leggja alltaf aðeins of seint af stað náði ég flesta morgna góðum spretti út heimreiðina í kappi við skólabílinn, gjarnan með skólatösku í annarri og ritvél í hinni, íþróttataska á baki.

Með viti og árum hefur dálæti mitt á sprettum aukist. Ég hreinlega elska spretti. Kollur og kroppur krefjast þeirra og þarfnast. Því ákafari, því betri. Interval er uppáhald. Endurteknir sprettir sem gefa blóðbragð, endorfín og bætt þol. Sprettir sem gefa hreysti og hamingju í einum pakka! Ég nýt spretta upp stiga, eftir gangstétt, upp á fjall. Ég þrífst á sprettum á hjóli, sprettum með börnum, sprettum með bræðrum.

Andans sprettir eru mér litlu minni unaður. Afmörkuð einbeitt vinna að einu marki. Pomodoro-klukkan tifar meðan heimsins hamagangur bíður. Ég set upp vinnusprett fram að mat. Með vinnu-teymum hér og hvar finn ég út hverju við viljum áorka í vikunni. Allir í teyminu leggjast á árar og róa í sömu átt í einum spretti. 

Hvort sem ákefð sprettsins reynir meira á andann eða líkamann má alltaf horfa með eftirvæntingu til endamarksins. Fegurðina má finna í afmörkuninni, þéttum ramma. Allir sprettir eiga upphaf og endi. Reglurnar einfaldar og öllum ljósar.

Sprettir eru sannarlega krefjandi en þeir gefa líka af örlæti til baka. Því meira sem þú gefur, því meira færðu. Eins og skáldið sagði: ,,Stefnirðu á næsta stig? Þá þarftu að reyna á þig!“ Í áköfum sprettum fáum við að glíma við okkur sjálf. Við ýtum okkur að mörkum þess mögulega, eða enn betra, ýtum við mörkunum! Með endurteknum sprettum af mikilli ákefð náum við að bæta okkur.

Sprettur verður þó vart að fullu gagni nema hvíldin sé rétt. Líkaminn og andinn þurfa hvíld og endurmat til að við bætum okkur. Sannleikurinn birtist í uppgjörinu. Í þessu mikilvæga augnabliki að spretti loknum. Þá er stundin til að staldra við og líta um öxl. Hvernig gekk? Gaf ég allt sem ég átti? Get ég gert betur næst? Hverju þarf ég þá að breyta? Hvernig kemst ég á næsta stig? Hvernig stígur teymið upp og nær að gera betur næst?

Uppgjörið við enda spretts er stundin til að sætta sig við orðinn hlut. Sprettinum er lokið. Þú færð engu breytt um liðna lotu. Þá má heldur hlakka til. Þá má hugsa hvernig tækla má tækifærið framundan, þennan spennandi næsta sprett. Er þá nema eitt að gera? Gefðu allt sem þú átt!

—–

Innblástur