sprettur

Aftur á bak
Aftur á bak 150 150 Freyr

Síðasta vika var erfið fyrir mig og klárinn Vana. Klárinn er ekki fulltaminn, verður það víst seint og á það til að henda mér af baki. Þannig fór einmitt í liðinni viku. Ég er svo sem ekki alveg saklaus sjálfur. Það þarf að sinna vel hálftömdum hestum, kemba bæði og klappa. Ég sinnti ekki mínum Vana sem skyldi og fékk að finna fyrir því. Ég endaði flatur, hékk í taumnum, en hafði mig samt vart á fætur aftur, hvað þá á bak.

Ég er raunar nokkuð reyndur í því að detta af baki en þetta fall var óvenju sárt. Það getur endað illa að detta af rútínuklárnum. Í pistlunum hef ég predikað ótal dyggðir en eins og dæmin sanna eru stóryrtustu predikararnir ekki endilega presta bestir.

Ég er farinn að þekkja minn Vana. Okkur gengur best saman ef álagið er hæfilegt, hann brúkaður daglega og ég fer eins að honum í hvert sinn. Kröftug hreyfing er það sem við þurfum. Okkar samverustundir eru bestar úti á harðaspretti kófsveittir þannig að faxið flaxast til. Þá hlær við geð, eins og skáldið sagði.

Þó allt hafi gengið aftur á bak hjá okkur Vana í síðustu viku þá er nú ekki annað að gera en að koma sér aftur á bak. Áður en ég legg í að leggja á klárinn treysti ég mín heit, horfi fram og hlakka til en er jafnframt klár ef klárinn skildi nú hrekkja mig einu sinni enn.

Venja mín, þú, sem ert í huga mér.
Hver er þinn hvati?  Hvað þarf til að þú ríkir?
Ég gef mér í dag mína daglegu venju
og fyrirgef mér öll mín misstig.
Ég mun falla oft í freistni,
hrasa títt og vaða í villu.
En ég rís upp,
efli mátt minn, með venju dagsins,
vikunnar og mánaðarins að eilífu. Amen.

Gefum sprettunum allt
Gefum sprettunum allt 150 150 Freyr

Ég kynntist sprettum fyrst sem lítill polli í Landeyjum. Þar átti ég fyrstu ,,yfirhraða-sprettina“ þegar ég hljóp hangandi á kálfahölum eftir túnum. Lífið var gott. Leiðinlegustu sprettina átti ég þegar ég rak nautheimskar kvígur og kindur milli svæða, ,,hvattur“ áfram af móður minni. Með því að leggja alltaf aðeins of seint af stað náði ég flesta morgna góðum spretti út heimreiðina í kappi við skólabílinn, gjarnan með skólatösku í annarri og ritvél í hinni, íþróttataska á baki.

Með viti og árum hefur dálæti mitt á sprettum aukist. Ég hreinlega elska spretti. Kollur og kroppur krefjast þeirra og þarfnast. Því ákafari, því betri. Interval er uppáhald. Endurteknir sprettir sem gefa blóðbragð, endorfín og bætt þol. Sprettir sem gefa hreysti og hamingju í einum pakka! Ég nýt spretta upp stiga, eftir gangstétt, upp á fjall. Ég þrífst á sprettum á hjóli, sprettum með börnum, sprettum með bræðrum.

Andans sprettir eru mér litlu minni unaður. Afmörkuð einbeitt vinna að einu marki. Pomodoro-klukkan tifar meðan heimsins hamagangur bíður. Ég set upp vinnusprett fram að mat. Með vinnu-teymum hér og hvar finn ég út hverju við viljum áorka í vikunni. Allir í teyminu leggjast á árar og róa í sömu átt í einum spretti. 

Hvort sem ákefð sprettsins reynir meira á andann eða líkamann má alltaf horfa með eftirvæntingu til endamarksins. Fegurðina má finna í afmörkuninni, þéttum ramma. Allir sprettir eiga upphaf og endi. Reglurnar einfaldar og öllum ljósar.

Sprettir eru sannarlega krefjandi en þeir gefa líka af örlæti til baka. Því meira sem þú gefur, því meira færðu. Eins og skáldið sagði: ,,Stefnirðu á næsta stig? Þá þarftu að reyna á þig!“ Í áköfum sprettum fáum við að glíma við okkur sjálf. Við ýtum okkur að mörkum þess mögulega, eða enn betra, ýtum við mörkunum! Með endurteknum sprettum af mikilli ákefð náum við að bæta okkur.

Sprettur verður þó vart að fullu gagni nema hvíldin sé rétt. Líkaminn og andinn þurfa hvíld og endurmat til að við bætum okkur. Sannleikurinn birtist í uppgjörinu. Í þessu mikilvæga augnabliki að spretti loknum. Þá er stundin til að staldra við og líta um öxl. Hvernig gekk? Gaf ég allt sem ég átti? Get ég gert betur næst? Hverju þarf ég þá að breyta? Hvernig kemst ég á næsta stig? Hvernig stígur teymið upp og nær að gera betur næst?

Uppgjörið við enda spretts er stundin til að sætta sig við orðinn hlut. Sprettinum er lokið. Þú færð engu breytt um liðna lotu. Þá má heldur hlakka til. Þá má hugsa hvernig tækla má tækifærið framundan, þennan spennandi næsta sprett. Er þá nema eitt að gera? Gefðu allt sem þú átt!

—–

Innblástur