sveit

Hörmung er að fara svona með tímann!
Hörmung er að fara svona með tímann! 150 150 Freyr

Tíminn er merkileg auðlind. Hann er uppsprettan sem aldrei þverr, en er hverri manneskju svo naumt skammtaður að það nístir á stundum. Ein af stóru spurningunum nagar, hvernig er best að nýta þessa takmörkuðu auðlind? Er eitthvað rétt svar?

Föðurafi minn, Bjarni, átti í sama angistarsambandi við tímann eins og við flest. Austur undir Eyjafjöllum bjó hann ásamt Kötu sinni í Skálakoti. Þar var gott að vera, þangað var gott að koma. Afi tók á móti gestum með bros á vör, hrókur alls fagnaðar. Tímans naut hann hvað best í samræðum við eldhúsborðið, stundum með glas í hönd, með góðum vinum. „Slaggur að njódda og livva“, hefðu nútíma-skáldin líklega kallað það.

Gömlu hjónin brugðu sér stundum í borgina. Þá var mikilvægt að nota tímann vel. Vinina varð að heimsækja, frændur og frænkur, endurgjalda góðar stundir austur í Skálakrók.

Sá gamli náði að ekki næra sig með núvitundarpælingum öllum stundum. Þegar þau gömlu voru rétt byrjuð að verma eldhúskollana í bækistöð sinni í bænum, hjá Rúnu dóttur sinni, spratt afi upp með orðunum: „Hörmung er að fara svona með tímann, Kata“ og var við það sama kominn fram í dyragættina með hatt á höfði, klár í næstu heimsókn.

Frasinn lifir í fjölskyldunni og um leið minningin um bóndann sem lét góða vináttu ganga fyrir öllu. Faðmurinn alltaf opinn, jafnvel þó flekkurinn lægi flatur.

Stefið stakk sér niður í koll mér þegar ég rakst á skrif ástralska hjúkrunarfræðingsins, Bronnie Ware. Bronnie vann árum saman við heimahjúkrun deyjandi fólks. Hún hlustaði á fólkið, sumt sátt og tilbúið, annað fullt eftirsjár. Samantekt Bronnie kom fyrst fram í pistli og síðan bók en kjarnann tók hún saman í eftirfarandi:

  • Ég vildi að ég hefði haft hugrekkið til að lifa lífinu sjálfri mér trú, en ekki lífinu sem aðrir ætluðust til.
  • Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið.
  • Ég vildi að ég hefði þorað að láta tilfinningar mínar í ljós. 
  • Ég vildi að ég hefði haldið sambandi við vinina. 
  • Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari.

Við stöðvum ekki stóra stundaglasið, en við ráðum miklu um hvað við gerum meðan sandkornin hrynja niður. Náum við að sinna og sýna okkar sanna kjarna, án eftirsjár, rækta vináttuna og eigin hamingju? Áskoranirnar gerast ekki mikið stærri þegar upp er staðið, að ganga af velli sátt við okkur og hvernig við nýttum tímann.

En hví að flækja þessi fræði? Líklega liggur svarið og tækifærið oftar en ekki í því sama og hjá þeim gamla, að við séum oftar tilbúin að henda frá okkur „hrífunni“, opna faðminn, „slögg að njódda og livva“ með vinunum. Þurfum við ekki að fara að hittast?


Tilvísanir

„Ég er slakur að njóta og lifa“: Ég vil það – Chase & Jói P

Bronnie Ware, regrets of dying, sjá viðtal á mindful.org, stutt TEDx myndband.

Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?!
Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?! 150 150 Freyr

Ég var landbúnaðarverkamaður í Landeyjum. Ekki ráðinn, heldur sonur foreldra minna, bænda í Hildisey. Ég var samt tiltölulega langt frá því að vera endilega fæddur í starfið eins og sagt er. Mamma vildi meina að ég væri færastur í því að færa mig undan. Fá Örvar litla bróður til þess að vinna verkið. Hann þurfti ekki að biðja tvisvar. ,,Sko! Sjáðu bara Örvar”.

Í mínum huga glymja enn ,,hvatningarorð” eins og: ,,Freyr!!! Hver heldurðu að vilji nokkurn tíma ráða þig í vinnu?!”

Ég sagði ekki neitt. Blótaði nokkrum sinnum í hljóði. Hætti að skipuleggja í huganum næstu íþróttaæfingu. Hélt áfram að skafa fjósbitana. Verkið var rétt utan við mitt kjarna áhugasvið, það augnablikið, skulum við segja.

Þökk sé Andra yngri bróður okkar, þá er mamma sennilega búin að gleyma þessu. Andri var nefnilega verri! Mamma hætti fljótlega að reyna að fá hann til verka. Andri var ónytjungur.

Mér flaug þetta í hug aftur í vetur. Ég sat í Háskólabíói. Salurinn var troðfullur. Kastararnir lýstu upp sviðið. Laglínan lipur. Textarnir tær snilld. Útsetningarnar þvílíkt afbragð. Í miðjum hópnum stóð Andri og spilaði og söng. Stóri bróðir varð stoltur og meyr.

Andri hafði fundið fjölina sína.

Í dag er Andri nákvæmur, frumlegur, skapandi, harðduglegur tónlistarmaður sem unnir sér sjaldan hvíldar. Gerir það sem hann langar til þess að gera.

Í dag eru tækifæri um allt. Möguleikarnir og leiðirnar óteljandi. Þú getur gert það sem þig langar til þess að gera. Meira en það. Ef þú vilt ná árangri þá skiptir öllu máli að þú finnir hvað það er. Að þú finnir ástríðueldinn og hellir svo olíu á.

Þá verður slegist um að ráða þig í vinnu. Eða, þú býrð þér til þína drauma vinnu. Ræður til þín fólk. Þá skiptir máli að ráða rétt. Hugaðu þá að ónytjungunum! Þeir leynast víða!

—–
Fyrst birt á blandan.net 10.5.2013