tækifæri

Rétta tímalínan – Leiðin fram á við – Falin tækifæri
Rétta tímalínan – Leiðin fram á við – Falin tækifæri 150 150 Freyr

Rétta tímalínan

Fyrir stjarneðlisfræðingnum er öld lítið meira en rykkorn á tímalínunni. Fyrir óþreyjufullum nemanda er biðin eftir næstu frímínútum sem eilífðin sjálf (hér er talað af reynslu!).

Er önnur sýnin réttari en hin?

Því leyfi ég mér að spyrja. Hvaða tímalínu ert þú að nota til að vega og meta þín mál? Er það örugglega sú rétta?

Leiðin fram á við

Gekk vel? Gekk illa? Hvort heldur er þá hlýtur besta leiðin fram á við að felast í því að eyða sem allra minnstri orku í það sem við höfum ekki stjórn á og sem allra mestri í það sem við höfum eitthvað um að segja! Áfram gakk.

Falin tækifæri

Ef það er eitthvað sem ég hef lært af ævintýrum undanfarinna ára þá er það það að ný tækifæri svífa sjaldnast um í lausu lofti og bíða spennt eftir að detta niður í fangið á okkur.

Tækifærin fela sig frekar í fangi annars fólks. Hreyfa sig helst í góðu spjalli, einn á einn, þegar traustið er tryggt. Ný tækifæri verða jafnvel til í slíku spjalli, bræður og systur hinna fyrri.

Þannig að ef þú ert í leit að nýjum tækifærum, þá ertu mögulega í raun í leit að góðu fólki, nýjum tengslum, traustum samskiptum.

Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin
Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin 150 150 Freyr

Venja í öðru veldi

Vorið er komið og grundirnar gróa. Um allan bæ heyri ég af löngun til þess að hjóla, ganga eða hlaupa meira. Löngunin er ljómandi byrjun, en venjan er það sem vinnur á endanum. Í þeim anda fylgir ein einföld uppskrift sem vinnur með venju:

Smelltu þér 1 metra í dag, alls ekki meira! Tvo á morgun, fjóra hinn, síðan átta, sextán o.s.frv. Alltaf á sama tíma dags, alltaf sama áminningin eða undanfarinn, þ.e. rútínan við að koma sér af stað. Allt gert til að gera hreyfinguna aðgengilega og áhugaverða, síðast en ekki síst… engar undantekningar!

Ps. það er betra að setja sér efri mörk með þessa aðferð því annars ferðu lengra en hringinn í kringum landið á degi 22 og lengra en til tunglsins á degi 33! 😎

Klikkað

Ef ekkert hefur klikkað hjá þér undanfarna mánuði eru drjúgar líkur á að þú ráðir við meira krefjandi verkefni.

Mörkin

Hvar endar fjárfestirinn sem hafnar engum tækifærum? Hugbúnaðarfyrirtækið sem segir já við öllum beiðnum um nýja fítusa? Trjáræktandinn sem engar greinar klippir? Foreldrið sem segir já við öllum beiðnum barnsins?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá skorum við líklega fleiri mörk með því að setja skýrari mörk.

Þrenna vikunnar: Þinn tími, til að gefa… Adda Palla og Bergþóru?
Þrenna vikunnar: Þinn tími, til að gefa… Adda Palla og Bergþóru? 150 150 Freyr

1-Þinn tími er kominn! 

Ja nú er það bjart! Þvílíku bullandi blússandi tækifærin! Óvanalegir tímar skapa óvanalega mikil tækifæri. Það er bara þannig. Við vitum öll að þessi bylgja gengur yfir. Öll él styttir upp um síðir! 

Þú veist að nú hefur þú betra tækifæri en nokkru sinni fyrr til að stilla deginum og vikunni upp samkvæmt þínu höfði! Tryggja að þú og þitt blómstri. Endurskipuleggja, betrumbæta. Þú veist að besti tíminn til að koma fram með nýjungar er einmitt á tímum sem þessum! Meðan aðrir barma sér, bíða, hörfa, hika, þá er þinn tími! Þinn tími er kominn! 

2-Tími til að gefa 

Nú er tími til að gefa. Hringja óvænt í fjórar frænkur. Gefa fjórum viðskiptavinum óvænta gjöf. Veita miklu betri þjónustu en nokkur átti von á. Hjálpa til af einlægni, án þess að ætlast til nokkurs til baka. Vittu til, það gleymist seint! Fólk man hvað þú gefur, frekar en hvað þú þiggur! 

3-Bingóið af verkefnalistanum

Eitt stutt praktískt í lokin varðandi orðalag á verkefnalista. Mínar uppáhalds línur á slíkum listum eru skrifaðar eins og verkið sé afgreitt. Skýrt og afmarkað, þannig að þegar ég haka við, þá kinka ég kolli með sjálfum mér: „Aha… einmitt, jebb, búinn að því!“ Ekkert vafamál, ekkert loðið! Þrjú dæmi: 

  • „Búinn að skrifa Þrennu vikunnar og senda á snillingana á póstlistanum mínum.“ 
  • „Tekið upp 1 mín videó með ársfjórðungs-markmiðunum og sent á allan hópinn.“ 
  • „Boðið Adda Palla og Bergþóru í bingóið í Vinabæ!“

Kristaltært, ekki satt?

Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?!
Hver heldurðu að vilji ráða þig í vinnu?! 150 150 Freyr

Ég var landbúnaðarverkamaður í Landeyjum. Ekki ráðinn, heldur sonur foreldra minna, bænda í Hildisey. Ég var samt tiltölulega langt frá því að vera endilega fæddur í starfið eins og sagt er. Mamma vildi meina að ég væri færastur í því að færa mig undan. Fá Örvar litla bróður til þess að vinna verkið. Hann þurfti ekki að biðja tvisvar. ,,Sko! Sjáðu bara Örvar”.

Í mínum huga glymja enn ,,hvatningarorð” eins og: ,,Freyr!!! Hver heldurðu að vilji nokkurn tíma ráða þig í vinnu?!”

Ég sagði ekki neitt. Blótaði nokkrum sinnum í hljóði. Hætti að skipuleggja í huganum næstu íþróttaæfingu. Hélt áfram að skafa fjósbitana. Verkið var rétt utan við mitt kjarna áhugasvið, það augnablikið, skulum við segja.

Þökk sé Andra yngri bróður okkar, þá er mamma sennilega búin að gleyma þessu. Andri var nefnilega verri! Mamma hætti fljótlega að reyna að fá hann til verka. Andri var ónytjungur.

Mér flaug þetta í hug aftur í vetur. Ég sat í Háskólabíói. Salurinn var troðfullur. Kastararnir lýstu upp sviðið. Laglínan lipur. Textarnir tær snilld. Útsetningarnar þvílíkt afbragð. Í miðjum hópnum stóð Andri og spilaði og söng. Stóri bróðir varð stoltur og meyr.

Andri hafði fundið fjölina sína.

Í dag er Andri nákvæmur, frumlegur, skapandi, harðduglegur tónlistarmaður sem unnir sér sjaldan hvíldar. Gerir það sem hann langar til þess að gera.

Í dag eru tækifæri um allt. Möguleikarnir og leiðirnar óteljandi. Þú getur gert það sem þig langar til þess að gera. Meira en það. Ef þú vilt ná árangri þá skiptir öllu máli að þú finnir hvað það er. Að þú finnir ástríðueldinn og hellir svo olíu á.

Þá verður slegist um að ráða þig í vinnu. Eða, þú býrð þér til þína drauma vinnu. Ræður til þín fólk. Þá skiptir máli að ráða rétt. Hugaðu þá að ónytjungunum! Þeir leynast víða!

—–
Fyrst birt á blandan.net 10.5.2013