twitter

Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn
Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn 150 150 Freyr

Grjót og gler

Eftir allt of langan vinnudag las ég línu á Twitter eftir einn minn uppáhalds vitring (@paraschopra): „Ég verð að segja að það er vonlaust að vinna á hámarks afköstum lengur en 3-4 tíma.“ Hristi þreyttan hausinn og brosti út í annað. Ákvað samt að að morgni myndi ég skrifa um eitthvað allt annað en tímastjórnun og afköst. Grjót er best geymt inni í glerhúsum.

Mæta manneskja!

Hvað gerir manneskjur að mætum manneskjum? Góð byrjun er líklega að mæta eins og manneskja. Gera sitt. Moka sinn flór. Hegða sér eins og mæt manneskja. Sönn. Alla daga. Ekki bara meðan kastljósið lýsir upp sviðið.

Teygjan og títuprjónninn

Ég er eins og æfingateygja. Flöt og þunn gúmmíteygja sem er bara ómerkileg hrúga í horni meðan hún er ekki í notkun. Teygja sem fer fyrst að gera gagn að viti þegar togið byrjar.

Þarf að minna mig á að teygjur hafa sín takmörk. Því kröftugar sem togað er, því þynnri verður hún. Þynnist þar til ekki þarf nema eina litla rifu. Í ystu mörkum þarf ekki nema eitt títuprjónsgat, þá er teygjan brostin. Gott að muna. Sárt að gleyma.

Þrenna vikunnar: Námið, vinskapurinn og liðsuppstillingin
Þrenna vikunnar: Námið, vinskapurinn og liðsuppstillingin 150 150 Freyr

1-Námið

Í mörg ár lærði ég orðflokkagreiningu, stórgóða stærðfræði, hornafræði, heildun, línulega algebru, að ógleymdri efnafræðinni, um sýru-basa indikatora o.fl. Stórmerkilegt stöff var mér sagt, svo gott fyrir framtíðina. Fyrir mig, gjörsamlega gagnslaust.

Á samfélagsmiðlum (Twitter) hef ég undanfarnar vikur lært af frösum eins og: „Oft forðumst við að taka af skarið því okkur finnst við þurfa að læra meira, þegar besta leiðin til að læra meira er oftar en ekki að taka af skarið.“ …og „Skortur á sjálfstrausti drepur margfalt fleiri drauma en skortur á getu!“ Ómerkilegt stöff á ómerkilegum miðli segja sumir. Fyrir mig, gríðar gagnlegt.

Það er svo mikilvægt að halda unga fólkinu að alvöru námi!

2-Vinskapurinn

Tvær vondar vinkonur held ég sé hollt að losa sig við, öðrum fremur. Það eru þær öfund og gremja. Hreint ekki gefandi félagsskapur, sérstaklega ekki til lengdar. Það er fátt mikilvægara en að vera vandur að vinum!

3-Liðsuppstillingin

Það er þægilegt að vera í einsleitu teymi. Sami bakgrunnur, sömu viðhorf, sama kyn, svipaður aldur. Allir meira og minna sammála. Mjög þægilegt. En líklega eins og svo margt, ósköp gott í augnablikinu, en hreint ekki svo hollt til lengdar!

Þó Kári Kristjáns, ungfrú Snæfells og Hnappadals, sé flinkur línumaður, þá færi liðið ekki langt með sjö slíka inná. Hvernig stillir þú upp þínu liði?