venjur

Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir
Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir 150 150 Freyr

Að velja og hafna

Til að ná stórum sigrum í framtíð getum við vart annað en neitað okkur um ýmislegt, stórt og smátt í núinu.

Kúnstin er að velja og hafna.

Til að ná stórum sigrum í framtíð verðum við að grípa tækifærin í núinu, stór og smá, stökkva af stað, án þess að hika.

Kúnstin er að velja og hafna.

Þjónn og herra

Dreymir þig um að stjórna meiru? Verða jafnvel „eigin herra“? Fer nett í taugarnar á þér þegar stjórinn pikkar í þig og þú getur ekki annað en stokkið til?

En hver er þinn kröfuharðasti „herra“ í dag? Liggur hann stundum í þínum eigin lófa?

Er fyrsta skrefið að því að verða „eigin herra“ mögulega að slökkva á öllum tilkynningum frá símanum? Tryggja þannig að hann kalli þig ekki til annarra „verka“ þegar síst skyldi? Að tryggja að síminn sé sannarlega þinn þjónn sem þú pikkar og potar í þegar þér hentar en ekki öfugt?

Upphaf og endir

Hví bölva svefnleysi að morgni þegar rótin liggur í venjum kvöldsins?

Hví bölva rótleysi dagsins að kvöldi þegar vandinn liggur í venjum morgunsins?

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn
Hundurinn og rófan – Örbylgjuhoppið – Tíminn og textinn 150 150 Freyr

Hundurinn og rófan

Stundum elti ég óróann inni í mér eins og hundur rófuna sína. Finn mig við skjáinn í endaleysu. Álíka kjánalegur og hundurinn, sé horft úr fjarska. Þá þarf ég að minna mig á að ég, rétt eins og hundurinn, á mér þjálfara. Sá er í öðrum hluta heilans, þessum skynsama.

Þessi “innri þjálfari” blæs því miður yfirleitt of seint í flautuna, eða ég hlusta ekki á hann, í öllum hamaganginum við að elta eigin rófu við skjáinn.

Hvað er til ráða?

 • Við getum kennt “hundinum” í okkur að hann leiki ekki frjáls, án þjálfara, hvenær sem honum dettur í hug!
 • Við getum skipulagt og bókað fyrirfram skjátímann, svo endaleysan fái enda!
 • Við verðum að tryggja að “flaut þjálfarans” sé þannig að við tökum eftir því!

Mikilvægt er að við séum umburðarlynd gagnvart “dýrinu” í þjálfuninni, reynum að skilja hvað fær það til að stökkva af stað, fyrirgefum því þegar það fer út af brautinni og reynum að læra inn á það.

Gott er einnig að hafa í huga að allir afþreyingar-hugbúnaðar-framleiðendur heimsins þekkja “hundinn” í okkur út og inn og leika á hann alla daga! Ef við leyfum „hundinum“ að eiga leika sér ólar- og þjálfaralausum alla daga í slíku umhverfi, þá er nú nokkuð fyrirséð hvernig fer!

Örbylgjuhoppið

Hefurðu heyrt sögu Íedu Jónasdóttur Herman? Við Íslendingar kynntumst henni sem óstöðvandi töffara á tíræðisaldri. Mér gaf hún innblástur og ráð sem ég hugsa oft til.

Dæmi: Íedu fannst illa farið með tímann að bíða aðgerðalaus eftir örbylgjuofninum. Íeda bjó til “örbylgjuhoppið”. Hún notaði malið í örbylgjuofninum sem áminningu um hreyfingu. Hún hoppaði og hoppaði, án afláts, þar til ofn-bjallan gall. Lítið trix sem hélt henni á tánum, í orðsins fyllstu, langt fram á tíræðis aldur!

Tækifærin fyrir “örbylgjuhoppin” leynast víða. Okkar er að grípa þau!

Tíminn og textinn

Eftir slíka langloku má hugsa til Woodrow Wilson sem var spurður hvort hann gæti gefið 5 mínútna ræðu sem snöggvast? “Nei, alls ekki! Slíka ræðu tekur mig eina til tvær vikur að undirbúa, en ef ég má tala í klukkutíma eða meira, þá er ég tilbúinn strax!”

Þrenna vikunnar: Upp á æðra stig – Heilinn og vatnið – Einfaldleikinn
Þrenna vikunnar: Upp á æðra stig – Heilinn og vatnið – Einfaldleikinn 150 150 Freyr

Upp á æðra stig

„Já, en hver er þá ákvörðunin?“ Ó, hve þessi saklausa stutta setning getur breytt miklu. Getur lyft sundurlausu samtali upp á æðra stig. Gert fund að stund ákvörðunar. Það auðnast hvorki öllum mönnum né fundum að komast upp á æðra stig. En mikið er nú gaman að verða vitni að því!

Heilinn og vatnið

Fljótandi vatn er ekki flókið. Það finnur sér alltaf léttustu leiðina. Heilinn er flókinn en vill þó eins og vatnið heldur fara sína léttu leið. Heilinn vill spara orku, gerir það með því að endurnýta gamlar venjur, við rennum áfram okkar öruggu leið, höldum í siði, stundum ósiði, af því það er léttara.

Hvort sem þú vilt nýta þér vatn eða heila er hollt að hugsa um eðlið. Vatnið á sér annað eðli, eða ham. Ham sem krefst meiri orku en þarf til að renna áfram léttustu leiðina, gufuna sem svífur um loftin blá. Gufuna sem getur skapað einstakar nýjar myndir sem heimurinn hefur aldrei séð, dáist að.

Heilinn á sér líka annan ham, eðli. Ham sem krefst meiri orku en þarf til að renna áfram léttustu leiðina. Í þessum ham getum við skapað nýjar myndir, nýjar lausnir og leiðir, sem heimurinn hefur aldrei séð, dáist að!

Einfaldleikinn

Geturðu einfaldað? Gert aðgengilegra? Skýrt þannig að ókunnugur skilji strax? Stundum finnst snilldin einmitt falin þar, í einfaldleikanum!

Þrenna vikunnar: Dirfskan, miðjan og átaksleysið
Þrenna vikunnar: Dirfskan, miðjan og átaksleysið 150 150 Freyr

Dirfskan

Einn daginn í vor langaði mig ekki lengur að skrifa. Gat ekki gefið mér tímann. Efaðist um gæði og tilgang, eins og stundum áður. Heyrði spurningu í vikunni sem ýtti við mér. „Varstu djarfur í dag? Valdirðu hugrekki framyfir þægindi?“ Gat ekki svarað af sannfæringu. Tók mér tak. Skrifaði og birti. Engin hetjudáð, en nóg til að svara með jái í kvöld.

Miðjan

…voru þau öll sammála en sögðu líka að stundum væri betra að byrja í miðjunni. Með því að vísu má segja að lesendur missi af pönsinu en hver segir að algildar reglur í lífi og pistlaskrifum séu til annars en að brjóta þær? Ef miðjan kveikir neistann? Eða eins og góð kona sagði, aldrei aldrei gleyma hvernig…

Átaksleysið

Ég hef hóflega trú á því að fara í átak til að bæta sig. Mikla trú á því að finna það minnsta sem við treystum okkur til að gera átakslaust út lífið. Einn dag í einu, til eilífðarnóns. Þannig er létt að bæta við og bæta sig. Tvær mínútur af lestri / jóga / hugleiðslu / hrósi / þakklæti / brosi / ? … sem þú byggir á, bætir við, bætir þig og þinn verður mátturinn og dýrðin, að eilífu!

Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin
Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin 150 150 Freyr

Venja í öðru veldi

Vorið er komið og grundirnar gróa. Um allan bæ heyri ég af löngun til þess að hjóla, ganga eða hlaupa meira. Löngunin er ljómandi byrjun, en venjan er það sem vinnur á endanum. Í þeim anda fylgir ein einföld uppskrift sem vinnur með venju:

Smelltu þér 1 metra í dag, alls ekki meira! Tvo á morgun, fjóra hinn, síðan átta, sextán o.s.frv. Alltaf á sama tíma dags, alltaf sama áminningin eða undanfarinn, þ.e. rútínan við að koma sér af stað. Allt gert til að gera hreyfinguna aðgengilega og áhugaverða, síðast en ekki síst… engar undantekningar!

Ps. það er betra að setja sér efri mörk með þessa aðferð því annars ferðu lengra en hringinn í kringum landið á degi 22 og lengra en til tunglsins á degi 33! 😎

Klikkað

Ef ekkert hefur klikkað hjá þér undanfarna mánuði eru drjúgar líkur á að þú ráðir við meira krefjandi verkefni.

Mörkin

Hvar endar fjárfestirinn sem hafnar engum tækifærum? Hugbúnaðarfyrirtækið sem segir já við öllum beiðnum um nýja fítusa? Trjáræktandinn sem engar greinar klippir? Foreldrið sem segir já við öllum beiðnum barnsins?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá skorum við líklega fleiri mörk með því að setja skýrari mörk.

Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot
Þrenna vikunnar: Gaman saman, breytt hegðun og póst pot 150 150 Freyr

1 – Hugmyndir þroskast best með öðrum

Ertu með hugmynd sem gæti orðið að vöru, bók, fyrirlestri, fyrirtæki? Frábært! Ekki þegja um hana, segðu frá, ræddu við aðra. Líkurnar á að einhver steli hugmyndinni eru hverfandi. En að fá viðbrögð og rýni eykur til muna líkurnar á að hugmyndin verði að einhverju! Gleymum ekki að nýsköpun byggir meira á úthaldi og endalausum betrumbótum, samtali, heldur en stakri hugdettu sem færir okkur Nóbelinn á núll einni.

2 – Breytt hegðun með því að tengja við „trigger“

Kófið hefur kennt okkur margt. T.d. að við getum breytt hvernig við bregðumst við ýmsum hlutum. Hvernig við t.d. opnum hurðir, þvoum hendur eða heilsum fólki. Á þessu má byggja. Við getum tengt kveikju (e. trigger) sem við rekumst á við okkar eigin hegðun. Þrjú uppáhalds dæmi, gömul og ný:

 • Þú lendir á rauðu ljósi og tengir það við nýja hegðun: Andar djúpt, brosir breitt og ferð með einhvern peppandi frasa í hvert sinn.
 • Lok (vinnu)dags: Haft miða tilbúinn og fyllt út áður en þú lýkur deginum með því mikilvægasta sem þú ættir að gera næsta dag. Max þrír punktar!
 • Ertu með morgun rútínu sem er alltaf eins? Prófaðu að bæta einu nýju sem þig hefur lengi langað að byrja að gera aftanvið í eina viku eða tvær. Mátt síðan endilega segja mér hvernig gekk ef þú prófar? (ps. Þessi póstur minn, þ.e. að skrifa, er mitt talandi dæmi um nýja hegðun í enda morgunrútínu 😉 )

3 – Örráð vikunnar: Póst-pot virkar

Oft á vel við hið fornkveðna: Less is more“. Fékkstu ekki svar við langa flotta út pælda póstinum þínum? Hættu að ímynda þér allskonar ástæður fyrir þrúgandi þögninni“, prófaðu frekar örstutt póst-pot sem býður upp á snar-svar: Daginn! Sástu þetta að neðan? Ertu til?“

Vanaliðið
Vanaliðið 150 150 Freyr

Í liðinni viku gaf ég „ríkisráðið”: Hálftíma hreyfing á dag, alla ævi! Stuttur pistill, orðagrín um hálftíma æfingu á dag, heilsunnar vegna. Ég get staðfest að pistillinn naut fádæma óvinsælda. Til þess að bíta höfuðið af skömminni fylgir nú annar pistill um sama efni, þessi meira að segja stuðar. Aðeins allra hörðustu lesendur munu halda út til enda, þar sem rúsínan bíður í pistilsendanum.

Ráðið sem ég þóttist hafa fundið er ekkert nýtt. Embætti landlæknis hefur gefið út bækling um hálftíma daglega hreyfingu, starfsmenn embættisins hafa kallað hreyfinguna lífselexír í pistli. Þó þetta séu ekki ný vísindi þá hefur ýmislegt nýtt komið fram síðustu ár, eins og varðandi áhrif hreyfingar á heilastarfsemi, mikil jákvæð áhrif æfinga á eldra fólk, svo eitthvað sé nefnt. Af hverju hreyfa sig þá ekki allir rösklega hálftíma á dag, frá vöggu til grafar? Hressandi hreyfing er eina geðlyfið án aukaverkana, eina afkastahvetjandi lyfið sem gerir þér bara gott, þyngdarstjórnunartæki sem styrkir andann um leið.

Eins og svo margt annað gott og slæmt snýst hreyfingin, eða skortur á henni, líklega mest um langanir okkar og vana. Margvísleg fíkn og vondar venjur viðhaldast vegna þess að við viljum forðast óþægindi. Af hverju ætti nokkur manneskja sem hefur fyrir augum sér endalausa uppsprettu hamingju á skjá að slökkva og fara út að hreyfa sig? Það er jafnvel óþægilegt, við forðumst óþægindi. Því óþægilegra sem ástandið er verra.

Það er engin skyndilausn. Við þurfum að breyta venjum. Að breyta venjum er erfitt. Að breyta venjum tekur langan tíma og krefst úthalds okkar sjálfra, jafnvel stuðnings, nær og fjær. Að breyta venju skilar ekki árangri fyrr en eftir langa mæðu og það er sérstaklega erfitt í umhverfi og samfélagi sem setur ekki langtíma-hugsun eða árangur á oddinn. Stiklum á stóru…

Íþróttahreyfingin er drifin áfram af fólki, eins og mér, sem þyrstir í árangur, stolt heimilisins, liðsins, sveitarfélagsins, landsins. Fólki með getu og áhuga á afrekum er sannarlega sinnt og það í langtíma uppbyggingu, en beint og óbeint er þeim sem ekki ná árangri vísað frá, að minnsta kosti ekki alltaf sinnt jafn vel og öðrum. 

Stærstur hluti heilbrigðiskerfisins er í viðbragðsham, kerfið er klárt til að greina sjúkdóma, lækna með aðgerðum og lyfjum. Kerfið bíður eftir því að fólk með vanda, m.a. eftir vondar venjur, banki á dyrnar, reiðubúið að selja því lausn við vandanum, skyndilausn. Græða ekki allir á því?

Svo alhæft sé áfram og nú um skólakerfið, þá virðist skipulag hreyfingar í kerfinu ekki snúast um að nýta ábatann af hreyfingunni (bætt námsgeta, einbeiting, líðan o.s.frv.) heldur að uppfylla staðla, námskrá, útfrá misskildum hagsmunum akademíkeranna.

Hverjir eru þá í dag í venjubreytingar-liðinu? Eigum við að nefna það Vanaliðið? Liðið sem hjálpar ungmennum sem gamalmennum upp úr stól og sófa, hreyfir við hreyfingarvenjum í fyrirtækjum og stofnunum? Liðið sem bendir á að fimm mínútur á dag séu góð byrjun, í fimmtíu daga, venjunnar vegna. Liðið sem býður vini út að ganga eða hlaupa, bendir á hvernig bæta má venju við venju og gera að góðum vana.

Við munum byltinguna varðandi lýðheilsu með reykingalöggjöfinni. Ég gæti trúað að við sem þjóð hefðum gagn af slíku átaki varðandi hreyfingu, blöndu af snjallri löggjöf og hvötum, þó eflaust muni einhverjir mótmæla slíku (eins og dæmin sanna). En við þurfum enga löggjöf til að byrja og megum ekki við því, við getum byrjað strax í dag, saman. Stofnum Vanaliðið, grasrótarhreyfing um góðar venjur. Venjur eins og fimm mínútna hreyfingu á dag í fimmtíu daga? Ganga eða hjóla til vinnu, þó ekki væri nema síðasta kílómetra leiðarinnar? Ein lítil venja sem má gera að vana, byggja á. Smám saman getum við bætt við mínútum, öðrum venjum og því mikilvægasta, fengið fleira fólki með í að byggja upp góðar hreyfivenjur, einn dag í einu. Ertu með?

Aftur á bak
Aftur á bak 150 150 Freyr

Síðasta vika var erfið fyrir mig og klárinn Vana. Klárinn er ekki fulltaminn, verður það víst seint og á það til að henda mér af baki. Þannig fór einmitt í liðinni viku. Ég er svo sem ekki alveg saklaus sjálfur. Það þarf að sinna vel hálftömdum hestum, kemba bæði og klappa. Ég sinnti ekki mínum Vana sem skyldi og fékk að finna fyrir því. Ég endaði flatur, hékk í taumnum, en hafði mig samt vart á fætur aftur, hvað þá á bak.

Ég er raunar nokkuð reyndur í því að detta af baki en þetta fall var óvenju sárt. Það getur endað illa að detta af rútínuklárnum. Í pistlunum hef ég predikað ótal dyggðir en eins og dæmin sanna eru stóryrtustu predikararnir ekki endilega presta bestir.

Ég er farinn að þekkja minn Vana. Okkur gengur best saman ef álagið er hæfilegt, hann brúkaður daglega og ég fer eins að honum í hvert sinn. Kröftug hreyfing er það sem við þurfum. Okkar samverustundir eru bestar úti á harðaspretti kófsveittir þannig að faxið flaxast til. Þá hlær við geð, eins og skáldið sagði.

Þó allt hafi gengið aftur á bak hjá okkur Vana í síðustu viku þá er nú ekki annað að gera en að koma sér aftur á bak. Áður en ég legg í að leggja á klárinn treysti ég mín heit, horfi fram og hlakka til en er jafnframt klár ef klárinn skildi nú hrekkja mig einu sinni enn.

Venja mín, þú, sem ert í huga mér.
Hver er þinn hvati?  Hvað þarf til að þú ríkir?
Ég gef mér í dag mína daglegu venju
og fyrirgef mér öll mín misstig.
Ég mun falla oft í freistni,
hrasa títt og vaða í villu.
En ég rís upp,
efli mátt minn, með venju dagsins,
vikunnar og mánaðarins að eilífu. Amen.

Það er ekki víst að þetta klikki
Það er ekki víst að þetta klikki 150 150 Freyr

Ég hef ekki hugmynd um hvaða heit þú hefur strengt nú við upphaf nýs skólaárs. Ein vill út með kjöt, önnur inn með grænmeti, þriðji út með nikótín, fjórði auka hreyfingu? Það sem ég hef góða hugmynd um er að líkurnar á að þú standir við stóru orðin til langs tíma eru ekki miklar. Tölfræðin segir 10-20 prósenta líkur á tveggja ára úthaldi1. Það er sem sagt ekkert víst að þetta klikki hjá þér en líkurnar eru yfirgnæfandi!

Þó það sé klikkun hve oft við klikkum, þá er hitt hálfu verra, að reyna ekki. Þeir sem engu heita eru nefnilega enn ólíklegri til þess að breyta venjum og bæta sig. Rannsakendur segja að þeir sem stíga á stokk séu 10 sinnum líklegri til að bæta sig, en þeir sem geri það ekki2.

Önnur jákvæð tölfræði. Ef þú velur einn og aðeins einn dag, segjum upphaf skólaárs, 1. sept, eða 1. jan og þú klikkar. Ekki láta hug fallast, tölfræðin lýgur ekki, það eru enn 364 góðir dagar eftir til að strengja heit… og einum fleiri á næsta ári! Við erum að tala um að 99,7% daga ársins bíði þín! Þitt er að velja góðan dag, sem þú tengir við.

Segðu sem flestum frá

Það er þá gott eftir allt saman að strengja heit og ótal tækifæri til þess. Hvað fleira þarf til? Að segja frá er líklega eitt það mikilvægasta. Þessi pistill er talandi dæmi. Ef ekki væri fyrir þig væri ég löngu búinn að kasta inn hvíta handklæðinu. Ég væri búinn að taka undir allar heimsins afsakanir og hættur að skrifa. Ég steig á stokk og hét pistli hvern miðvikudag. Þú heldur mér við efnið. Takk! Ég mæli með því sama. Segðu sem flestum frá því hvað nákvæmlega þú ætlar þér að afreka, svo vinirnir geti fylgst með þér og hvatt þig til dáða.

Allt fyrir auknar líkur á árangri

Áður en þú stígur á stokk má gera ýmislegt til að auka líkur á árangri. Ágætt er að spyrja sig: Hvað eru miklar líkur á að ég haldi út? Hvað gæti mögulega orðið til þess að ég klikki? Ef þú getur ekki sagt með vissu að það séu yfir 90% líkur á að þú haldir út árið, þá þarftu að rýna betur í málin! Hvað ef þú tekur helmingi minna skref, fjórðungi? Eru þá meiri líkur á að þú standir við stóru orðin? Hvað þarf í alvöru til? Getur þú hannað umhverfi og áminningar þannig að það séu 100% líkur á að þú haldir út? Af hverju ekki að gera það þannig?

Reglulegt og afmarkað

Ef þú vilt að að heitið endist árið, þá er regla málið. Föst dagleg regla án nokkurra undantekninga er mun líklegri til að halda en óregluleg vænt bæting. Ef þú ert eitthvað í ætt við mig, þá er af nógu af taka til að bæta. Freistandi er að sníða af alla vankanta á einu bretti. Vonlaust dæmi. Dagleg rútína með einn afmarkaðan hlut er öllu líklegri til árangurs. Eitt og aðeins eitt. Seinna, þegar dagurinn er réttur má bæta við öðru atriði í safnið, en þá bara einu. Eitt pínulítið skref, með pínulítið atriði er svo miklu betra en ekki neitt.

Er þá eftir nokkru að bíða? Síðasti miðvikudagur í ágúst, er það ekki bara fínn dagur? Stígðu á stokk og stattu nú við stóru orðin. Það er ekkert víst að þetta klikki!


Neðanmáls

Það er rétt að taka fram að við sköpun þessa pistils sköðuðust hvorki dýr né plöntur og kolefnisspor til fyrirmyndar. Hins vegar urðu til ný máltæki.

 • Regla er algjör negla.
 • Seigla skilar sigri.
 • Litlu trixin lukkast oft best.

Tilvísanir og frekari lestur

 1. Rannsókn Scranton háskóla samantekt hér, fann út að 19% héldu heit sín enn eftir tvö ár.
 2. Ég vísa í aðra samantekt Scranton háskóla hér sem kannaði hvernig gekk með bót og betrun. Af þeim sem strengdu heit voru 46% á beinni braut, en 4% af þeim sem engin heit strengdu.
 3. Daniel H. Pink sagði: ,,Byrjum rétt, byrjum oft og byrjum með öðrum!“ í bókinni When, sem ég hef áður vísað til. samantekt Samuel Davis hér.
Að hrasa er að vera til
Að hrasa er að vera til 150 150 Freyr

Helgin var góð. Gekk í blíðu meðfram Laxárgljúfri í Hreppum. Hrikalegt og fallegt. Af mér hrundu áhyggjur og svitaperlur. Elskaði landið og félagsskapinn. Hrasaði, tognaði og blótaði. Stóð upp, náði takti, hélt áfram.

Liðinn mánuðurinn var góður. Hjólaði fram og aftur um borgina. Vann að verkefnum með snörpu og góðu fólki. Vann með eigin venjur. Gekk vel. Skrapp vestur. Hrasaði, missti taktinn, hikaði, efaðist. Náði takti, hélt áfram.

Árið hefur verið gott. Hef fengið að fara um heiminn. Hef bæði staðið einn á tindum og kafað í mannhafið. Hef glaðst með börnum. Pirrað mig á börnum. Hét því að bæta mig, hrasaði, missti kúlið. Tapaði viku, náði takti, hélt áfram.

Lífið hefur verið gott. Margs er að minnast, margs er að sakna, fyrir ótal margt að þakka. Meira að segja einmitt þetta, að fá að hrasa svo oft og svo víða. Að hrasa er að vera til. Þurfa að haltra og hika, að finna til. Bölva í hljóði en standa upp aftur. Draga andann og draga lærdóm. Ná aftur takti, jafnvel nýjum takti. Halda áfram reynslunni ríkari, sterkari, ákveðnari, jafnvel betri.


Tilvísanir

 • 1
 • 2