Það er ekki víst að þetta klikki

Það er ekki víst að þetta klikki 150 150 Freyr

Ég hef ekki hugmynd um hvaða heit þú hefur strengt nú við upphaf nýs skólaárs. Ein vill út með kjöt, önnur inn með grænmeti, þriðji út með nikótín, fjórði auka hreyfingu? Það sem ég hef góða hugmynd um er að líkurnar á að þú standir við stóru orðin til langs tíma eru ekki miklar. Tölfræðin segir 10-20 prósenta líkur á tveggja ára úthaldi1. Það er sem sagt ekkert víst að þetta klikki hjá þér en líkurnar eru yfirgnæfandi!

Þó það sé klikkun hve oft við klikkum, þá er hitt hálfu verra, að reyna ekki. Þeir sem engu heita eru nefnilega enn ólíklegri til þess að breyta venjum og bæta sig. Rannsakendur segja að þeir sem stíga á stokk séu 10 sinnum líklegri til að bæta sig, en þeir sem geri það ekki2.

Önnur jákvæð tölfræði. Ef þú velur einn og aðeins einn dag, segjum upphaf skólaárs, 1. sept, eða 1. jan og þú klikkar. Ekki láta hug fallast, tölfræðin lýgur ekki, það eru enn 364 góðir dagar eftir til að strengja heit… og einum fleiri á næsta ári! Við erum að tala um að 99,7% daga ársins bíði þín! Þitt er að velja góðan dag, sem þú tengir við.

Segðu sem flestum frá

Það er þá gott eftir allt saman að strengja heit og ótal tækifæri til þess. Hvað fleira þarf til? Að segja frá er líklega eitt það mikilvægasta. Þessi pistill er talandi dæmi. Ef ekki væri fyrir þig væri ég löngu búinn að kasta inn hvíta handklæðinu. Ég væri búinn að taka undir allar heimsins afsakanir og hættur að skrifa. Ég steig á stokk og hét pistli hvern miðvikudag. Þú heldur mér við efnið. Takk! Ég mæli með því sama. Segðu sem flestum frá því hvað nákvæmlega þú ætlar þér að afreka, svo vinirnir geti fylgst með þér og hvatt þig til dáða.

Allt fyrir auknar líkur á árangri

Áður en þú stígur á stokk má gera ýmislegt til að auka líkur á árangri. Ágætt er að spyrja sig: Hvað eru miklar líkur á að ég haldi út? Hvað gæti mögulega orðið til þess að ég klikki? Ef þú getur ekki sagt með vissu að það séu yfir 90% líkur á að þú haldir út árið, þá þarftu að rýna betur í málin! Hvað ef þú tekur helmingi minna skref, fjórðungi? Eru þá meiri líkur á að þú standir við stóru orðin? Hvað þarf í alvöru til? Getur þú hannað umhverfi og áminningar þannig að það séu 100% líkur á að þú haldir út? Af hverju ekki að gera það þannig?

Reglulegt og afmarkað

Ef þú vilt að að heitið endist árið, þá er regla málið. Föst dagleg regla án nokkurra undantekninga er mun líklegri til að halda en óregluleg vænt bæting. Ef þú ert eitthvað í ætt við mig, þá er af nógu af taka til að bæta. Freistandi er að sníða af alla vankanta á einu bretti. Vonlaust dæmi. Dagleg rútína með einn afmarkaðan hlut er öllu líklegri til árangurs. Eitt og aðeins eitt. Seinna, þegar dagurinn er réttur má bæta við öðru atriði í safnið, en þá bara einu. Eitt pínulítið skref, með pínulítið atriði er svo miklu betra en ekki neitt.

Er þá eftir nokkru að bíða? Síðasti miðvikudagur í ágúst, er það ekki bara fínn dagur? Stígðu á stokk og stattu nú við stóru orðin. Það er ekkert víst að þetta klikki!


Neðanmáls

Það er rétt að taka fram að við sköpun þessa pistils sköðuðust hvorki dýr né plöntur og kolefnisspor til fyrirmyndar. Hins vegar urðu til ný máltæki.

  • Regla er algjör negla.
  • Seigla skilar sigri.
  • Litlu trixin lukkast oft best.

Tilvísanir og frekari lestur

  1. Rannsókn Scranton háskóla samantekt hér, fann út að 19% héldu heit sín enn eftir tvö ár.
  2. Ég vísa í aðra samantekt Scranton háskóla hér sem kannaði hvernig gekk með bót og betrun. Af þeim sem strengdu heit voru 46% á beinni braut, en 4% af þeim sem engin heit strengdu.
  3. Daniel H. Pink sagði: ,,Byrjum rétt, byrjum oft og byrjum með öðrum!“ í bókinni When, sem ég hef áður vísað til. samantekt Samuel Davis hér.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.