Þrenna vikunnar: Þegar já þýðir þúsund nei, sekúndur sem skipta sköpum, spilaðu þinn leik!

Þrenna vikunnar: Þegar já þýðir þúsund nei, sekúndur sem skipta sköpum, spilaðu þinn leik! 150 150 Freyr

1-Þegar já þýðir þúsund nei

Stundum tekur hún í þessi takmörkun að geta ekki verið nema á einum stað í einu, ekki veitt athygli af heilum hug nema einu í einu. Þess mikilvægara er að muna hve dýrmætt það er að segja nei… og það sem oftast! Eða svo ég snúi þessu á haus, þá er mikilvægt að muna að eitt já getur þýtt þúsund nei! Með því að segja já við einu, ertu um leið að útiloka alla aðra möguleika heimsins, sem einhverjir eru jafnvel enn betri fyrir þig!

Þessa speki þekkja best þeir sem þróað hafa vörur og þjónustu. Steve Jobs heitinn var víst ansi lunkinn í þessari list og var stoltur af öllum sínum ótal nei-um, þakkaði þeim góðan árangur Apple. Til að halda fókus þá er nei mun oftar rétta svarið! Það hefur nefnilega reynst mörgum þrautin þyngri í gegnum tíðina að eiga bæði kökuna og éta hana! 

2-Sekúndur sem skipta sköpum 

Það kann að hljóma sem mótsögn en þær geta gefið mikið af sér mínúturnar í núinu sem þú setur í að sníða af sekúndur í framtíðinni. Röð og regla, bætt aðgengi, allt þannig að verkið gangi greitt þegar við loks göngum í það?

Sekúndurnar skipta líka máli þegar kemur að því að koma á góðum venjum. Gott er að geyma gulrótina, grófa brauðið, steinseljuna… innan seilingar, sekúndunni nær en fjær! 

Hvað með hina hliðina? Viltu ná að brjóta upp neikvæða venju. Þá geta örfáar auka sekúndur skipt miklu máli. Smáatriðin telja, eins og að koma „nammiskálinni“ fyrir utan seilingar, uppi á hillu, hinum megin við einn talnalás eða tíu armbeygjur! Ef samfélagsmiðlar eru að þvælast fyrir þér prófaðu þá að skrá þig út eftir hverja notkun og bæta þannig við innskráningu fyrir næstu notkun? Þá, eins og svo oft, geta sekúndurnar skipt sköpum. 

3-Spilaðu þinn leik 

Í gær var landsleikur í knattspyrnu. Fyrir slíka leiki leggja þjálfarar upp ákveðið leikskipulag og taktík, „​við ætlum að spila okkar leik“ segja meistararnir í viðtölum. Árangurinn er tryggður með því að halda aga, stjórna hraðanum, halda línunni og tempóinu. En þú? Hvaða „​leik“ ætlar þú að spila í dag? Hvernig ætlar þú að tryggja að þú haldir þínu leikskipulagi? Hvað sem á dynur inni á vellinum? Nú þegar völlurinn er jafnvel gerbreyttur frá því fyrir nokkrum vikum?!

Gangi okkur öllum vel í dag! Höldum haus! Áfram Ísland!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: