Þrenna vikunnar: Öryggisfulltrúinn, örbylgjuhoppið og gamla stýrikerfið

Þrenna vikunnar: Öryggisfulltrúinn, örbylgjuhoppið og gamla stýrikerfið 150 150 Freyr

1-Öryggisfulltrúinn

Tímarnir breytast og hætturnar með. Einu sinni var það hættulegasta á lífsleiðinni að fæðast, nú er öldin önnur og eitt það allra hættulegast er það sem þú ert að gera núna! Jebb, að sitja í einrúmi, kyrr á skjá. Augnablikið sjálft, að lesa þessa setningu er það ekki, en þegar augnablikin verða að dögum, mánuðum og árum þar sem við hreyfum okkur ekki nógu mikið, einangrumst, þá skapast hætta. Lúmsk hætta!

Í „alvöru“ hættulegum störfum er gætt að fallvörnum, brunavörnum, þjálfun og vinnuferlum, öryggisfulltrúar standa vaktina og þökk sé frábæru starfi við forvarnir eru t.d. sjóslys, slys í atvinnuflugi eða álverum sárafá og banaslys fágæt, svo þar, líkt og með fæðingar forðum, er áhættan orðin allt önnur en hún var.

Svo þá er spurning, hver er þinn „öryggisfulltrúi“? Hver gætir að hreyfingunni í þínu fyrirtæki? Ertu að passa upp á þig? Gættu að hættunum!

2-Örbylgjuhoppið

Hreyfingarleysi og einangrun er varasöm, sagði ég að framan. Þá er gott að eiga lítil trix upp í erminni. Af slíku átti Ieda Jónasdóttir Herman heitin nóg. Í hvert sinn sem hún beið eftir örbylgjuofninum tók hún „örbylgjuhoppið“ sitt, hún hoppaði og hoppaði sín litlu hopp í hvert sinn, fram á sína síðustu daga, á tíræðisaldri! Snjallt ekki satt? Viltu reyna? Eða útbúa þitt eigið „örbylgjuhopp“? Hnébeygjur eftir hverja klósettferð? Ganga í kringum húsið fyrir eða eftir hvern matartíma? Eða rösk ganga alltaf fimm mínútur í heila tímann?

3-Gamla stýrikerfið

Manstu eftir Windows 95 stýrikerfinu? Úrelt dæmi!

Talandi um gamalt stýrikerfi. Veistu hvenær fyrstu útgáfur af kjarnanum í „stýrikerfinu“ sem mannskepnan „keyrir á“ kom út? Fyrir 250 milljón árum! Langmest þróun og aðlögun stýrikerfis okkar fór fram hjá manninum og fyrirrennurum meðan þau störfuðu sem veiðimenn og safnarar á tæplega tveggja milljón ára tímabili! Svo ekki vera hissa þó að það taki aðeins á að aðlagast lífi með farsótt, mörg hver einangruð í litlu „boxi“ starandi á tölvuskjá. Það er ekki eins og við séum gerð fyrir þetta!

Á sama tíma er samt óhætt að rifja upp að fyrirrennarar okkar hafa náð að aðlagast ótrúlegustu aðstæðum í gegnum tíðina, svo ekki er nú stýrikerfið ónýtt þó það sé farið að eldast. Við komumst í gegnum þetta á gömlu græjunni rétt eins og fyrri krísur!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.