Þrenna vikunnar: Allt um hvernig þér gæti gengið betur…

Þrenna vikunnar: Allt um hvernig þér gæti gengið betur… 150 150 Freyr

Fyrirsögn vikunnar gæti verið smella-brella, en ekki aldeilis! Hér bíða þín þrír hnitmiðaðir punktar sem allir tengjast orðinu ganga á einn eða annan hátt.

1-Áfram gakk

Skortur á hæfileikum eða getu er sjaldnast okkar mest takmarkandi þáttur. Að láta til skarar skríða er það hins vegar allt of oft! Stundum störum við svo stíft og allt of lengi á hamarinn. Sjáum hann sem stóran og ókleifan, án þess að aðhafast nokkuð. Hversu hrikalegur sem hamarinn er orðinn í huganum, þá er upphafið eins. Við togum upp sokkana, reimum á okkur skóna og röltum af stað. Enginn glans eða glamúr, bara ganga af stað, eitt skynsamlegt skref í einu, stystu leið að fyrstu vörðu. Áfram gakk!

2-Látum orðið ganga

Austur í Landeyjum fórum við krakkarnir stundum í leik sem þú gætir kannast við. Að láta „orðið ganga“. Við laumuðum nokkrum orðum í eyra næsta manns, þannig koll af kolli þar til hringnum var lokað. Í Landeyjum var hringurinn eðli málsins samkvæmt ekkert sérstaklega stór, það breytti því ekki að línan komst sjaldnast ólöskuð allan hringinn.

Ég tel hollt að hafa þennan leik í huga ef þú þarft að kynna þig eða þína snilld. Hvernig getur þú einfaldað og skýrt sem best hvað þú hefur að bjóða? Gert þinn frasa svo góðan að hann nái að ferðast „heilan hring“ án þess að innihaldið tapist? Að línan þín lifi frá fyrstu snertingu við fyrirtækið til forstjórans?

3-Hvernig gengur?

„Jæja, hvernig gengur?“ Fyrir einyrkja, atvinnuleitendur og aðra getur þessi sívinsæla spurning reynt á, sérstaklega þegar lítið er að frétta. En hver vill ráða einhvern sem er með höfuðið ofaní bringu? Þá fyrst verðum við eftirsótt þegar færri fá en vilja. Stattu því klár. Æfðu svarið, þína útgáfu af…

„Það gengur bara frábærlega, veit ekki hvernig gæti gengið betur! En þér?!“

Mannskepnan getur nefnilega verið grimm, ef þú sýnir veikleika, rándýrið sem spurði þig finnur lykt af blóði, þá er voðinn vís. Fyrir utan að allra óhollustu efasemdirnar um þitt ágæti búa líkast til í þínu eigin brjósti. Út með kassann. Stattu klár á svari og færri munu fá en vilja!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.