Þrenna vikunnar: Öfugsnúið, Verkefna-jól alla daga, Röð viðbragða

Þrenna vikunnar: Öfugsnúið, Verkefna-jól alla daga, Röð viðbragða 150 150 Freyr

Öfugsnúið

Oft segjum við meira, með því einu að þegja lengur.

Oft komumst við yfir fleira, með því einu að fækka verkefnunum.

Oft komust við hraðar á leiðarenda, með því einu að staldra oftar við og gá til átta.

Verkefna-jól alla daga

„Já, ég vildi að alla daga væru jól“ söng meistarinn hárprúði, Eiríkur Hauksson. Líklega ekki gott fyrir línurnar, en mögulega bara nokkuð gott fyrir afköst og árangur?

Tímamót, eins og jól, fá okkur til að afgreiða ótrúlegustu hluti á mettíma „fyrir jól“ og meðan við sleppum því sem sleppa má. Mættum við mögulega taka jóla-nálgunina á verkefnin okkar alla daga? Eða ætli það sé eins og með jólin. Best til hátíðarbrigða?

Röð viðbragða

Vinur minn, lögfræðingur, sagði eitt sinn að fyrirtæki væru ekki annað en röð samninga. Við amatörarnir brostum út í annað. Ef sama rörsýn væri notuð á manninn væri hægt að segja að við séum ekki annað en röð skuldbindinga.

Ég er ekki lögfræðingur og trúi því að fleira komi til. Þetta rifjaðist upp við lestur hinnar góðu bókar „Above the line“ eftir Steven og Mara Klemich. Þar benda þau á að við erum einnig röð ákvarðana, og ekki síður röð viðbragða! Viðbragða sem oft byggjast á hræðslu, stolti, eða kappi, sem getur fært okkur af leið, jafnt í leik og starfi. Þau hjónin hvetja okkur til að sækja viðbrögðin í kjarnann, í hjartað, í kærleikann.

Ó, hve ég hlakka til !

Framundan er feikn spennandi endurforritun á sjálfi sveitadrengsins þar sem svínandi bílstjórar, sígarettustubbakastarar og húðlatir unglingar eiga von á nýrri nálgun. Kærleiks- og ástríkri uppbyggjandi hvatningu í anda annarra viðbragða hins fullkomna Freys!

ps. get samt því miður ekki lofað fullkomnun fyrir jól! 🙂

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: