Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur

Þrenna vikunnar: Rétta glerið í kófinu, sjálfræði og afskiptaleysi, um annir og árangur 150 150 Freyr

Rétta glerið í kófinu

Í „kófinu“ reynir á stjórnendur sem aldrei fyrr. Fæstir hafa stýrt sínu liði í fjarvinnu. Hér kemur fram það sem allflestum stjórnendum er ljóst en öðrum ekki, að starfsmenn vilja yfirhöfuð allir skila góðu starfi og ná árangri í sínu. Þeir þurfa ekkert smásjáreftirlit, eða handstýringu í gegnum daginn. En… það breytir því ekki að stjórnandinn verður áfram að hafa yfirsýn, hún verður að sjá stóru myndina, hafa á hreinu mælikvarðana sem segja henni hvort teymið er á réttri leið. Þá er nú gleiðlinsan betri, en smásjáin!

Þunna línan milli hvetjandi sjálfræðis og afskiptaleysis

Í ræðu og riti hef ég talað fyrir sjálfræði starfsmanna sem lykli að ánægju og afköstum í hugrænni vinnu. Hef ég í þessu samhengi bent á pælingar Daniel H. Pink um þrennuna mikilvægu, sjálfræði, fagþekkingu og tilgang (e. autonomy, mastery and purpose). Þessa þrennu hafa margir stjórnendur í huga og nýta með góðum árangri í sinni stjórnun. Í sjálfræðinu er samt falinn varasamur pyttur. Línan frá hvetjandi sjálfræði yfir í afskiptaleysi er þunn.

Það kemur fyrir að þrátt fyrir sjálfræði, gríðar spennandi og tilgangsrík verkefni á fagsviði starfsmanns, þá kviknar enginn eldmóður. Hitt er jafnvel algengara, „stjörnuleikmaðurinn“ byrjar vel, en síðan dofnar yfir honum. Hver sem ástæðan er fyrir því að starfsmaður „spilar undir getu“, þá verður stjórnandinn að stíga inn. Þjálfari horfir ekki upp á leikmann eiga sinn versta dag á vellinum lengi áður en hann skiptir honum útaf. Með því að horfa aðgerðalaus á starfsmann missa flugið er stjórnandinn að gera bæði sjálfum sér og starfsmanninum ógagn. Uppbyggileg, krefjandi gagnrýni og leiðbeining er nefnilega enn lykilþáttur í góðri stjórnun, hvað sem sjálfræðinu líður!

ps. fyrir áhugasama um málefnið mæli ég með bókinni Radical Candor eftir Kim Scott.

Annir og árangur

Það er fátt auðveldara í henni veröld en að vera upptekinn. Verkefnalistar og tölvupóstar geta t.d. verið „góð“ uppspretta endalausra anna og þannig fest okkur á okkar eigin heimatilbúna hamstrahjóli. Við gleðjumst yfir afgreiddu verki eða pósti til þess eins að sjá listann lengjast á ný, án þess að við komumst í stóru málin. Þá er nú betra að brúka dagatalið með. Að ramma inn fyrirfram hve miklum tíma við verjum „á hamstrahjólinu“ á móti tíma í stefnumótun, fólk og ferla eða hvað það er sem eru mikilvægu stóru málin sem hrópa ekki svo hátt á okkur í núinu en öllu skipta fyrir framtíðina.

Gætum okkar, það er nefnilega svo ósköp auðvelt að rugla saman önnum og árangri!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.