Stressið, næðið og kostnaðurinn

Stressið, næðið og kostnaðurinn 150 150 Freyr

1-Stressið

Stress er hluti af því að vera til. Stress sem við gerum okkur grein fyrir, sem kemur og fer, stress sem við nýtum okkur til að afkasta meira í stutta stund, er ekkert eitur, mætti jafnvel líta á sem orkugjafa. Að festast í vítahring stress, þannig að okkur finnst við ekki komast út úr því, ekki ráða við það, er stórvarasamt. Það allra hættulegast virðist þó vera að vera hræddur við stressið! Já, þú last rétt. Rannsakendur hafa sýnt fram á að viðhorf okkar til stressins hefur jafnvel meiri áhrif á heilsu okkar en stressið sjálft! Magnað?!

Svo nú er tíminn til að njóta, ekki bara aðventunnar, heldur líka stressins sem fylgir. Elskum stressið og lífið leikur við okkur!

Innblástur: TED fyrirlestur Kelly McGonigal, sjá hér.

2-Næðið

Fátt er mikilvægara leiðtogum, hvort heldur það er í stórfyrirtæki eða eigin lífi, en einvera og næði. Einn með sjálfum sér skapast tækifæri til að velta fyrir sér stóru spurningunum. Í þögn og næði, jafnvel með smá bóklestri, gefast tækifæri til að endurmeta, velta vöngum yfir því sem við höfum tekið inn í annríkinu. Tækifæri til að búa okkur undir að svara lífsins spurningum. Þegar á hólminn er komið erum það við og við ein sem þurfum að taka okkar eigin stóru ákvarðanir. Njóttum næðisins, þegar það gefst.

Innblástur: Solitude and Leadership.

3-Kostnaðurinn

Ég er með díl handa þér, nýtt app. Mjög sniðugt. Ég þarf að fá þig til að skrá þig inn í appið og setja inn sem mest af sniðugum texta og myndum fyrir mig, nokkur vídeó væri snilld! Flott ef þú gætir eytt í það nokkrum klukkutímum í mánuði, nokkrir tímar í viku væri enn betra. Er það ekki í lagi? Þú kostar ekkert, er það?

Appið mun safna um þig upplýsingum um allt sem þú gerir og þekkja þig út og inn. Það er rosa gott af því þannig get ég selt réttu auglýsendunum aðgang að þínum tíma og grætt böns of monný. Er það ekki í lagi? Þú kostar ekkert, er það?

Appið er hannað til að vera ávanabindandi og er stillt þannig að þú færð tilkynningar í símann ef eitthvað gerist, skilaboð eða eitthvað sniðugt, svo það geti náð athygli þinni sem best, hvenær sem er. Er það ekki í lagi? Þú kostar ekkert, er það?

Innblástur: Ólafur Jóhann Ólafsson lét vaða á súðum í viðtali og minnti á að við neytendur erum stundum varan hjá arðbærum stórfyrirtækjum.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: