Þrenna vikunnar: Þinn suðupottur, batterí og róður án byrs og ára!

Þrenna vikunnar: Þinn suðupottur, batterí og róður án byrs og ára! 150 150 Freyr

1-Þinn suðupottur

Við hvernig aðstæður varð lífið til? Það er ein af stóru spurningum vísindanna. Fyrst þurftu allar aðstæður að vera réttar, öll réttu efnin að vera til staðar. Ólgandi suðupottur sem mallaði og mallaði endalaust. Þangað til… bæng! Rétt eins og í heitupottaauglýsingu… einn neisti, eitt ótrúlegt augnablik, kveikjan að öllu því sem á eftir hefur komið.

En þú? Hvernig er þinn ólgandi suðupottur? Hver eru réttu innihaldsefnin þín? Hverjar eru þínar allra bestu aðstæður þar sem mallar og mallar í þínum potti endalaust?

Haltu út! Bestaðu blönduna, endurbættu aðstæðurnar og einn daginn… bæng!

2-Hvíldin

Ákvarðana- og einbeitingar batteríið okkar er ansi magnað fyrirbæri. Af því eyðist, líkt og öðrum batteríum við notkun, oft án þess að við tökum eftir því. Við höldum jafnvel að hleðslan sé næg, en ekkert gerist!

Ég er jafnvel hræddur um að einhverjir séu haldnir Ni-Cd battería blindu, telji að betra sé að tæma algjörlega af batteríinu og alls ekki megi hlaða það í minni skömmtum. Ó nei! Nú er nefnilega öldin önnur, Li-Ion öldin. Það gildir það sama um Li-Ion rafhlöður og mannfólk, það ætti að hlaða reglulega, í litlum skömmtum, tæma aldrei alveg og alls ekki láta standa tómt!

Svo endilega smelltu þér reglulega í hrað-hleðslu, á hverjum klukkutíma! Stattu upp, hreyfðu þig, helst af öllu úti í fersku lofti, áður en búið er af batteríinu! Vittu til, þú endist miklu betur og afkastar meiru!

3-Hver fær róið

Skáldið Friðrik Guðni Þórleifsson spurði: „Hver fær róið þá blæs ei byr? Búist í róður án ára?“.

Það getur verið svo freistandi að bíða, benda á vindinn, himintunglin eða árarnar, eins og illir ræðarar hafa gert í gegnum aldirnar. En svona er bara lífið, ófullkomið og blæs ekki alltaf byrlega. Okkar er að ýta samt úr vör, finna okkar leið til að komast á miðin. Því engu meira fiskum við kúrandi heima í höfn þó við blótum skorti á byr eða árum!

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: