Þrenna vikunnar: Venju tékk hjá tannlækni, Ég er…, Stundum, stundum ekki
Þrenna vikunnar: Venju tékk hjá tannlækni, Ég er…, Stundum, stundum ekki http://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr Freyr http://0.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=g- Freyr
- no comments
1-Venju tékk hjá tannlækni
Í vikunni fór ég til tannlæknis. Hugsaði mitt. Hvað er þessi stund í raun? Hvað er tannlæknatíminn, annað en mæling á því hve vel við höfum haldið út með litlar en mikilvægar venjur, yfir lengri tíma?
Hvað með annað? Hvaða reglulegu „tékk“ erum við með til að taka stöðuna á því sem skiptir okkur mestu máli og byggir á því sama? Venjunum, úthaldinu? Bíllinn fer í skoðun árlega. Hvað með skrokkinn? Þolið? Minnið? Blóðfituna? Jafnvel fjöldi fræðandi bóka sem við höfum lesið á tímabilinu? Spurning um að taka „tékk“ beint eftir næsta tannlæknatíma?
2 – Ég er…
Hver er ég? Hver vil ég verða? Hvað segi ég við sjálfan mig? Ein öflug aðferð sem ég hef kynnst er að segja, „Ég er…“ jafnvel löngu áður en nokkur innistæða er fyrir fullyrðingunni. Ég vil taka (óþægilega) persónulegt dæmi. Ég hef verið kallaður jarðvöðull af stöku samstarfsfólki. Áhersla mín í ýmsum verkum hefur sem sagt á stundum verið meiri á afköst en frágang. Nú vinn ég að betrun. Mín mantra nú, alla daga, er: „Ég er einstakt snyrtimenni. Ég geng frá hlutum!.“ Sönglandi þetta reglulega á ég nú erfiðara með að henda frá mér hlutum þar sem ég stend, þó ég eigi langt í land með það fyrrnefnda!
Viltu prófa? Hvað heldurðu að gerist ef þú segir við þig nokkrum sinnum á dag: „Ég er brosmildur gleðigjafi!“, „Ég er hamingjusöm manneskja!“, „Ég er einstök …!“, …eða annað vel valið?!
3-Stundum, stundum ekki
Ég settist niður, ákveðinn að taka 40 mínútna skriflotu. Fann strax fyrir óþægindum, óeirð í maga. Vildi hætta. Skoðaði lista minn með hugmyndum að pistlum og punktum. Sá enga góða. Hugsaði: „…hmmm er ég kannski búinn með allar góðu hugmyndirnar? Koma þá aldrei fleiri? Best að fara að vinna í alvöru verkefnum, svara tölvupóstum, afgreiða mál!“ Sat áfram. Þagði með sjálfum mér. Ákvað að standa við loforðið, halda út mínúturnar 40 í skapandi skrif! Lagði hendurnar á lyklaborðið. Skrifaði eitt orð, síðan annað, þriðja. Byrjaði að skrifa punkta. Þegar bjallan gall var ég kominn með 10 góða punkta og þennan pistil. Stundum er leiðin fram á við ekki flókin. Bara að halda áfram, eitt skref í einu, eitt orð í einu. Stundum er auðvelt að einbeita sér. Stundum ekki. Stundum kemur einhver ódauðleg snilld. Stundum ekki.
Related
- Posted In:
- Þrenna vikunnar
This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.
Leave a Reply