Þrenna vikunnar: Vika tvö, skipulögð hvíld, með vitund

Þrenna vikunnar: Vika tvö, skipulögð hvíld, með vitund 150 150 Freyr

Vika tvö

Seinni hluti viku tvö. Liðin vika fór í að rétta sig af. Við lifðum enn á sælu hátíðanna. Lifðum enn í loftkastalanum. Takmarkalausri trú á tuttugu og eitt. Síðan kom vika tvö. Mánudagur. Raun. Raun hjá sumum í tvennum skilningi.

Hmmm hvað gerðist? Ætlaði ég að breyta einhverju, sigra heiminn? Eða láta bara hverjum degi nægja sína þjáningu. Fagna því að komast þó framúr, klára daginn sómasamlega.

Flestir dagar eru víst einmitt eins og dagurinn í dag „hversdagar“ þar sem hvorki kartaflan né dagurinn eru sykurhúðuð. En er líður á viku tvö er líka ágætt að minna sig á að einmitt á ósykruðum dögum vinnum við flesta okkar sigra, þrátt fyrir allt.

Skipulögð hvíld

Ég hef unnið með afreksfólki á ótal sviðum. Oftar en ekki má sjá hver eru „afreks“ og hver ekki af skipulagi hvíldarinnar. Þau sem rótast endalaust áfram, án lotubindingar, ná sjaldnast sömu hæðum og þau sem skipuleggja daga, vikur og mánuði í kringum mikla ákefð í lotum og skynsama hvíld, endurmat og endurheimt.

Hvernig er þitt hvíldar skipulag? Afreks?

Með vitund

Eitt er að vera með meðvitund, annað er að fara í gegnum hverja stund dagsins með vitund! Ég er að æfa mig. Gengur mis vel. Að taka á móti öllum tilfinningum af áhuga, opinmynntur eins og ungabarn sem er að læra á lífið. Taka brosandi á móti þreytu, fókusleysi, fréttafíkn (eða annarri fíkn) með vitund. Enn frekar að taka eftir viðbragðinu. Elti ég ólguna í kviðnum, eða ekki? Oftar en ekki eru nefnilega gjörðirnar ósjálfrátt svar við „ólgunni áðan“. Getum við kannski breytt þeim?

Mig dreymir um daga þar sem hvert skjáfylli sem ég skoða, skoða ég með vitund.

Mig dreymir um daga þar sem ég get tekið á móti reiði og pirringi, með vitund, svarað af yfirvegun og skynsemi. Get valið viðbragðið.

Það má láta sig dreyma, ekki satt?

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: