Valið virkar og virkjar

Valið virkar og virkjar 150 150 Freyr

Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil. Sit einn í stól fyrir framan skjáinn, klukkan rétt rúmlega sex á miðvikudagsmorgni. Enginn bað mig að skrifa, enginn rak mig á fætur en hér sit ég samt, einn morguninn enn. Með vilja og þokkalegri vitund. Valið er mitt, venjan er mín.

Væri ég jafn viljugur ef ég hefði fengið verkefninu úthlutað frá yfirmanni? „Freyr, nú er komið að þér að skrifa pistla. Skrifaðu nú eitthvað skemmtilegt strákur! Ég held þú eigir lausa stund milli 6 og 9 á miðvikudagsmorgnum. Settu þetta síðan bara í loftið um leið og þú ert búinn að skrifa, þú þarft engan yfirlestur er það? Ekki klikka strákur, alls ekki klikka! Já og launin, ekki hafa áhyggjur af þeim. Þú hefur nú bara gaman að þessu, er það ekki? Góð kynning og svona… þú gerir þetta bara fyrir okkur, yfirmennina á fimmtu hæðinni, ekki satt?“ Hvað heldur þú?

Þetta er ein af áskorunum nútímans í stjórnun, uppeldi og öðrum samskiptum. Hvernig virkjum við fólk með vali? Valið virkar og virkjar, hvort sem við erum börn eða fullorðinn. Eða hefur þú upplifað muninn á því að leyfa ákveðna barninu þínu að velja sér vettlinga eða húfu, eða ákveða fyrir það og skipa. Það hefur a.m.k. ekki alltaf endað vel á þessu heimili.

Húsið er á hvolfi og komið að unglingunum að þrífa. Þá er ekki til öflugra verkfæri en valið. „Hvort ykkar ætlar að skipta niður verkefnalistanum? Óli? Jæja gott, Bergey þú færð þá að velja hvorn hlutann þú tekur“. Ég játa að það fylgja kannski ekki nein húrrahróp, en vittu til viljinn er margfaldur á við að ná því sama fram með fortölum, skipunum, blóti og ragni, já við höfum samanburðinn. :)

Þetta eru ofurlítil einföld dæmi um einfalt fyrirbæri, sem þó er svo öflugt. Stundum leynist lausnin í stjórnun (og uppeldi) í frelsinu, valinu. Skipaðu mér fyrir og ég streitist á móti. Gefðu mér val og þinn vilji verður minn vilji!


Tilvísanir:

Frelsið – Ný dönsk

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.