Vélað valmenni
Vélað valmenni http://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr Freyr http://0.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=gÍ morgun valdi ég að fara snemma út að hlaupa. Það var mitt fyrsta verk eftir að hafa klætt mig í fötin. Ég er maður munaðar og læt því stundir sem þessar eftir mér að morgni. Hugur er hreinn, áreitið ekkert. Hlaupin færa hjarta og heila súrefni sem verður þannig andans eldsneyti yfir daginn. Endurnærður sest ég við skriftir áður en nokkuð annað truflar mig. Ég vil vera valmenni sem hjálpar þér að ná árangri. Ráðgjafinn sem hjálpar þér með þínar stóru áskoranir. Með það í huga sit ég við skriftir þennan morguninn.
Hnuss og fuss! Trúðirðu þessum fagurgala og uppskrúfuðu glansmynd! Hér fylgir raunsannari mynd.
Í morgun tókst mér með herkjum að véla sjálfan mig á fætur. Reynslan hefur kennt mér að ég er ófær um að vakna með vekjaraklukku mér við hlið. Mín leið er að stilla klukku í tveggja herbergja fjarlægð. Þangað staulaðist ég í morgun. Á leiðinni til baka, sannfærður um að ég ætti skilið að skríða aftur undir sæng, rak ég tærnar í fatahrúgu á gólfinu. Að betur athuguðu máli voru þetta hlaupafötin mín. Ég tók „hintinu“ frá þessum skynsama fortíðar Frey, klæddi mig og fór út. Rifjaðist þá upp fyrir mér heitstrenging gærkvöldsins um að skrifa pistil á vef.
Á hlaupunum byrjuðu orð að koma upp í hugann. Valmenni, vélmenni, véluð-menni, val manna. Engin setning, bara orð á stangli. Púkinn á öxlinni reyndi að sannfæra mig um pistlar séu ekki skrifaðir á hlaupum, heldur fyrir framan tölvuskjá. Púkinn hafði betur. Úr varð ein mín aumasta æfing, 9 mínútur og 40 sekúndur af lulli um hverfið.
Líklegast vegna slapprar æfingar er hugurinn eins og ótemja. Tilbúinn á hverri stundu að hoppa á fréttavagninn, fésbók og allt hitt girnilega gotteríið sem glepur. Lán í óláni er að þessi fyrrnefndi fortíðar Freyr hafði vit fyrir fóli morgunsins og skrifaði stórum stöfum efst á verkefnalista dagsins: „Bloggað!“.
Staðráðinn í að koma frá mér pistli, fyrir fyrsta fund dagsins, harka ég af mér og lem áfram lyklaborðið. Skrifa, eyði, skrifa aftur. Næ ekki neinu af viti út úr þesum orðum sem upp komu á hlaupunum og finn því miður alls ekkert sem gæti hjálpað öðrum. Ojæja, það kemur dagur eftir þennan dag og pistill eftir þennan pistil. Með það í huga sit ég við skriftir þennan morguninn.
Related
1 comment
Leave a Reply Cancel Reply
This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.
Ester Sturlu
Mig langaði allaveganna út að hlaupa eftir lesturinn 🙂