Venjulegur maður bætir sig

Venjulegur maður bætir sig 150 150 Freyr

Ég er ósköp venjulegur maður. Einn af sjö komma sjö milljörðum homo sapiens. Venjur mínar eru líkt og hjá öðru venjulegu fólki fjölmargar, flestar ósjálfráðar. Ég sjálfur hef líklega óvanalega mikinn áhuga á venjum. Þessi pistill er afrakstur af einni. Ég hef nú vanið mig á að hefja hvern miðvikudag á því að setjast niður og skrifa pistla. Þessi er sá fimmti í beinni röð. Ósköp venjulegur pistill.

Vikuleg venja

Skrifvenjan byggir á einföldu viðbragði. Dagatalið sýnir miðvikudag. Ég sest niður. Ég skrifa. Ég birti. Eftir því sem pistlunum fjölgar eyk ég eigin hvata til þess að bæta einum við. Ég vil ekki slíta keðjuna sem ég er byrjaður að mynda.

Dagleg venja

Pistlaskrifin voru ekki það fyrsta sem ég gerði í morgun. Ég hóf daginn nefnilega á minni daglegu morgun-rútínu, þeirri sem ég hef fylgt, án undantekninga, undanfarna 210 daga.

  1. Ég vaknaði við hringingu síma inni í eldhúsi, í nógu margra skrefa fjarlægð til þess að ég var með meðvitund þegar ég slökkti á símanum.
  2. Tæmdi blöðruna.
  3. Tannburstinn blasti við, burstaði tennur.
  4. Hreinar tennur minntu mig á hreint vatn. Drakk minn skammt.
  5. Við hliðina á glasinu biðu mín íþróttafötin sem ég fann til í gærkvöldi, klæddi mig.
  6. Ég setti skeiðklukkuna í gang. Ég vil uppfylla mitt lágmark, 5 mínútna æfingu. Framkvæmdi mínar æfingar sem uppáhalds sjúkraþjálfarinn minn mælir með og nokkrar vel valdar að auki.
  7. Settist niður fyrir framan tölvuna. Keðjan einum hlekk lengri, enn minni líkur á að ég slíti hana.

Venjulegar aðstæður virkjaðar

Tækifærin til að temja sig leynast víða og þurfa ekki að vera tengd dagatali eða klukku. Umferðarljós geta verið góður hvati… ,,nei þar var ég heppinn, rautt ljós, þvílíkt tækifæri til að anda djúpt og brosa, yndislegt“! Annar góður benti mér á að nota dyr eða hurðarhúna sem áminningu… ,,fyrir innan þessar dyr mun ég finna gleðina“… ,,inni í þessu rými mun ég brillera“.

Tilfinning verður að venju

Tilfinningavenjur eru vel þekktar og við eigum við þær á hverjum degi. Þeim má breyta eins og öðrum. Svengd má seðja tímabundið með æfingum eða vatni. Langar þig að líta á símann? Frábært, prófaðu að bæta einhverju smáatriði við áður en þú lætur það eftir þér. Hvað langar þig að bæta? 5 axlaæfingar / 2 teygjuæfingar / 1 hrós og síðan sími? Nú eða þú finnur stress byggjast upp í herðum eða kvið og það minnir þig á venjuna… ,,ahh, stress, þá anda ég djúpt 5 sinnum“.

Bættu venju við venju

Tækifærin til að temja sér nýja eða breytta venju eru augljóslega óþrjótandi. Best er ef nýju venjuna er hægt að framkvæma í beinu framhaldi af einhverri kveikju eða áminningu. Við eina venju má síðan bæta annarri þannig að úr verður rútína. Þetta getur verið ánægjulega létt leið til að bæta sig lítillega. Það veit ég, þessi ósköp venjulegi maður.


Frekari fróðleikur

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: