Við efumst
Við efumst http://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr Freyr http://0.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=g- Freyr
- no comments
Ég skrifa pistlana mína einn að morgni. Skrifa einn. Birti einn. Birti og fæ viðbrögð um leið. Oftast jákvæð, jafnvel hjartnæm, hvetjandi. Þumall upp, hjarta eða bros. Jákvæð samskipti og samfélag. Teljarinn tikkar. Einn lestur enn. Nútíminn er nærandi. Endurgjöf á augnabliki. Ég er þakklátur.
En efinn er alltaf nálægur. Það er víða spegill. Nútíminn getur líka verið nagandi. Teljarar hinna sýna hærri tölur. Aðrir skrifa í öflugri miðla. Hjálpa fleirum, hvetja fleiri til dáða. Tungumálið takmarkar. Ég efast um eigin ágæti og ágæti pistlanna. Ég efast um tilganginn. Ég efast áður, á meðan og á eftir. Það er enginn skortur á pistlum. Í heiminum er offramboð orða.
Oft er ég bara lítill kall úr Landeyjum sem veit að aðrir eru færari, flottari og betri. En lítill kall úr Landeyjum veit líka að bæði betri bændur og verri þurfa að fara í fjósið, bæði kvölds og morgna. Hvernig sem viðrar, hvað sem á dynur, hver sem löngunin er. Oft þarf að taka sig taki.
Mér er að lærast að efinn er eðlilegur. Að efast er að vera til. Efinn hamast í okkur að liggja lengur og sitja hjá. Hann vill að við sleppum því að taka áskoruninni, stíga á stokk. Það er léttara að leyfa öðrum að taka ábyrgð, taka af skarið, að bíða betra veðurs.
Mig langar að geta tekið kitli efans sem hvatningu. Er efinn kannski að hvetja mig og þig til að hrópa hátt framan í heiminn? Láta vaða? Hætta að horfa til baka en horfa heldur fram? Hætta að lepja upp læk en gera erfiða áskorun að vana eða kæk?
Norpandi á náttbuxum nudda ég saman þessum pistli. Efast án afláts. Leyfi efanum að kitla mig og hvetja. Birti brátt. Ég veit að aðrir skrifa betri pistla, tilgangsmeiri, gagnlegri. Teljari hinna snýst hraðar. Það gerir ekkert til. Ég er bara ég. Þú ert bara þú. Við efumst.
Tilvísun
Orginal – Guðmundur Jónsson og Friðrik G Sturluson
Related
You might also like
This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.
Leave a Reply