Vorverkir hugverkamanns í sýndarheimi

Vorverkir hugverkamanns í sýndarheimi 150 150 Freyr
Ég lifi í sýndarheimi, minn Glámur sem ég glími helst við er eigin metnaður, áhugi og einbeiting.

Hvernig fjölskyldan kemst af er ekki lengur spurning um að yrkja jörðina eða veiða sér til matar. Nú byggir farsældin og framfærslan á því hvernig við náum að beisla hugann. Hvernig við náum að halda aga á okkur sjálfum, vinna með öðrum, vinna með hugmyndir í þessum sýndarheimi.

Okkar átök snúast um að halda aftur af okkur í mat en ekki að berjast við hungur og það í hálf óbyggilegu landi. Í landi þar sem mestöll okkar fæða er unnin og flutt til okkar með krafti olíu frá austurlöndum. Það er auðvelt að efast um tilgang í þessum tilraunaheimi.

Leið mín til að halda mér á beinu brautinni er með hreyfingu, hlaupum og hjólreiðum, líkams og lóðalyftum sem er þó litlu nær frummanninum. Í samhengi aldanna væri þetta séð sem tilgangslaus orkueyðsla en er nú orðin okkar leið til að halda líkama sem er hannaður fyrir líkamleg átök, starfhæfum.

Þó ég hafi allt til alls og skorti ekkert læðist efinn reglulega að mér. Ég finn mest fyrir honum ef ég gleymi mér í hreyfingarleysi.

Í ljósi þróunarsögunnar er frátenging nútímamannsins frá moldinni eins og andartak í ævi manns. Úr því að yrkja jörð í að yrkja huga. Starf margra snýst nú mest um að ýta til rafeindum. Mikið er á sig lagt til að ýta rafeindunum til á algerlega nýjan máta. Við reynum að koma þessum rafeindavöndli í pakka sem er svo heillandi að einhver er tilbúinn að borga fyrir hann. Fyrir vöndulinn fáum við greitt fyrir með rafrænum sýndarpeningum sem kaupandinn hefur unnið sér inn með sinni sýndarvinnu.

Mögulega er ég einn um að efast. Líkast til eru þetta bara vorverkir sveitamannsins sem saknar vorverkanna nú þegar grasið grænkar. Saknar þess að sofna þreyttur með sigg í lófum.

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggers like this: