Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig?
Af hverju ætti einhver að vilja vinna fyrir þig? https://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr Freyr https://secure.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=g- Freyr
- no comments
Þú ert vel lesinn stjórnandi. Með fimm háskólapróf! Fyrsta einkunn lágmark. Hakað í öll boxin hjá þér. Mesti sérfræðingur landsins á þínu sviði. Ég trúi ekki öðru en allar hæfisnefndir heimsins elski þig! En vill einhver í raun vinna fyrir þig? Vinna með þér? Nær þitt fólk góðum afköstum og árangri og vex í starfi?
Þú ert ekki eini stjórnandinn sem keppir um hylli góðra starfsmanna. Atvinnuleysi á Íslandi er sáralítið. Laun hafa hækkað og kaupmáttur þeirra hefur vaxið. Starfsmenn njóta ágætra réttinda og góðs aðbúnaðar, ekki bara hjá þér heldur víðast hvar. Þá má ekki gleyma að þó Ísland sé eyja, þá er hún hluti af heiminum öllum sem er leiksvið unga fólksins í dag. Það hefur val hvar það vinnur. Dalvík eða Drammen, Reykjavík eða Rotterdam.
Mín sýn er sú að lykilinn að því að einhver vilji vinna fyrir þig, að minnsta kosti til lengri tíma, sé ekki endilega að finna í háskólagráðunum. Nær væri að leita í viskubrunn ömmu þinnar. Nokkur lykilorð sem ég tengi meira við ömmur mínar en háskólamenntun eru: Væntumþykja og skilningur, einlægur áhugi og notaleg fjarlægð og frelsi.
1. Væntumþykja og skilningur
Grunnur að því að leiða aðra er að líða vel í eigin skinni. Að þykja vænt um sjálfan sig og þekkja sjálfan sig. Á þeim grunni þarf að byggja til að geta sýnt væntumþykju og skilning á aðstæðum og áhugahvötum annarra.
Manneskjan er í eðli sínu sjálfhverf. Hörðustu naglar vilja ekki viðurkenna það en samt líður mönnum betur þar sem yfirmaðurinn skilur þá og þeir finna fyrir stuðningi og væntumþykju, eins og hjá ömmu. Það er lykilatriði að yfirmaðurinn skilji hvað drífur starfsmanninn helst áfram.
2. Einlægur áhugi
Ef fyrsta þrep er væntumþykja og skilningur, þá er annað þrep einlægur og sannur áhugi. Eins og þeir muna sem hafa lesið um Hawthorne rannsóknirnar þá er löngu vitað að raunverulegur áhugi og athygli stjórnenda er ekki bara lykilatriði í vellíðan starfsmanna heldur einnig framleiðni þeirra. Þetta er enn mikilvægara núna þegar líður að 100 ára afmæli upphafs rannsóknanna og hlutfall þekkingarstarfsmanna hefur margfaldast.
Hver er ástæðan fyrir því að starfsmaðurinn valdi að vinna með þér? Hverjar eru hans aðstæður í dag? Hvert stefnir hann næst? Styrkir það mögulega samband ykkar að ræða opinskátt hvert starfsmaðurinn stefnir? Eins og segir hér á nokkrum glærum. Ef starfsmanninum og hans vegferð til þroska og eflingar er sýndur einlægur áhugi, þá aukast líkur á því að hann eflist og enn fremur að ykkar samband styrkist, öllum til hagsbóta.
3. Notaleg fjarlægð og frelsi
Ég vona að þú hafir eins og ég upplifað bros og bjarma frá ömmum þínum, jákvæðni gagnvart þinni framtíð en um leið þessa hæfilegu fjarlægð ömmunnar sem leyfði þér, innan eðlilegra marka, að njóta þín frjáls í því sem þú hafðir mestan áhuga á. Ömmur vita sínu viti því rannsóknir sýna að sjálfræði í starfi hefur meiri að segja en margt annað um ánægju og framleiðni þekkingarstarfsmanna. Sjálfræðið gefur ágætlega launuðum og skapandi þekkingarstarfsmönnum meira en t.d. fjárhagsleg umbun eða bónusar við störf og verkefni. Ekki veit ég hvort Daniel H. Pink lærði meira um mikilvægi sjálfræðis í starfi af ömmu sinni eða í háskóla en ég verð að mæla með því hvernig hann nálgast sjálfræði og fleiri drifkrafta starfsmanna í þessu 10 mínútna myndbandi.
Kæri núverandi og/eða verðandi leiðtogi. Það er frábært að mennta sig og sérhæfa, háskólanám er góður grunnur og vonandi hættirðu aldrei að leita svara og þekkingar, en ekki halda að amma þín sé ekki enn með gagnlegustu svörin!
Related
You might also like
This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.
Leave a Reply