Búum til betri börn

Búum til betri börn 150 150 Freyr

Í mörgu tilliti er ég tæpur meðalmaður. Í einum samanburði er staða mín betri. Ég hef reynst betri en meðaltalið í að búa til börn! Þetta er þó ekki frá konu minni komið heldur talar tölfræðin sínu máli. Fjórir föðurbetrungar fylla nú húsið, meðan fréttir berast af tæpum tveimur börnum á bú. Verandi viss um ágæti mitt á þessu sviði gæti talist gáfulegt að ég leiðbeini lýðnum. Ég hef ákveðið að ganga enn lengra og útskýra hvernig má ,,búa til“ betri börn.

Fyrir nokkrum árum í miðju fúafeni verkefna hitti ég Hrefnu vinkonu mína hjá Auðnast. Ég fór yfir sviðið. Ég útskýrði hvernig hinn fullkomni maður vinnur. Hann brunar til vinnu eftir sex tíma svefn, heilsar öllum glaðlega, hallar sér í korter í hádeginu, kemur seinnipartinn aftur heim og börnin standa brosandi á tröppunum. Hann heldur áfram að vinna af krafti að kvöldi og sofnar þreyttur og sæll með að afreka meira en allir aðrir. Ég var sáttur með mig, svona var mitt líf, fullkomið… nema þetta með börnin. Í mínu tilfelli biðu börnin ekki brosandi á tröppunum. Börnin voru hvert öðru erfiðara og krefjandi og tóku hressilega á taugarnar. Eftir fyrirlestur um mína fullkomnu framgöngu beið ég eftir góðum ráðum frá Hrefnu varðandi þessi vandræðabörn. 

Eftir að hafa hlustað af hlýju og athygli horfði Hrefna djúpt í augun á mér og sagði: ,,Freyr… sex tíma svefn, er það nóg? Ertu að hreyfa þig eins og þú þarft?“ Ég þagði fyrst, reyndi að malda í móinn. Hrefna brosti áfram blíðlega. Kalt vatn milli skinns og hörunds. Gat verið að börnin væru ekki sem verst í grunninn? Gat verið að herra fullkominn væri mesta fíflið sjálfur? Ég seig niður í stólinn. Brosti vandræðalega.

Nokkur ár eru liðin frá þessum eftirminnilega fundi okkar Hrefnu. Ég vildi að ég gæti sagt að síðan þá hafi ég haft vit á að tryggja eðlilegt álag, nægan svefn og hreyfingu alla daga. Því fer því miður fjarri. Það sem er breytt frá fundi okkar Hrefnu er eitt. Þegar fávitunum fer að fjölga í kringum mig og börnin eru orðin ómöguleg, þá kann ég nú ráð handa þreytta karlinum í speglinum. Ekki vera fáviti! Það er þinn eigin svefn, hvíld og hreyfing sem gerir vinnufélagana og börnin betri!

 


Innblástur

Hrefna og Auðnast

Stefán Magnússon og Eistnaflug sem báðu fólk vinsamlegast að vera ekki fávita.

 

Freyr

Freyr Ólafsson stjórnendaráðgjafi og eigandi Stöku ehf

All stories by: Freyr

Leave a Reply

Your email address will not be published.

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.