Posts By :

Freyr

Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin
Þrenna vikunnar: Venja í öðru veldi – Klikkað tækifæri – Mörkin 150 150 Freyr

Venja í öðru veldi

Vorið er komið og grundirnar gróa. Um allan bæ heyri ég af löngun til þess að hjóla, ganga eða hlaupa meira. Löngunin er ljómandi byrjun, en venjan er það sem vinnur á endanum. Í þeim anda fylgir ein einföld uppskrift sem vinnur með venju:

Smelltu þér 1 metra í dag, alls ekki meira! Tvo á morgun, fjóra hinn, síðan átta, sextán o.s.frv. Alltaf á sama tíma dags, alltaf sama áminningin eða undanfarinn, þ.e. rútínan við að koma sér af stað. Allt gert til að gera hreyfinguna aðgengilega og áhugaverða, síðast en ekki síst… engar undantekningar!

Ps. það er betra að setja sér efri mörk með þessa aðferð því annars ferðu lengra en hringinn í kringum landið á degi 22 og lengra en til tunglsins á degi 33! 😎

Klikkað

Ef ekkert hefur klikkað hjá þér undanfarna mánuði eru drjúgar líkur á að þú ráðir við meira krefjandi verkefni.

Mörkin

Hvar endar fjárfestirinn sem hafnar engum tækifærum? Hugbúnaðarfyrirtækið sem segir já við öllum beiðnum um nýja fítusa? Trjáræktandinn sem engar greinar klippir? Foreldrið sem segir já við öllum beiðnum barnsins?

Þegar öllu er á botninn hvolft þá skorum við líklega fleiri mörk með því að setja skýrari mörk.

Þrenna vikunnar: Hamingjudagar, framúrskarandi og blessaður tölvupósts blundurinn
Þrenna vikunnar: Hamingjudagar, framúrskarandi og blessaður tölvupósts blundurinn 150 150 Freyr

Hamingjudagar

Sem unglingur gekk ég með þá grillu í höfði að þriðjudagar væru óhappadagar. Líkt og ég væri keyrður í skólann á Hvolsvelli til þess eins að eitthvað kæmi uppá. Ég hlustaði náið eftir hnjóðsyrðum í minn garð, óheppni og almennum leiðindum. Því nánar sem ég hlustaði, því betur hélt reglan. Þriðjudagar voru þolraun, en þó aðeins jafn lengi og ég trúði á „regluna“. Sagði ekki Guðni Gunnarsson, „allt sem þú veitir athygli vex og dafnar“. Líklega að hluta skylt því sem sálfræðingar kalla staðfestingarskekkju (e. confirmation bias).

Þökk sé þessari reynslu vinn ég nú með hamingju- og heppnisdaga, alla daga! …og þvílíkt sem lánið leikur við mig, alla daga!

Framúskarandi

Skyldu margir skara framúr vegna vissunnar um að vera fremstir allra í flokki? Eða hægir mögulega mest á farmförunum við vissuna um að engra bætinga sé þörf til að skara framúr?

Blessaður tölvupósts-blundurinn

Margir segja að blundur sé bölvun, you snooze you lose. Ekki ég, ég blunda án samviskubits og mæli með, alla daga! Sérstaklega mæli ég með tölvupóst-blundum. Háklassa póst-hugbúnaður eins og Spark (fyrir makka), Frontapp (fyrir teymi), eða Boomerang viðbótin í Gmail bjóða upp á brilljant blundi. Með þessum tólum get ég sent póst og fengið áminningu ef ekkert svar hefur borist innan segjum 2ja daga. Þá get ég valið að pósturinn fari út þegar ég tel líkegasta til að hitta viðtakandann vel fyrir, t.d. eftir að viðkomandi er nývaknaður að morgni, eftir góðan blund, nú eða í næstu viku ef viðkomandi bað mig um að hafa samband þá. Pósturinn fær leyfi til að lúra í úthólfinu þangað til.

ps. Outlook er ekki alveg jafn lipurt, en þú getur samt blundað póstinn, sjá hér nú eða frestað útsendingu, sjá hér.

Þrenna vikunnar: Sjálfvirknivæðingin, auðæfin og frímínúturnar
Þrenna vikunnar: Sjálfvirknivæðingin, auðæfin og frímínúturnar 150 150 Freyr

Sjálfvirknivæðingin

Fjórða iðnbyltingin er hafin! Störf hverfa og breytast. Róbótar taka yfir margt sem áður var óhugsandi! Sumir eru óöruggir, jafnvel hræddir. Ég játa, ég er líka hræddur. Hræddur um þá sem taka ekki sjálfvirknivæðingunni opnum örmum í sínum rekstri! Enn hræddari er ég þó um þá sem taka „róbótana“ í sína þjónustu en láist að virkni-væða sig sjálfa, þ.e.a.s. hreyfa sig, fræðast, vera virk í samfélagi við aðra! Verum skynsöm, verum sjálf virk!

Auðæfin

Hvaða auðæfi eigum við meiri eða mikilvægari en tímann? Gætir þú gætt betur að þínum á einhvern hátt? Eða gengur þú um þinn auð eins og heimsins besta bisnessmanneskja?

Frímínúturnar

Fyrir mann á miðjum aldri getur verið skrýtið til þess að hugsa að barnaskóladagarnir hafi verið í þessu lífi. Svo margt hefur breyst frá því Viðar bóndi á Svanavatni keyrði í gegnum hlaðið heima í Hildisey á gamla Land-Rovernum og ók mér og öðrum niður í skólann í Gunnarshólma.

Við tóku vinnulotur, 40 mínútur að hámarki, við krakkarnir pössuðum vel upp á það! Þeirra á milli hlupum við út á tún (a.k.a. skólalóð) og hömuðumst í fótbolta, snjókasti eða hverju sem hæfði árstímanum, allt þar til kennarar kölluðu okkur inn, alltaf of snemma að okkur fannst!

Já, tímarnir breytast en ekki endilega mennirnir með. Ég hef a.m.k. fundið út að ég vinn enn best í 40 mínútna lotum eftir að hafa hamast úti á túni hér í Laugardalnum. Aðferðin nú kölluð fínu útlensku nafni, pomodoro og vá, hvað ég hefði verið til í að gefa í denn fyrir þann lúxus sem ég bý við núna… ég fæ sjálfur að stilla lengdina á frímínútunum!

Þrenna vikunnar: Lítið og ómerkilegt – Ritstjóri lífsins – Fullkominn hugbúnaður
Þrenna vikunnar: Lítið og ómerkilegt – Ritstjóri lífsins – Fullkominn hugbúnaður 150 150 Freyr

Lítið og ómerkilegt

Hvað þarf til að komast af stað? Stundum er lítið og ómerkilegt best. Að við finnum það minnast og ómerkilegasta sem við getum gert, sem þó kemur okkur ögn nær markmiðinu. Kosturinn við lítið og ómerkilegt er að því þarf ekki að fresta! Tekur því ekki að sleppa! Ein mínúta? Eitt skref? Strax að lestri loknum?

Ritstjóri lífsins

Einu sinni las ég í bók, sem ég er löngu búinn að gleyma hver var, hve snjallt það er að ráða sig sem ritstjóra, þó alls ekki við blaða eða tímaritaútgáfu, enda varla til valtari stólar en ritstjórastólar. Nei, ráðið er að gerast ritstjóri að eigin lífi! Ritstjóri sem veit að til að heildin verði góð þá þarf að klippa út og hafna miskunnarlaust, jafnvel stórgóðum köflum, jafnvel sínum uppáhalds.

Fullkominn hugbúnaður

Ég er ekki aðeins alinn upp í sveit, heldur líka í hugbúnaðargerð. Í þeim bransa lærði ég margt, eins og að fullkomnun er fallegt hugtak en vandmeðfarið. Þannig vann ég einu sinni með hópi af ungu, eldkláru og skapandi fólki að því heilan vetur að skrifa heilan haug af Word skjölum sem lýsti hönnun og virkni hugbúnaðar sem við ætluðum að búa til. Hugmyndin var fullkomin. Allt var gert samkvæmt aðferð þess tíma, „Waterfall“. Ótal fundum og blaðsíðum síðar lá fyrir hin fullkomna afurð, fullkomin lýsing á fullkomnum hugbúnaði. Fullkomið ferli ekki satt? Það var bara eitt „smáatriði“ sem var ekki upp á tíu. Okkur láðist að spyrja, fyrir hvern? Fyrir utan hópinn sem kom að „hugbúnaðargerðinni“ var því miður enginn áhugi á vörunni. Það var enginn viðskiptavinur! Fullkomið klúður!

Eftir stendur því enginn forritskóði eða hugbúnaður, en góðar minningar og þessi ófullkomna saga, enda fullkomnun stórvarasöm! 😇

Þrenna vikunnar: Sóunar bingóið – Spurningar og svör – Kassarnir mínir
Þrenna vikunnar: Sóunar bingóið – Spurningar og svör – Kassarnir mínir 150 150 Freyr

1-Sóunar bingóið

Ein mesta gleðin í ferlagreiningum, er að finna „fullkomna“ sóun. Endurtekin verk sem eru óþörf, án þess að nokkur hafi áttað sig á því.

Prófaðu að rýna í verkefnalistana og ferlana og spyrja þig, eða þitt fólk: Af hverju? Ítrekað, eins og forvitið barn varðandi hvern lið. Ef lokasvarið við spurninga-rununni er „bara“, eða „við höfum alltaf gert þetta svona“, þá gæti verið komið bingó!

2-Spurningar og svör

Ég titla mig ráðgjafa. Réttnefni? Ekki endilega. Í mínum huga er nefnilega engin spurning að krefjandi spurningar og góðar þagnir færa viðmælandanum fleiri svör en að ryðja frá sér ráðum.

3-Kassarnir mínir

Ég hef mikla trú á „kössum“ og lotum til að afkasta, föstum venjum og nota sjálfur nokkra vel valda „kassa“ til að koma frá mér Þrennu vikunnar:

  1. Geymslu-kassinn minn er í Notion, þangað hendi ég inn hugmyndum, hvenær sem þær koma til mín yfir vikuna. Ágætis geymsla, í dag með 300 punktum sem bíða síns tíma 😅
  2. Klukkan 7 á þriðjudagsmorgni, að lokinni léttri æfingu, stíg ég inn í kassa sem bíður mín á dagatalinu, legg hendur á lyklaborðið og byrja að skrifa. Skrifa þar til ég er kominn með (helst) þrjár hugmyndir, en þó aldrei lengur en til klukkan 9, með einni pásu í kringum 8 til að kveðja fólkið mitt.
  3. Klukkan 9:00 á fimmtudagsmorgni loka ég síðasta kassanum þegar ég ýti á takkann og sendi frá mér Þrennu vikunnar. Klukkutímana á undan fínisera ég og bý til birtingar, alltaf í næði, alltaf eftir einhverja hreyfingu.

Með kassana á sínum stað í dagatalinu, tryggi ég að hausinn hlaupi ekki útundan sér. Hafi sinn ramma, svo þú fáir örugglega Þrennu vikunnar. Ætli megi ekki kalla mig ferkantaðan? Eða hálfgerðan pappakassa? 🙂

Þrenna vikunnar: Hnefinn og brosið, um eitt skipti og áratug, eldavélarhellu og endurgjöf
Þrenna vikunnar: Hnefinn og brosið, um eitt skipti og áratug, eldavélarhellu og endurgjöf 150 150 Freyr

Hnefinn og brosið

Hvenær vinnur krepptur hnefi? Við kreppum hnefann framan í heiminn og hnefi kreppist í eigin kvið. Allir tapa. Er til betri leið?

Hvenær töpum við á því að brosa? Með brosinu færum við heiminum gleði og kviðnum léttleika. Hver sem staðan er. Allir vinna. Er til betri leið?

Eitt sinn

Hvað gerir að sleppa hreyfingu einn dag? Klippa klukkutíma af nætursvefninum? Litlu eitt sinn.

Hvað gerir að skipta út snúð fyrir gulrót? Símahangsi fyrir samveru með vinum? Vatni fyrir vín?Litlu eitt sinn.

Endurtakist í ár, eða áratug og þetta litla eina getur orðið ansi drjúgt. Mjór er mikils vísir.

Eldavélarhellan

Það er svo misjafnt hve hratt við lærum af mistökum. Ör endurgjöf er lykill, það vita þeir sem hafa lagt hönd á heita hellu.

Í lífi og starfi er ör endurgjöf fágæti, of fáar „heitar hellur“ og enginn annar sem kemur þeim fyrir en við sjálf. Okkar er að koma fyrir í dagatalinu stundum þar sem við stöldrum við, skoðum vikuna eða mánuðinn. Hvar fór ég út af sporinu? Af hverju? Hvernig kem ég í veg fyrir feilsporin í næstu lotu?

Án endurgjafar, jafnvel bara sinnar eigin, er erfiðara að læra.

Þrenna vikunnar: 1001 afsökun, fulltrúi djöfulsins, mínútur, orð og virði
Þrenna vikunnar: 1001 afsökun, fulltrúi djöfulsins, mínútur, orð og virði 150 150 Freyr

1 – Þúsund og ein afsökun

Ég hef átt betri vikur, magapest, allt í gangi á öllum vígstöðvum. Átti til 1000 afsakanir til að færa þér ekki þessa Þrennu vikunnar. Kom þá í hug saga sem ég heyrði af miklum meisturum, Kára Jóns, afreksþjálfara Ármenninga og Íþróttasambands fatlaðra og hans skjólstæðingi Patreki, spretthlaupara með meiru. Patti var eitthvað aumur í upphafi æfingar og spilaði út „blinda kortinu“ sem afsökun, enda sannarlega löglega blindur. Kári hallaði sér að Patta og sagði á sinn hlýja og hvetjandi hátt: „Patti minn, það eru allir með 1000 afsakanir, þú ert bara með 1001“. Ég þarf ekki að nefna að Patti skilaði rúmlega sínu á þeirri æfingu sem öðrum.

2 – Fulltrúi djöfulsins

Hver er fulltrúi djöfulsins við þitt borð? Tíundi Ísraelinn? Sá sem hristir upp í hópnum. Kemur með mótrökin, þessa hollu sýn sem fær okkur annað hvort til að sannfærast um að ákvörðunin sé sannarlega rétt, eða efast nóg til að skipta um skoðun.

3-Mínútur, orð og virði

Er eitthvað vit í því að telja (og selja) mínútur í „business“. Á stundum held ég það sé álíka gáfulegt og að meta gagnið af pistlum í fjölda orða. Hvað ertu að láta frá þér? Hvað stendur eftir? Hvers virði er það?

Þrenna vikunnar: Námið, vinskapurinn og liðsuppstillingin
Þrenna vikunnar: Námið, vinskapurinn og liðsuppstillingin 150 150 Freyr

1-Námið

Í mörg ár lærði ég orðflokkagreiningu, stórgóða stærðfræði, hornafræði, heildun, línulega algebru, að ógleymdri efnafræðinni, um sýru-basa indikatora o.fl. Stórmerkilegt stöff var mér sagt, svo gott fyrir framtíðina. Fyrir mig, gjörsamlega gagnslaust.

Á samfélagsmiðlum (Twitter) hef ég undanfarnar vikur lært af frösum eins og: „Oft forðumst við að taka af skarið því okkur finnst við þurfa að læra meira, þegar besta leiðin til að læra meira er oftar en ekki að taka af skarið.“ …og „Skortur á sjálfstrausti drepur margfalt fleiri drauma en skortur á getu!“ Ómerkilegt stöff á ómerkilegum miðli segja sumir. Fyrir mig, gríðar gagnlegt.

Það er svo mikilvægt að halda unga fólkinu að alvöru námi!

2-Vinskapurinn

Tvær vondar vinkonur held ég sé hollt að losa sig við, öðrum fremur. Það eru þær öfund og gremja. Hreint ekki gefandi félagsskapur, sérstaklega ekki til lengdar. Það er fátt mikilvægara en að vera vandur að vinum!

3-Liðsuppstillingin

Það er þægilegt að vera í einsleitu teymi. Sami bakgrunnur, sömu viðhorf, sama kyn, svipaður aldur. Allir meira og minna sammála. Mjög þægilegt. En líklega eins og svo margt, ósköp gott í augnablikinu, en hreint ekki svo hollt til lengdar!

Þó Kári Kristjáns, ungfrú Snæfells og Hnappadals, sé flinkur línumaður, þá færi liðið ekki langt með sjö slíka inná. Hvernig stillir þú upp þínu liði?

Þrenna vikunnar: Skölunin, borgarhundurinn og hamingjan í verkunum
Þrenna vikunnar: Skölunin, borgarhundurinn og hamingjan í verkunum 150 150 Freyr

1-Skölunin

Skölun er skemmtilegt orð. Ómetanlegt í öllum rekstri. Að finna módel þar sem innkoman vex, öllu hraðar en fyrirhöfnin og útgjöldin. Að vinna með vogarafl þannig að hvert handtak verði að hundrað. Hver manneskja sem margir, hvert lítið teymi sem tugir. Að hver og einn geti unnið minna en skilað meiru! Hreint ekki alltaf augljóst, en mögulegt. Leitið og þér munuð finna!

2-Borgarhundurinn

Sem sveitamaður vorkenni ég oft borgarhundunum. Það er líkast til óþarfi. Hjá góðu fólki eru þeir líklega í betri málum en „bakveikir í Borgartúni“*. Hundurinn fær matinn á silfurfati , jafnvel í orðsins fyllstu, með öllum helstu næringarefnum, nægur tími fyrir núvitund og hugleiðslu, skíturinn er skafinn upp eftir þá og hreyfingin, maður lifandi! Ganga eða hlaup kvölds og morgna alla daga, teymdur áfram af elskandi þjálfara! Kannski borgar sig að vera borgarhundur eftir allt saman?!

3-Hamingjan í verkunum

Hamingjan, hún er hér, söng vinur minn Jónas. Holl áminning. Við þurfum þá kannski ekki að bíða eftir næsta stóra díl, að ná á toppinn fyrst hamingjuna má allt eins finna hér, á krókótta stígnum sem við stikum, í erfiðinu í dagsins önn. Eða eins og Tagore sagði: „Ég svaf og mig dreymdi dásemdarlíf. Ég vaknaði og lífið var verkum hlaðið. Ég vann og ég vann og vittu til, í verkunum var mín dásemd.“**

Neðanmáls:

*“Bakveikur í Borgartúni“ er frasi sem Simmi smiður og Bjarni Már bróðir nota gjarnan sem samheiti yfir okkur (of lengi) sitjandi skrifstofumenn.

**Þýðing mín á texta bengalska Nóbelskáldsins Rabindranath Tagore: „I slept and dreamt that life was joy. I awoke and saw that life was duty. I worked—and behold, duty was joy.“

Þrenna vikunnar: Veröld breytinga – Láttu ekki bransann blöffa þig – Hinn og salan
Þrenna vikunnar: Veröld breytinga – Láttu ekki bransann blöffa þig – Hinn og salan 150 150 Freyr

Veröld breytinga

Við ráðgjafar erum sjaldnast kallaðir til til að viðhalda ástandi í rekstri. Kemur þó fyrir. „Þetta er allt í lagi hjá okkur, er það ekki? Við þurfum ekkert að flýta okkur að breyta neinu, er það?“ Vondar fréttir. Veröld dagsins er veröld breytinga, um allan heim. Þar sem nýjungar koma nú jafnt frá Kaliforníu sem Kópaskeri.

Hik er tap. Þín eru tækifærin! Ef þú grípur þau ekki, þá mun sá næsti gera það og gera þig að næst besta kostinum eins og hendi sé veifað!

Láttu ekki bransann blöffa þig!

Þó heimurinn breytist hratt, þá þróumst við sem tegund óskaplega hægt. Bragðskyn okkar hefur þróast í gegnum árþúsundir þannig þeir sem nærðust á sætu, söltu og feitu komu genum sínum frekar til næstu kynslóðar. Að treysta bragðskyninu einu í blindni í dag er varasamt í meira lagi, þökk sé örri þróun í matvælaframleiðslu og þekkingu bransans á okkar innbyggðu veikleikum. Láttu ekki bransann blöffa þig!

Athygli okkar og viðbragð þróaðist eins og annað á óvæginn hátt. Þeir sem ekki tóku eftir, eða brugðust við áreiti, alvöru hættum, hrundu af genavagninum. Að stökkva til og elta allt það sem vill fanga athygli okkar á snjalla skjánum í dag er varasamt í meira lagi. Þökk sé örri þróun í hugbúnaðargerð og þekkingu bransans á okkar innbyggðu veikleikum. Láttu ekki bransann blöffa þig!

Hinn

Ekki gleyma að í sölu og þjónustu þá snýst málið ekki um þig, heldur hinn, um viðskiptavininn, skjólstæðinginn! Hver er hann? Hvað er hann að pæla? Hver eru hans vandamál? Leystu þau og vittu til, báðir brosa við uppgjörið.