Margfalt síðar – Átök og hreysti teyma – Stubbnum kastað
Margfalt síðar – Átök og hreysti teyma – Stubbnum kastað 150 150 Freyr

Margfalt síðar

Á hverju getur þú tekið í dag sem þú munt þakka þér margfalt síðar?

Hvern getur þú eflt og styrkt í dag, sem mun þakka þér margfalt síðar?

Átök og hreysti

Blótarðu stundum átökum í eigin teymi? Eða átakaleysi?

Hefur já-kórinn alltaf rétt fyrir sér, af því hann syngur einni röddu?

Stundum eru átök, önnur rödd við borðið, einmitt hraustleikamerki. Einmitt það sem þarf til að bæta útkomuna.

Stubbnum kastað

Stubburinn ég stökk út úr búðinni á björtum eftirmiðdegi, arkaði að bílnum. Sá útundan mér hávaxið glæsimenni halla sér upp að glæsikerrunni sinni. Svo sá ég strókinn. Hann var einn af þeim. Reykingamaður! Ég strunsaði áfram, með uppbrett trýnið. Fulltrúi fullkomleikans hér á jörð. Hann tók stubbinn, henti í jörðina og traðkaði á (þ.e. á rettunni, ekki mér).

Hann hefði allt eins getað grýtt mér. Siðapostulanum snar hitnaði í kviðnum. Með samanbitnar tennur, sannfærður um eigin ágæti, spurði ég manninn: „Gerirðu þetta heima hjá þér?” Hann hváði við. „Hendirðu stubbum á stofugólfið heima hjá þér?”, hélt ég áfram, tilbúinn í gagnárásina frá nýfundnum andstæðingi. Maðurinn brosti til mín með öllu andlitinu. Það var eins og hann hefði fundið upp afstæðiskenninguna sjálfa þarna á bílaplaninu. „Já, heyrðu, ég hafði bara ekki hugsað út í þetta. Takk kærlega fyrir þetta!”, sagði hann og tók upp stubbinn.

Þessu svari átti ég síst von á. Hlunkaðist inn í bílinn. Ekki eins og sigurvegari, heldur eitthvað allt annað. Afvopnaður ók ég af stað. Á næstu ljósum leit ég til hliðar. Úr næsta bíl brosti hann til mín og veifaði. Ég veifaði á móti og kreisti fram bros. Hristi hausinn yfir afskiptaseminni í mér. Enn meira yfir reiðinni. Ó, hve reiðir litlir kallar geta verið kjánalegir.

Að minnsta kosti annar okkar lærði eitthvað þennan dag.

Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn
Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn 150 150 Freyr

Grjót og gler

Eftir allt of langan vinnudag las ég línu á Twitter eftir einn minn uppáhalds vitring (@paraschopra): „Ég verð að segja að það er vonlaust að vinna á hámarks afköstum lengur en 3-4 tíma.“ Hristi þreyttan hausinn og brosti út í annað. Ákvað samt að að morgni myndi ég skrifa um eitthvað allt annað en tímastjórnun og afköst. Grjót er best geymt inni í glerhúsum.

Mæta manneskja!

Hvað gerir manneskjur að mætum manneskjum? Góð byrjun er líklega að mæta eins og manneskja. Gera sitt. Moka sinn flór. Hegða sér eins og mæt manneskja. Sönn. Alla daga. Ekki bara meðan kastljósið lýsir upp sviðið.

Teygjan og títuprjónninn

Ég er eins og æfingateygja. Flöt og þunn gúmmíteygja sem er bara ómerkileg hrúga í horni meðan hún er ekki í notkun. Teygja sem fer fyrst að gera gagn að viti þegar togið byrjar.

Þarf að minna mig á að teygjur hafa sín takmörk. Því kröftugar sem togað er, því þynnri verður hún. Þynnist þar til ekki þarf nema eina litla rifu. Í ystu mörkum þarf ekki nema eitt títuprjónsgat, þá er teygjan brostin. Gott að muna. Sárt að gleyma.

Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir
Að velja og hafna – Þjónn og herra – Upphaf og endir 150 150 Freyr

Að velja og hafna

Til að ná stórum sigrum í framtíð getum við vart annað en neitað okkur um ýmislegt, stórt og smátt í núinu.

Kúnstin er að velja og hafna.

Til að ná stórum sigrum í framtíð verðum við að grípa tækifærin í núinu, stór og smá, stökkva af stað, án þess að hika.

Kúnstin er að velja og hafna.

Þjónn og herra

Dreymir þig um að stjórna meiru? Verða jafnvel „eigin herra“? Fer nett í taugarnar á þér þegar stjórinn pikkar í þig og þú getur ekki annað en stokkið til?

En hver er þinn kröfuharðasti „herra“ í dag? Liggur hann stundum í þínum eigin lófa?

Er fyrsta skrefið að því að verða „eigin herra“ mögulega að slökkva á öllum tilkynningum frá símanum? Tryggja þannig að hann kalli þig ekki til annarra „verka“ þegar síst skyldi? Að tryggja að síminn sé sannarlega þinn þjónn sem þú pikkar og potar í þegar þér hentar en ekki öfugt?

Upphaf og endir

Hví bölva svefnleysi að morgni þegar rótin liggur í venjum kvöldsins?

Hví bölva rótleysi dagsins að kvöldi þegar vandinn liggur í venjum morgunsins?

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Ferlasport – Pirringur – Reynslan kennir
Ferlasport – Pirringur – Reynslan kennir 150 150 Freyr

Ferlasport

Hver er aðferðafræðin? Ferillinn? Það er hollt að muna að það gefur margfalt meira að snikka til ferilinn heldur en tilvikið, útkomuna. Eða hvað gerir glassúr fyrir gallsúra köku?

Hættum að ergja okkur á einni ónýtri „köku“. Bætum ferilinn og allt sem á eftir kemur verður aðeins betra.

Pirringur

Hvað eiga pirrandi hljóð, pirrandi dagskrá og pirrandi nágranni sameiginlegt? Er það kannski bara fyrra orðið í dúettinum?

Getur verið að þetta orð, þessi pirringur, eigi heima hjá okkur sjálfum? Með aðeins meira umburðarlyndi standi bara eftir hljóð, dagskrá og nágranni sem gefa okkur ekki tilefni til annars en að brosa, þó ekki væri nema út í annað?

Getur verið að hugarróin komi ekki að utan, heldur sé okkar að finna hið innra?

Reynslan kennir

Segðu mér og ég seinna gleymi.

Kenndu mér og ég kann að muna.

Lof mér að reyna og í minni allt geymi.

Íslensk útgáfa FÓ á speki forna kínverska heimspekingsins Xunzi

Hreiðrið yfirgefið – Getan – Þögnin
Hreiðrið yfirgefið – Getan – Þögnin 150 150 Freyr

Hreiðrið yfirgefið

Sem faðir velti ég oft fyrir mér hvort ég sé að gera nóg fyrir börnin mín. Hvort ég sé að búa þau nógu vel undir að yfirgefa hreiðrið. Efast. Langar að gera betur.

Er sama hugsun holl fyrir vinnustaði? Að stjórnendur hugsi ekki aðeins um hvernig starfsmenn nýtast í núinu, heldur velti fyrir sér hvort verið sé að gera nóg til að búa þau undir að yfirgefa „hreiðrið“?

Hvað getum við gert? Við fræðum og hvetjum, reynum að efla sem við mest megum. Við færum þeim tól og verkfæri, ráð og ábendingar sem nýtast til langrar framtíðar. Hugsum um þeirra langtíma hagsmuni fyrst og fremst.

Er til betri leið? Hvað mun starfsmaðurinn segja um slíkan vinnustað að skilnaði? Já, eða af hverju ætti viðkomandi yfirhöfuð að vilja yfirgefa slíkan vinnustað?

Getan

Nýi málsháttur vikunnar: Meta mætti að meiru margur eigin getu!

Þögnin

Hvað er þögn nema tilgangslaust tóm? Aumt gat til að fylla? Ekki endilega. Þögnin getur einmitt verið einstök uppspretta afls og áhrifa.

Rétt tímasett þögn er oft áhrifamesti hluti ræðunnar. Upp úr þögn fundarins rísa leiðtogar, meðan aðrir hika og horfa í gaupnir sér.

Í þögn og næði fáum við ekki aðeins kærkomið tækifæri til hvíldar, heldur einnig til að tengja saman hugmyndir og hugsanir, meðvitað og ómeðvitað.

Í þögn eftir krefjandi spurningu getum við fundið svör sem við vissum ekki að við hefðum.

Rétta tímalínan – Leiðin fram á við – Falin tækifæri
Rétta tímalínan – Leiðin fram á við – Falin tækifæri 150 150 Freyr

Rétta tímalínan

Fyrir stjarneðlisfræðingnum er öld lítið meira en rykkorn á tímalínunni. Fyrir óþreyjufullum nemanda er biðin eftir næstu frímínútum sem eilífðin sjálf (hér er talað af reynslu!).

Er önnur sýnin réttari en hin?

Því leyfi ég mér að spyrja. Hvaða tímalínu ert þú að nota til að vega og meta þín mál? Er það örugglega sú rétta?

Leiðin fram á við

Gekk vel? Gekk illa? Hvort heldur er þá hlýtur besta leiðin fram á við að felast í því að eyða sem allra minnstri orku í það sem við höfum ekki stjórn á og sem allra mestri í það sem við höfum eitthvað um að segja! Áfram gakk.

Falin tækifæri

Ef það er eitthvað sem ég hef lært af ævintýrum undanfarinna ára þá er það það að ný tækifæri svífa sjaldnast um í lausu lofti og bíða spennt eftir að detta niður í fangið á okkur.

Tækifærin fela sig frekar í fangi annars fólks. Hreyfa sig helst í góðu spjalli, einn á einn, þegar traustið er tryggt. Ný tækifæri verða jafnvel til í slíku spjalli, bræður og systur hinna fyrri.

Þannig að ef þú ert í leit að nýjum tækifærum, þá ertu mögulega í raun í leit að góðu fólki, nýjum tengslum, traustum samskiptum.

Aðeins útvortis – Slönguspilin – Leiðtoginn
Aðeins útvortis – Slönguspilin – Leiðtoginn 150 150 Freyr

Aðeins útvortis

Matvæli og lyf eru merkt í bak og fyrir, leiðbeiningar fylgja. Við setjum nú ekki hvað sem er ofaní okkur hvenær sem er.

Ég hugsa nú stundum mitt þegar á augum eða eyrum dynur innantómt upplýsingaflóðið. Það má nú deila um hvort allt sem er sagt eða skrifað sé hæft til neyslu. Ég held a.m.k. að margt mætti merkja sem: „aðeins útvortis“.

Slönguspilin

Í hefðbundnu slönguspili er það teningurinn einn sem ræður hvort við komumst klakklaust á endareit. Í lífsins „slönguspilum” er teningum líka kastað en það munar meira um ýmislegt annað en teninginn.

Vitum við af hverju við viljum taka þátt? Hver er tilgangurinn? Af hverju langar okkur alla leið á toppinn? Hver er endareiturinn í raun?

Ef þetta er allt á hreinu þá trúi ég nefnilega að við séum öllu líklegri til að finna stigana og forðast slöngurnar, hvernig sem teningunum er kastað í lífsins „slönguspilum”.

Leiðtoginn

Fólk fylgir ekki leiðtoga vegna þess að leiðtogann langar til þess, heldur vegna þess að fólkið sjálft vill fylgja.

Langar þig að verða leiðtogi? Þá má spyrja. Hví ætti einhvern að langa að fylgja þér?

Von um betrun – 280 stafir – Ör-fundarráð
Von um betrun – 280 stafir – Ör-fundarráð 150 150 Freyr

Von um betrun

Ég hef lesið ótal bækur um góð vinnubrögð og skilvirkni, enn fleiri greinar og góð ráð, hef skrifað pistla um málið, haldið fyrirlestra…

Ég ætti sem sagt að geta fært þér hina fullkomnu uppskrift. Mín niðurstaða. Hún er ekki til. Að minnsta kosti er ég sjálfur svo fullkomlega ófullkominn að flesta daga skripla ég á skötu.

En er það ekki bara ágætt? Ég get þá áfram glatt mig með lestri og grúski, í leit minni að hinu fullkomna skipulagi. Leit sem lýkur vonandi aldrei, því hvað er líf án vonar um endurbætt líf, rétt handan við hornið?

280 stafir

Mér finnst bækur bestar, með sinni dýpt og lengd. Skýrslur skýra, með myndum og gröfum. Einblöðungar uppáhald! Ydduð skilaboð, óþarfinn út. Holl samantekt. En æ oftar togar twitter lengd mig til sín. Hámark 280 stafir. Les frekar. Gríp betur. Læri. Bara kjarni. Hismið skilið frá.

Ör-fundarráð

Ef þú vilt létta dag og lund, þá leyf þér kveðja þvaðursfund.

Hrífandi texti- Nýsköpunaruppskrift – Á morgun
Hrífandi texti- Nýsköpunaruppskrift – Á morgun 150 150 Freyr

Hrífandi texti

Hvað þarftu til að hrífa fólkið með? Gæti hnitmiðaður texti gert gæfumuninn? Myndrænn, hvetjandi og skiljanlegur texti sem heillar hvern sem heyrir eða les? Jafnvel heila þjóð?

„Við veljum að fara til tunglsins. Við veljum að fara til tunglsins áður en áratugurinn er allur, […] ekki vegna þess að það er létt, heldur vegna þess að það er erfitt, því þetta markmið mun nýtast okkur við að ná utanum og mæla okkar fremstu krafta og færni, því þetta er áskorun sem við viljum takast á við, erum ófáanleg til að fresta, og ætlum okkur að sigrast á[…]” John F. Kennedy, 12. sept 1962

Nýsköpunaruppskrift

Áhöld og efni:

1 klár kollur, helst fleiri auk óþrjótandi úthalds

1 pottur

10 hugmyndir, ósíaðar

1 niðurskurðarhnífur, flugbeittur

Hendið 10 hráum hugmyndunum í pott. Skolið ekki. Stelið jafnvel frá öðrum.

Látið liggja í pottinum í a.m.k. eina nótt.

Hrærið í að morgni og hendið úr því sem illa þolir nýju dagsbirtuna.

Leyfið bestu hugmyndunum að krauma áfram.

Áður en rétturinn er tilbúinn, sýnið og smakkið til með sem flestu fólki.

Betrumbætið og kryddið.

Takið loks upp úr pottinum og berið fram snotra litla bita á fallegu fati (viðbúin að þurfa að bæta enn næstu hræru).

Á morgun

Það er svo gott við þessa daga að það kemur alltaf einn til. Þó gærdagurinn hafi ekki farið að óskum, þessi fari jafnvel stirðlega af stað, þá má alltaf nýta það sem eftir lifir dags til stilla sig af fyrir nýtt upphaf, fyrir breytingar til hins betra… Á morgun!

Að sleppa – Að byrja – Að beina
Að sleppa – Að byrja – Að beina 150 150 Freyr

Að sleppa

Einu sinni æfði ég spjótkast. Nú æfi ég skriftir. Meiri líkindi en margan gæti grunað. Árangurinn byggist mest á því að bæta sig og styrkja í atrennu og útkasti. Þar er grunnurinn lagður. Svif og lending er afleiðing af því sem á undan fer.

Það sama gildir um pistla og köst. Tími og athygli sem varið er í að fylgjast með hvernig pistill svífur og lendir hinum megin mun tæplega bæta mikið árangurinn. Mikilvægara er að sinna því sem gerist áður en hönd sleppir, hvort heldur afrek eru unnin með spjóti eða lyklaborði.

Að byrja

Viltu koma þér af stað aftur af krafti? Þá er ágætt að muna að það sama gildir og við akstur í snjó og hálku. Það fer snjaldnast vel að gefa allt í botn þegar leggja á af stað. Þú kemst fyrr þangað sem þig langar með varfærinni byrjun, þó hjólin snúist hægt í fyrstu.

Að beina

Hvert vill vatnið renna? Ertu nokkuð að reyna að burðast með það aftur upp fjallið í fötu?

Stundum verðum við að sætta okkur við eðli og vilja vatns og manna. Vinna frekar með og reyna að beina í nýjan farveg, niður í mót, heldur en að berjast á móti ríkjandi kröftum.