afköst

Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn
Grjót og gler – Mæta manneskja! – Teygjan og títuprjónninn 150 150 Freyr

Grjót og gler

Eftir allt of langan vinnudag las ég línu á Twitter eftir einn minn uppáhalds vitring (@paraschopra): „Ég verð að segja að það er vonlaust að vinna á hámarks afköstum lengur en 3-4 tíma.“ Hristi þreyttan hausinn og brosti út í annað. Ákvað samt að að morgni myndi ég skrifa um eitthvað allt annað en tímastjórnun og afköst. Grjót er best geymt inni í glerhúsum.

Mæta manneskja!

Hvað gerir manneskjur að mætum manneskjum? Góð byrjun er líklega að mæta eins og manneskja. Gera sitt. Moka sinn flór. Hegða sér eins og mæt manneskja. Sönn. Alla daga. Ekki bara meðan kastljósið lýsir upp sviðið.

Teygjan og títuprjónninn

Ég er eins og æfingateygja. Flöt og þunn gúmmíteygja sem er bara ómerkileg hrúga í horni meðan hún er ekki í notkun. Teygja sem fer fyrst að gera gagn að viti þegar togið byrjar.

Þarf að minna mig á að teygjur hafa sín takmörk. Því kröftugar sem togað er, því þynnri verður hún. Þynnist þar til ekki þarf nema eina litla rifu. Í ystu mörkum þarf ekki nema eitt títuprjónsgat, þá er teygjan brostin. Gott að muna. Sárt að gleyma.

Þrenna vikunnar: Nýsköpun, frá og með öðrum, Ómar Ragnarsson og afköstin
Þrenna vikunnar: Nýsköpun, frá og með öðrum, Ómar Ragnarsson og afköstin 150 150 Freyr

1 – Góðar hugmyndir koma frá öðrum
Í bók sinni, „Where good ideas come from“, segir Steve Johnson í löngu máli frá því hvaðan góðar hugmyndir koma. Ég get sparað þér langan lestur. Bókin segir: Góðar hugmyndir koma frá öðrum! Allt frá litlum nýjungum til helstu uppgötvanir sögunnar.
Í aðeins lengra máli: Nýsköpun blómstrar í samvinnu þar sem tækifæri til óvæntra tenginga eru til staðar. Magnaðar uppgötvanir spretta oft af litlum hugboðum og hugmyndum sem þroskast og þróast yfir í aðrar yfir langan tíma. Eða upp á enskuna: „Chance favors the connected minds.“
Ps. Ekki láta þig samt dreyma um að drifkrafturinn til að tengja og fylgja á eftir góða hugboðinu komi frá öðrum! Þitt er að láta kné fylgja kviði!


2 – Vatnskælar, hraðlar og klasar virka!
Í miðri COVID krísu er erfitt að mæla með hönnun sem hvetur til náinna samskipta, ég geri það samt. Samskipti geta verið góð og gefandi þó tveir metrar séu á milli:

  • Ef þú vilt að fyrirtækið* þitt fóstri nýsköpun, hannaðu þá rýmið til óvæntra samskipta. Vatnskælar virka, ekki bara til að slökkva þorsta!
  • Ef þú vilt að fyrirtækið þitt fóstri nýsköpun, skipuleggðu þá „hakkaþon“, nýsköpunardaga, „ship it“ daga. Ör samskipti og gerjun gefa!
  • Ef þú vilt að fyrirtækið þitt fóstri nýsköpun, styddu þá við leik og lærdóm með öðrum. Þing geta þeytt hausum í gang. Rétt útfært samstarf fyritækja, t.d. klasasamstarf innan geira, getur gert tvo + tvo að einhverju miklu meira en fjórum!

*fyrirtæki = Fyrirtæki, stofnun, opinber aðili, í háskólanum nefnt einu orði skipulagsheild.


3 – Akstursráð Ómars og aukin afköst á skrifstofunni
Ég hugsa oft til Ómars Ragnarssonar við akstur. Ómar segir t.d. að þreyttur bílstjóri ætti ekki að berjast á móti þreytunni heldur taka „ör-blund“. Ég vil meina að það sama gildi við krefjandi skapandi vinnu. Eru nýjar hugmyndir hættar að koma? Ör-blundurinn endurnærir alla hugsun! Ekki er ör-æfingin verri! Prófaðu 4ra mínútna tabata** skrifstofu-æfingu og nýju hugmyndirnar hrúgast inn á eftir!


**4mín tabata = Æfing að eigin vali í 20 sekúndur, 10 sek hvíld, endurtekið 8 sinnum, alls 4 mínútur

Hvernig verðu bestu stund dagsins?
Hvernig verðu bestu stund dagsins? 150 150 Freyr

Eitt er að verja og annað er að verja!

Stundir dagsins gefa mis mikið af sér. Munurinn á okkar bestu stundum og öðrum lakari er sjaldnast fáein prósent, heldur margfeldi, sérstaklega í skapandi vinnu og krefjandi. Þá er spurningin. Ef þú ert búin(n) að finna út hvernig þú ætlar að verja þinni bestu stund, hvernig verðu hana þá? Okkar bestu ættum við að verja með kjafti og klóm!

Til að verja stundina þarf gjarnan, líkt og í skák, að hugsa nokkra leiki fram í tímann. Ákveða staðinn og stundina, ákveða áminningu/kveikju (e. trigger), undirbúa daginn áður allt sem þarf, láta samstarfsfólk vita að þín gæða stund gefur gull í mund, eykur afköst og léttir lund!

Ef næði er uppspretta góðra hugmynda og afkasta, hvernig tryggirðu þú þá næðið? Sama á við ef lykillinn er hreyfing, næring, svefn, vel undirbúinn verkefnalisti frá kvöldinu áður, hljóðvist, umhverfi…? Hvers virði er stundin? Hversu langt ertu tilbúin(n) að ganga til að verja hana? Gera hana góða?

Fyrir suma er besta stundin jafnvel utan skrifstofunnar, hreyfing eða íhugun, ómetanleg samvera. Hvernig tryggirðu þá að þú náir þessari ómetanlegu stund, látir hana ganga fyrir öðru og látir ekki daga eða vikur líða án þinnar bestu?

Ef þú verð vel og vandlega þína bestu stund, eru auknar líkur á að þú náir að verja vel þinni bestu stund!

Fundur ríkisráðsins
Fundur ríkisráðsins 150 150 Freyr

Háttvirta ríkisráð!

Innilegar þakkir fyrir að boða mig hingað til þessa neyðarfundar. Við höfum áður sýnt það sem þjóð að þegar á reynir stöndum við saman og styðjum hvert annað. Þörfin er augljós og brýn! Ég er sérstaklega ánægður að vera nú kallaður til sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar varðandi þessar miklu áskoranir okkar. Ég á von á að útnefning mín stafi af „ríkisráðsfundi“ mínum, þ.e. því að ég skuli hafa fundið það sem hefur verið leitað að svo lengi, hið eina sanna „ríkisráð“! 

Það kann að hljóma töfrum líkast en vísindamenn hafa staðfest að ekkert eitt ráð gagnast betur einkafyrirtækjum og stofnunum, ekkert eitt ráð gagnast betur í menntamálum, minnkar útgjöld til heilbrigðismála, hvort sem er lyfjakaupa eða öldrunarþjónustu, hjálpar varðandi skilvirkari samgöngur, sem um leið er risavaxið umhverfismál! Mikilvægt er að þetta ráð hjálpar þjóðinni allri og bætir líðan hennar, er einfalt og aðgengilegt! 

Hálftíma hreyfing á dag, alla ævi!

Þið við þetta borð vitið vel hve staðan nú er alvarleg, hvert sem litið er. Öflugustu fyrirtæki heimsins vinna nú á hverjum degi inni á heimilum landsins, í lófum barna og fullorðinna, að því að halda þjóðinni frá hreyfingu. Lyfjarisarnir sleikja útum og bíða þess að selja landanum fleiri kokteila af örvandi og sljóvgandi lyfjum. Stór hluti nemenda, sérstaklega stráka finna sig ekki í skólum m.a. vegna hreyfingarleysis. Öldruðum fjölgar sem aldrei fyrr og áskoranir því tengdar. Götur borgarinnar eru troðfullar af fólki sem rúllar áfram í tveggja tonna jökkum og blótar því mest hve margir eru fyrir þeim á götunum. Minnstu munaði að við værum byrjuð að dæla peningum í að breikka göturnar fyrir breikkandi fólk en ekki að setja fjármagnið í það sem gefur okkur raunverulegan árangur sem þjóð! Þökk sé ykkur sem sitjið í ríkisstjórn fyrir að taka í taumana og að setja útbreiðslu „ríkisráðsins“ í forgang! 

Auðmjúkur tek ég til starfa strax í dag. Við megum engan tíma missa. Ég sendi ykkur drög að aðgerðaráætlun fyrir lok vikunnar, en við byrjum auðvitað á „ríkisráðinu“, hjá ríkisráðinu sjálfu! Guðni, þú hleypur með skokkhópnum seinnipartinn, ekki satt? Við æfðum saman í morgun Kristján Þór, svo þú ert í góðum málum, þið hin sendið mér staðfestingu þegar þið hafið náð ykkar hálftíma. Við erum sammála um að þetta er hæsti forgangur! Munum, þetta er bara hálftími á dag, spurningin er hvenær, ekki hvort!


Innblástur

Þrennt kom saman og varð kveikja að þessum pistli:

  1. Um helgina heimsótti ég Tallinn. Leiðtogar frjálsíþróttahreyfingar Evrópu komu saman, skiptust á hugmyndum og ræddu leiðir til að hreyfa við löndum sínum. Stefið ráðstefnunnar var einfalt: „Athletics to every home and on every phone“. Fyrir mér snýst þetta stef um ábyrgð okkar. Hlaup og hreyfing verða að ná athygli og fá tíma á hverju heimili og hverjum einasta síma álfunnar, ekki bara sem áhorfendur, heldur sem virkir þátttakendur! 
  2. Í ferðinni hlustaði ég á bókina Spark: The Revolutionary New Science of Exercise and the Brain. Vísindin liggja ljós fyrir. Hreyfing hefur gríðar mikil áhrif á heilann, hjálpar við nám, hægir á öldrun, minnkar kvíða, bætir lund. Bókin Spark kveikir neista sem verður að verða að loga. Við þurfum að hreyfa við skipulagi skólakerfisins, atvinnulífsins, okkar sjálfra! Rannsóknirnar liggja fyrir, vitneskjan er til staðar, en hvað erum við að gera? Hvers vegna byrja ekki allir dagar í öllum skólum landsins á hreyfingu?
  3. Neðangreind mynd á Kumu listasafninu fékk mig til að hugsa um skipulagða hreyfingu, fyrirskipaða og frjálsa. Í líkamlegri vinnu í Sovét var fólk skikkað til hreyfingar, það virkaði til betri afkasta, því var það gert, skv. skipunum. Í frjálsu fyrirtækjunum í dag þar sem heilinn er enn mikilvægari en handaflið, þá eru áhrifin enn meiri og áþreifanlegri, samkvæmt rannsóknum. Hreyfing skilar fyrirtækinu margföldum árangri, fólkið er skarpara, lærir betur, er ánægðara og afkastameira, en hvaða áherslu leggja þessi frjálsu sjálfstæðu fyrirtæki á hraustlega daglega hreyfingu starfsmanna? Er nóg að gert?
Tætt í gegnum daginn
Tætt í gegnum daginn 150 150 Freyr

Í landbúnaði lærði ég fyrst að vinna. Ungur tók ég hvers kyns vélavinnu fegins hendi, eins og að tæta upp tún. Á Zetor dólaði ég áfram í lága drifinu. Árangurinn náðist með einfaldri aðferð. Að byrja snemma, stoppa aldrei, láta ekkert trufla sig og hætta ekki fyrr en síðasti blettur var tættur. Ekki einu sinni kall náttúrunnar fékk að trufla, með handolíugjöfina fasta hélt ég í stýrið með annarri og vökvaði flagið með besta vininum með hinni. Einfalt líf á beinni braut.

Við vélavinnu sem þessa er maður strammaður af og í einum ham. Svo lengi sem svefninn er nægur til að sofna ekki undir stýri er maður í einföldustu vélavinnu í nokkuð góðum málum.

Nú er öldin önnur. Í borginni er ekki nein bein braut fyrir mig að aka eftir. Í frelsinu á skrifstofunni þarf ég að finna brautina sjálfur, hemja mig og temja.

Uppskriftin mín er svipuð og í sveitinni. Ef ég á krefjandi verkefni fyrir höndum þá virkar best að mæta snemma, vera vel sofinn, tryggja að ekkert geti truflað, slökkva á öllum tilkynningum í síma og tölvu, gera öllum ljóst að nú sé ég í ham¹.

Rétt er að taka fram að ekki eru allir morgunfuglar. Sumir eru nátthrafnar og skrifa og skapa best að kvöldi. En sama gildir hvort er morgunn eða kvöld, verkefnavings (e. multitasking) er vonlaus aðferð við krefjandi og skapandi vinnu, já líka fyrir ykkur konur!2

Við tætingar á túnum í sveitinni gat maður haldið áfram meðan enn var olía á tanknum og afköstin voru mest undir vélinni komin. Í borginni er það andinn okkar sem ræður afköstum. Andinn afkastar best í ,,fókuseruðum“ lotum og sprettum, ekki á langtíma lulli í lága drifinu. Við erum betri ef við tökum alvöru pásu. Vatnskælirinn eða kaffivélin eru þekkt fyrir að gefa góðan innblástur. Sannreynt er að skjálausar pásur, á hreyfingu, helst utandyra, með öðrum, gefa andanum besta fóðrið3.

Þegar líða fer á daginn og lækka á tankinum hjá okkur morgunfuglum er fínn tími til að koma sér í léttari verk. Þá er fínt að afgreiða tölvupósta eða fyrirspurnir, helst í lotu, hringja símtölin sem þarf að hringja, eða gera hvað annað sem krefst ekki of mikils andlegs styrks.

Að loknum degi getum við vonandi litið sátt yfir afköstin á ,,akrinum“. Þá búin að tæta í gegnum verkefni dagsins, vonandi ekki of tætt samt… og getum haldið heim á ný, fyllt aftur á tankinn, tilbúin í nýjar áskoranir á nýjum degi. Heldurðu að þú komist í ham í dag?


Pistillinn er tileinkaður pabba, sem hefði orðið 67 ára í dag. Hann kenndi mér að vinna. Með góðu fordæmi, nærveru og samveru sem ég sakna í dag sem aðra daga.


  1. Víða í ráðgjafarvinnu minni segir mér fólk sem vinnur í stórum opnum rýmum að vinnustaðurinn á vinnutíma sé ekki góður til að vinna. Pælið í því! Stór opin vinnurými eru ekki uppskrift að starfsánægju eða árangri, punktur! Já það má kaupa höfuðtól, mæta fyrr, vinna heima… en væri ekki betra að hanna vinnurýmið þannig að það henti til að ná afköstum og árangri? Líklega efni í sér pistil, en læt þennan punkt duga í bili.
  2. Rannsóknir sýna að karlar og konur eru jafn afleit í að ,,gera tvennt í einu“. Sjá t.d. pistil um málið hér.
  3. Daniel H. Pink fer vel yfir pásur til afkasta í öðrum kafla bókarinnar When. Sjá samantekt Samuel T. Davis hér.