Þrenna vikunnar: Letin, bílskúrinn og teygjubindið
Þrenna vikunnar: Letin, bílskúrinn og teygjubindið https://stakaconsulting.com/wp-content/themes/corpus/images/empty/thumbnail.jpg 150 150 Freyr https://secure.gravatar.com/avatar/6fc7350236567ba89080c6738b689db3?s=96&d=mm&r=gLetin mun sigra!
Hatrið mun sigra var sungið. Mín öfugmæli í sama anda eru: „Letin mun sigra“. Nýsköpun nærist á „leti“. Leit að léttari leiðum. Þögn færir hugmyndir. Góður svefn gefur grunn. Íhugun hugarró. Leggðu þig í vinnunni. Horfðu út í loftið í næði. Taktu göngutúr. Vittu til, snilld fæðist!
Mér sýnist raunar að því ofar sem við komumst í goggunarröð viðskiptalífsins, því mikilvægari virðist „letin“ verða. Sjáið Warren Buffet. Les bækur, spilar bridds og spjallar við vini árið um kring. Tekur eina ákvörðun og „sigrar heiminn“. Já, „letin“ mun sigra!
Bílskúr mínímalistans
Ég öfunda þau sem eiga alltaf snyrtilegan bílskúr eða geymslu. Hef heyrt því fleygt að þau færustu hafi einfalda reglu. Fyrir hvern hlut sem fer inn, þá fari a.m.k. einn hlutur út. Sama ku vera sniðugt í fleira samhengi. Hvað með ábyrgðarhlutverk? Bolta á lofti, verkefni …? Er einfaldara líf mögulega betra líf? Hvað losarðu þig við í vikunni?
Teygjubindið og kærleikurinn
Ég missteig mig í vikunni. Það var sárt. Svíður enn. Þurfti samt ekkert teygjubindi á ökklann. Fyrir barðinu á mér varð saklaus íþróttaþjálfari sem sjálfur missteig sig, aðra æfinguna í röð. Í stað þess að bjóða honum upp á „teygjubindið“ sem hann þurfti, yfirveguðu kærleiksríku leiðbeininguna (þessa sem fyrirmyndar Freyr fjallar um í fyrirlestrum 😇), þá snar fauk í mig. Horfði illilega á piltinn og lét hann heyra það. „Þú verður að sýna standard“, hreytti ég í drenginn.
Rann reiðin. Áttaði mig. Ég hefði ekki sagt það sama ef það hefði verið ökklinn sem klikkaði. Ég hefði ekki sagt það sama ef kærleikurinn hefði komið fyrst. Það er víst hollt að læra af reynslunni. Sárt en hollt!